Alþjóðadagurinn og fjölbreyttir möguleikar í skipti- og framhaldsnámi

Rúna Vigdís Guðmarsdóttir.

Á árlegum Alþjóðadegi HÍ þann 12. október kl 14:00- 16:30 á Háskólatorgi verður fjölbreytt skiptinám kynnt sem stendur öllum stúdentum Háskóla Íslands til boða. Þeir nemendur sem hafa áhuga á framhaldsnámi við skóla erlendis ættu einnig að finna eitthvað við sitt hæfi, því kynningin er ekki einskorðuð við skiptinám. Rúna Vigdís Guðmarsdóttir hjá Alþjóðaskrifstofu Háskóla Íslands var tekin tali á afmælisvef skólans. 

Alþjóðadagurinn í 15 ár
„Alþjóðadagurinn hefur verið haldinn í yfir fimmtán ár með góðum árangri og miklum áhuga viðstaddra. Fólki finnst gott að geta mætt á staðinn og aflað sér upplýsinga á aðgengilegan hátt,“ segir Rúna Vigdís og tekur fram að skipulagið hafi verið breytilegt á milli ára, kynningarborðum, erindum og skemmtiatriðum hafi ýmsit verið blandað saman.

„Síðustu árin höfum við starfað með Markaðs- og samskiptasviði skólans auk þeirra gesta sem koma og veita okkur liðsinni. Í þetta skiptið höldum við kynningar fyrir svið og deildir skólans dagana á undan Alþjóðadeginum og hvetjum svo fólk til að heimsækja kynningarborðin á deginum sjálfum, 12. október,“ segir hún. 

„Það eru ótal góðar ástæður fyrir að taka þátt í skiptinámi. Þótt námsframboðið við Háskóla Íslands sé mjög gott er mikilvægt að leita út fyrir landsteinana og auka möguleika sína í námi,“ segir Rúna Vigdís og tekur fram að samstarfsskólar erlendis skipti hundruðum og að víða megi finna námskeið sem falla vel inn í námsferil nemenda við HÍ en veiti þeim á sama tíma nýtt sjónarhorn á fagið sem þau nema.


Upplifunin og reynslan nýtist vel í nútímasamfélagi

„Margir vilja stunda nám erlendis en veigra sér við því vegna flókinna umsókna og hárra skólagjalda. Vissulega krefst skiptinámsumsóknin tíma og undirbúnings, en hún er í flestum tilfellum talsvert einfaldari heldur en ef um nám á eigin vegum er að ræða. Einnig er það stór kostur að skólagjöld við gestaskólann eru, með örfáum undantekningum, felld niður. Það þýðir að nemendur HÍ hafa færi á að stunda nám í dýrum háskólum erlendis fyrir aðeins 45 þúsund krónur, eða árlegt skráningargjald HÍ,“ segir Rúna Vigdís.

Hún tekur fram að upplifunin af því að búa í nýju landi og því að kynnast nýju fólki séu skiptistúdentnum dýrmæt og að hann læri að laga sig að nýjum aðstæðum. „Það eru eiginleikar sem eru eftirsóknarverðir og mikilvægar í nútímasamfélagi og gera okkur að sterkari einstaklingum í atvinnuleit, framhaldsnámi og í raun á öllum sviðum“.

Danmörk, Svíþjóð og Bandaríkin sívinsæl

Aðspurð að því hvert íslenskir stúdentar sækja, nefndi Rúna Vigdís nokkur lönd. „Ákveðin lönd eru sívinsæl og má þar nefna Danmörku, Svíþjóð og Bandaríkin. Vinsældir skóla og landa má þó oft rekja til ákveðinna faga og deilda því í mörgum tilfellum er samstarf milli skóla byggt á tilteknu sviði. Á hverju ári sendum við allmarga til Japans en þar er að mestu leyti um að ræða nemendur í japönsku. Við hvetjum umsækjendur til að hugsa svolítið út fyrir rammann og sækja um skóla sem er ekki mikið sótt í. Það eykur líkurnar á því að umsóknin beri árangur. Víða er gott námsframboð á ensku þótt það sé ekki opinbert tungumál landsins og um að gera að skoða lista yfir samstarfsskólana með opnum hug og með tilliti til fagsins sem verið er að leggja stund á,“ segir hún.

Stúdentar hvattir til að fjölmenna
„Við viljum hvetja sem flesta til að mæta og nýta sér tækifærið að spjalla við fólk sem getur veitt virkilega gagnlegar upplýsingar um nám erlendis. Gestir okkar koma frá erlendum sendiráðum og íslenskum stofnunum og samtökum, svo sem LÍN og Fulbright, svo það er einstaklega hentugt að hafa alla samankomna á einum stað,“ segir Rúna Vigdís. Hún bendir á að aðstandendur Alþjóðadagsins vilji vekja sérstaka athygli á happdrætti, en dregnir verða út tveir heppnir vinningshafar kl. 16 sem hljóti flugferð með Icelandair til Evrópu og til baka. „Við hlökkum til að sjá ykkur!,“ segir hún að lokum. 

deila á facebook