Börn, feður og fjölskyldutengsl

Í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands og 30 ára kennsluafmæli félagsráðgjafardeildar fléttar félagsráðgjafardeild saman fyrirlestri og ljósmyndum um börn, vinnu og feður á málþingi þriðjudaginn 18. október. Einn af skipuleggjendum málþingsins, Ásdís Ýr Arnardóttir, var tekin tali á afmælisvef skólans.

Samspil lista, menningar og félagsráðgjafar
„Í upphafi árs var stofnuð sérstök afmælisnefnd sem hafði það hlutverk að móta dagskrá vegna afmælisviðburða á árinu, en umfjöllun um börn, feður og fjölskyldutengsl er afar áhugaverð því um er að ræða tengsl sem hafa tekið miklum breytingum undanfarna áratugi,“ segir Ásdís Ýr.

„Feður taka meira þátt í lífi barna sinna og eru ekki bara fyrirvinna heimila, jafnframt sem börn fá að njóta bernskunnar lengur og taka almennt ekki hlutverk fyrirvinnunar. Okkur fannst þetta þarft efni sem og áhugavert til að fjalla um,“ segir Ásdís Ýr og bætir við að skipuleggjendurnir hafi munað eftir sýningu Sigrúnar Sigurðardóttur, Þrælkun, þroski, þrá. Sú sýning fjallar um börn við vinnu á sjó og í landi og er ætlað að vekja upp spurningar um vinnumenningu og barnauppeldi á Íslandi á 20. öld. Ljósmyndunum er ætlað að opna umræðu og hvetja fólk til að skoða fortíðina í nýju samhengi. „Okkur þótti þetta góð viðbót inn í umræðuna, sem er víðfeðm,“ segir hún.

„Með erindunum á málþinginu getum við því fjallað um um ákveðið málefni út frá ólíkum sjónarhornum, afmælisviðburðurinn mun örva sjón og heyrn og því að sýna fram á samspil lista, menningar og félagsráðgjafar,“ segir Ásdís Ýr.


Gestir hvattir til að taka þátt í pallborðsumræðum

Ásdís Ýr Arnardóttir, einn af skipuleggjendum málþingsins.„Pallborðsumræðurnar gefa tækifæri til þess að ræða við ólíka sérfræðinga, en í pallborði verða menningarfræðingur, félagsráðgjafar og félagsfræðingur. Þessir aðilar eiga það allir sameiginlegt að hafa unnið með eða kynnt sér sérstaklega málefnið í sínu fagi – hver á sinn hátt,“ segir Ásdís Ýr.

Hún segir að þeir sem sitja munu í pallborði með ýmsar mismunandi reynslu og áherslur. „Anni G. Haugen er lektor við félagsráðgjafardeild og starfaði mikið að barnaverndarmálum áður en hún kom til starfa við deildina, Páll Ólafsson er félagsráðgjafi hjá Barnverndarstofu, Sigrún Sigurðardóttir er menningarfræðingur og aðjúnkt við Listaháskóla Íslands og Ingólfur V. Gíslason er dósent í félagsfræði við félgs- og mannvísindadeild en meðal rannsóknarsviða hans eru ímynd karlmennskunar,“ segir hún og tekur fram að fólk sé hvatt til þess að spyrja spurninga.

„Félagsráðgjöf snýst um fólk“
„Félagsráðgjöf er ekkert mannlegt óviðkomandi. Kjörorðin okkar eru félagsráðgjöf snýst um fólk, svo einfalt en jafnframt svo flókið. Myndirnar hans Guðbjarts Ásgeirssonar og túlkun Sigrúnar Sigurðardóttur á þeim í sýningunni Þrælkun, þroski, þrá sýna birtingarmynd þess veruleika sem félagsráðgjöfin spratt að einhverju leyti úr. Myndirnar tengjast því félagsráðgjöf mjög náið, þær myndir sem sýndar verða á Háskólatorgi sína drengi í hlutverki fyrirvinnunar, með feðrum sínum í vinnu eða öðrum fullorðnum karlmönnum. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf, mun rita formála til að tengja saman ljósmyndirnar og fagreinina,“ segir Ásdís Ýr að lokum.

Málþingið Börn feður og fjölskyldutengsl - þrælkun, þroski, þrá er afmælisviðburður í boði Félagsráðgjafadeildar og fer fram þriðjudaginn 18. október á Háskólatorgi kl. 11:40 - 13:10. Fundarstjóri er Dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf. Nánar um viðburðinn í viðburðadagatali skólans hér:

deila á facebook