Félagsvísindi leysi kreppu stjórnmála og félagskerfis

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði og forseti Félagsvísindasviðs.

Ólafur Þórður Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði og forseti Félagsvísindasviðs, gat vel hugsað sér að verða stjórnmálamaður þegar hann skráði sig í nám í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands fyrir hátt í 40 árum. Fræðigreinin reyndist hins vegar svo heillandi að áhuginn á praktískri þátttöku hvarf. Ólafur segir að þótt efnahagsvandi þjóðarinnar sé mikill sé kreppa stjórnmálanna og félagskerfisins enn alvarlegri. Þar hafi félagsvísindin mikið fram að færa.

Ólafur mun hafa í nógu að snúast næstu vikurnar því október verður mánuður félagsvísinda í Háskóla Íslands á aldarafmælisári skólans. Með fjölbreyttum viðburðum, bæði á háskólasvæðinu og víðar um borg, slær sviðið botninn í vel heppnaða afmælisdagskrá allra fimm sviða háskólans.

Stjórnmálafræðin og félagsvísindin hafa verið stór hluti af lífi Ólafs allt frá því hann lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1977. Tveimur árum síðar lauk hann MS-prófi í sömu grein frá London School of Economics and Political Science og hóf í framhaldinu kennslu við Háskóla Íslands. Doktorsprófi lauk hann frá sama skóla árið 1994.

Ólafur hefur gegnt prófessorsstarfi við Háskóla Íslands í 11 ár og stýrði um langt skeið fjölmennustu deild skólans, Félagsvísindadeild. Þegar Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands sameinuðust árið 2008 tók hann við starfi forseta á fjölmennasta fræðasviði skólans, Félagsvísindasviði, en nemendur þar eru um fimm þúsund eða um þriðjungur allra nemenda skólans.

Þverfræðilegt samstarf vaxandi innan sviðsins

Ólafur telur sameiningu HÍ og KHÍ jákvætt skref sem hafi eflt báða skólana. Þeir hafi getað lært hvor af öðrum. „Enn eru þó mikilvægustu og erfiðustu verkefnin eftir, nefnilega að samþætta námskeið og námsefni Menntavísindasviðs og annarra fræðasviða skólans. Samskiptin við Menntavísindasvið hafa verið örvandi og skemmtileg og ég er ekki í nokkrum vafa um að sameiningin mun stuðla að öflugra kennaranámi og bættum kennsluháttum í Háskóla Íslands,“ segir Ólafur.

Innan Félagsvísindasviðs eru sex deildir og mikill fjöldi námsleiða. Aðspurður hvernig gangi að hafa yfirsýn yfir hið fjölbreytta starfs sviðsins segir Ólafur það snúið verk en fagleg ábyrgð sé hjá deildum sviðsins sem almennt standi sig mjög vel. „Ég hef reynt að setja mig inn í það sem menn eru að gera í ólíkum deildum og námsbrautum og það hefur verið ótrúlega gefandi. Fjölbreytileikinn er gífurlegur en samvinna og þverfræðilegt samstarf er öflugt og fer vaxandi,“ bætir Ólafur við.

Vísindarannsóknir verði ómissandi tæki stjórnmálamanna

Nýsköpun virðist lykilorð í samfélaginu í dag og aðspurður um vaxtarsprota í nýsköpun bendir Ólafur á að félagsvísindin fáist m.a. við grunngerð samfélagsins, hagkerfið, stjórnmálakerfið, lagakerfið og félagskerfið. „Þar ríkir nú alvarleg kreppa á Íslandi og þó efnahagsvandinn sé mikill er kreppa stjórnmála og félagskerfis kannski enn alvarlegri. Þar hafa félagsvísindin mikið fram að færa. Menn gleyma því líka stundum þegar rætt er um nýsköpun í atvinnulífi að langstærstur hluti nútímahagkerfa felst í margvíslegri þjónustu. Þar gagnast félagsvísindin vel - og við viljum leggja aukna áherslu á þennan þátt í starfsemi skólans. Nýsköpun í opinberum rekstri er afar mikilvæg en hér og í nágrannalöndum fer næstum önnur hver króna samfélagsins í opinbera geirann. Þar þarf auknar rannsóknir til þess að tryggja að fjármunum sé vel varið og að þjónusta við almenning skili því sem til er ætlast,“ segir Ólafur.

Efnahagslegt og félagslegt umrót hefur einkennt síðustu misseri, bæði á Íslandi og utan landsteinanna. Spurður hvort það kalli á einhvern hátt á endurmat þeirra rannsóknaraðferða sem notaðar eru í félagsvísindum bendir Ólafur á að í öllum vísindum þurfi sífellt að endurskoða aðferðirnar. „Mannlegt félag er flókið - það er ekki vélgengt og lýtur ekki einföldum orsakalögmálum. Stundum gleyma menn því. Mikilvægt er að afla traustra upplýsinga og greina þær með vönduðum hætti. Það er þegar gert, en hagræn, félagsleg og pólitísk kreppa ætti að kalla á auknar rannsóknir í félagsvísindum. Það er ómögulegt að takast á við vandamálin með árangri án þess að greina þau og skilja. Vísindarannsóknir eiga að vera ómissandi hjálpartæki stjórnmálamanna þegar þeir móta stefnu. Á því hefur því miður oft verið misbrestur,“ segir Ólaur.

Upplausnarástand breyti stjórnmálamenn ekki háttum sínum

Ólafur hefur sem stjórnmálaprófessor jafnan verið kallaður til af fjölmiðlum til stjórnmálaskýringa og er flestum landsmönnum kunnur úr kosningasjónvarpi Ríkissjónvarpsins. Hann hefur stjórnað íslensku kosningarannsóknunum í fjöldamörg ár og lengi fylgst með samspili almennings og stjórnmálaflokka. Hann segir aðspurður að því sé oft ranglega haldið fram að áhugi fólks á Vesturlöndum á stjórnmálum hafi minnkað. Áhuginn hafi beinst í nýjar áttir. „Hefðbundin stjórnmálaþátttaka, t.d. kjörsókn og þátttaka í starfi stjórnmálaflokka, hefur minnkað, en ýmislegt grasrótarstarf utan hefðbundinna hreyfinga aukist. Menn virðast ekki telja hefðbundin stjórnmál skipta eins miklu máli og áður. Það getur verið áhyggjuefni fyrir stjórnmálaflokka,“ bendir Ólafur á.

Mikið hefur verið rætt um þörf á nýju stjórnmálaframboði en eitt slíkt, Besti flokkurinn, stýrir nú borginni. Eftir velgengni í byrjun hefur flokkurinn mætt nokkru andstreymi og því vakna spurningar um það hvað nýtt framboð þurfi að hafa til þess að öðlast tiltrú almennings. „Við því er ekkert einfalt svar en venjulega þarf nýr flokkur að eiga pólitískt erindi sem höfðar til a.m.k. nokkurs hóps kjósenda og oftast líka skikkanlega frambjóðendur. Núna er mikil vantrú ríkjandi á Íslandi í garð stjórnmálamanna og stjórnmálakerfisins. Við því þurfa flokkarnir að bregðast með breytingum á starfsháttum og umræðuháttum. Annars getur blasað við upplausnarástand,“ segir Ólafur enn fremur.

Sigrar Fimleikafélagsins skipta miklu máli

Áhugi Ólafs er þó bundinn við fleira en stjórnmálafræði og félagsvísindi. Hann er mikill áhugamaður um knattspyrnu og dyggur stuðningsmaður

FH og Manchester United. En eiga stjórnmálafræðin og fótboltinn eitthvað sameiginlegt? „Á báðum sviðum skiptir máli að vinna! Með aldrinum finnst mér það þó skipta minna máli á báðum sviðum. Meiru skiptir að horfa á skemmtilegan fótbolta - og að umræðan um stjórnmálin og fræðin sé gagnrýnin, málefnaleg og upplýsandi. Ég játa þó að sigrar Fimleikafélagsins skipta mig enn miklu máli! Flestu öðru tek ég orðið með jafnaðargeði,“ segir Ólafur.

Annars konar menning er einnig meðal áhugamála hans. „Kona mín er mikill sérfræðingur um mat og drykk og ég hef smitast mér til mikillar ánægju. Ég nýt líka tónlistar, leiklistar og myndlistar. Mestum tíma eyði ég samt í bóklestur, m.a. þjóðlegan fróðleik og ævisögur erlendra stjórnmálamanna, sérstaklega danskra. Mér er líka mikil nautn í að hlusta á lesið efni og umræður sem finna má í ríkum mæli á Rás 1 í Ríkisútvarpinu og ég hleð niður gömlu útvarpsefni af hlaðvarpinu í iPod-inn minn. Þar er mikill fjársjóður liðinna áratuga,“ segir Ólafur að endingu.

deila á facebook