Fjaran- Gósenland

Guðrún Hallgrímsdóttir.

Þann 14. maí næstkomandi mun Guðrún Hallgrímsdóttir, verkfræðingur og fulltrúi í háskólaráði Háskóla Íslands ásamt Konráði Þórissyni, fiskifræðingi á Hafrannsóknastofnun leiða göngu um fjöru á Álftanesi. Hugað verður að fjörunytjum og rifjuð upp þýðing þangs, fjörudýra og fjörugróðurs í fæðunni.

Í Gesthúsafjörur mun Konráð Þórisson fiskifræðingur á Hafrannsóknasrtofnun fara með gönguna út í Hrakhólma þar sem hann mun gera grein fyrir lagskiptingu lífvera í fjörunni og segja frá því helsta sem við göngufólk gæti vænst að finna. „Af hlaðinu á Bessastöðum er gott útsýni yfir Álftanesið og væri gaman að nefna það sem fyrir augu ber og rekja síðan þátt fjörunnar í matarsögu okkar. Eggert Ólafsson kallaði fjöruna gósenland og er það ekki ofsagt. Fyrir utan sel og fugla er þar  að finna skeldýr, þang og þara og svo ýmsar háplöntur sem nýttar voru til matar,“ segir Guðrún Hallgrímsdóttir og bætir við að einnig verði fjallað um þang og þara sem fæði í nútímanum. 

„Næstum allt þang og þari í fjörum sem ekki hafa orðið fyrir mengun er ætt og inniheldur öll helstu næringarefnin auk þess sem það er uppspretta fyrir bæði vitamin og steinefni, lífsnauðsynlegar amínósýrur og ómettuðu fitusýrurnar, omega 3 og omega 6 í æskilegum hlutföllum fyrir heilsuna.  Það er óhætt að segja að þangið sé gullnáma góðra næringarefna,“ segir Guðrún og bætir við að í umfjöllun sinni muni hún m.a. einnig segja frá skeldýrum, nytjaplöntum í fjörunni, fjöruarfa og fjörukáli.

„Þá höfum við í félaginu Matur –saga- menning, félag áhugamanna um matarmenningu, fengið hann Einar Þorleifsson náttúrufræðing til að leggja okkur lið og auk þess að þekkja til fjörunnar er hann fuglavinur og kemur það sér alldeilis vel núna þegar Álftanesið er þétt setið bæði nýkomnum farfuglum og fljúgandi gestum sem hvíla sig áður en þeir leggja í hann norður til sumarstöðva fyrir norðan Kanada,“ segir Guðrún.

Hún tekur það fram að þó svo að strandlengjan sé allt um kring sé ekki auðvelt að komast í fjöru í Reykjavík. „ Álftanesið er hreinasta paradís, þar eru tjarnir þar sem sjávarfalla gætir, þar vex sjávarfitjungur, sem er mörgum fuglum lífsnauðsynlegur, þar vex marhálmur sem margæsin dregur nafn sitt af.  En á þessum tíma er aðgátar þörf, vegna æðarvarpsins við Bessastaðatjörn er umferð við hana og Skógartjörn takmörkuð.  En þar er líka Kasthúsatjörn, sem er víðfræg meðal fuglaáhugamanna, kannski er  Einar til í að rölta með áhugasömum þangað þegar fjöruferð lýkur“ segir Guðrún að lokum.

Upphafspunktur ferðarinnar er við Bessastaðakirkju kl. 11:00 þann 14. maí. Af kirkjuhlaðinu verður horft yfir Álftanesið, litið eftir margæsum og öðrum farfuglum og síðan sameinast um bíla og ekið að fjöru við Hrakhólma.

deila á facebook