Fjölskyldudagur á Laugarvatni

Sigurbjörn Árni Arngrímsson, prófessor í íþróttafræðum.

Þann 3. september næstkomandi verður opinn dagur á Laugarvatni í tilefni af aldarafmæli skólans en septembermánuður hefur verið helgaður Menntavísindasviði á afmælisárinu. Sigurbjörn Árni Arngrímsson, prófessor í íþróttafræðum á Laugarvatni, var tekinn tali á afmælisvef skólans.

„Það verður nú ýmislegt um að vera. Fyrir börnin verður boðið upp á knattþrautir, krakkafrjálsar, leiki, ratleik og ef veður leyfir bátsferð á vatninu. Hinir eldri geta farið í hinar ýmsu heilsumælingar og spjallað við sérfræðinga og fengið ráðgjöf um allt milli himins og jarðar sem snýr að heilsu, hreyfingu, næringu, útivisti, þjálfun, íþróttum o.þ.h.,“ segir Sigurbjörn Árni sem tekur það fram að Dr. Kristján Þór Magnússon flytji fyrirlestur af þessu tilefni, um hvernig hægt sé að þætta hreyfingu inn í almennt skólastarf og hverju slík samþætting skilar. Hann nefnir einnig að mælingarnar sem framkvæmdar verði, séu almennar heilsufarsmælingar; hæðar- þyngdar og holdarfarsmælingar, blóðþrýstingsmælingar og að einnig verði hægt að fá grip- og aflstyrk mældann. „Við munu opna dótakistuna okkar eins mikið og við getum og framkvæma flestar þær mælingar sem hægt er að mæla þegar tekið er á móti svona stórum hópum,“ segir Sigurbjörn Árni.

„Nú það verður farið í gönguferð um staðinn þar sem gerðar verða Mullersæfingar á leiðinni og einnig verður boðið upp á námskeið í stafgöngu í samstarfi við ÍSÍ. Einnig verður boðið upp á sundleikfimi í Heilsulindinni Fontana (gömlu gufunni á Laugarvatni) og sá staður býður tveir-fyrir-einn í Heilsulindina. Lindin – Bistro verður svo með tilboð á heilsuréttum og –drykkjum. Þetta er nú svona það helsta en sennilega er ég nú að gleyma einhverju,“ segir Sigurbjörn Árni að lokum.

Opni dagurinn stendur frá kl. 13:00- 16:00 laugardaginn 3. september, en nánar er hægt að lesa um viðburðinn í viðburðadagatali skólans hér:

deila á facebook