Fyrning krafna við gjaldþrotaskipti

Ása Ólafsdóttir, lektor við Lagadeild Háskóla Íslands.

Þjóðarspegillinn 2011 Ráðstefna í félagsvísindum, verður haldin föstudaginn 28. október 2011 við Háskóla Íslands. Ráðstefnunni er ætlað að kynna og miðla því sem efst er á baugi í rannsóknum í félagsvísindum á Íslandi ár hvert. Um 160 fyrirlestrar verða fluttir í 43 málstofum. Einn af fyrirlesurunum, Ása Ólafsdóttir lektor við Lagadeild HÍ, var tekin tali á afmælisvef skólans en erindi hennar ber titilinn „Fyrning krafna við gjaldþrotaskipti“.

Efnisreglum gjaldþrotaskiptaréttar breytt 

„Upp á síðkastið hefur efnisreglum gjaldþrotaskiptaréttar verið breytt. Nýverið var m.a. breytt reglu gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 um hversu lengi kröfur gilda eftir lok gjaldþrotaskipta. Þetta eru reglurnar sem segja til um hvort og hversu lengi maður er ábyrgur fyrir þeim kröfum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti,“ segir Ása og tekur fram að eftir þessa breytingu gildi hér á landi séríslensk regla um þetta efni sem ekki virðist eiga sér hliðstæðu í nágrannaríkjum Íslands. „Þetta vakti athygli mína. Mér fannst því mikilvægt að kanna efni þessarar reglu og ekki síst að bera hana saman við samsvarandi reglur sem gilda þegar einstaklingar hafa farið í greiðsluaðlögun. Ég vildi skoða kerfið í heild sinni,“ segir Ása. 

Minna samráð leiði til niðurfellinga skulda

„Það sem kom í ljós var að mun fleiri kröfur fást felldar niður að liðnum tveimur árum eftir lok gjaldþrotaskipta en við lok greiðsluaðlögunar, sem getur staðið í allt að þrjú ár. Greiðsluaðlögunarsamningur tekur til að mynda ekki til námslánaskulda, en þær skuldir falla niður að liðnum tveimur árum frá lokum gjaldþrotaskipta.

Það má því halda því fram að því minna samráð sem skuldarar hafa við kröfuhafa sína, þeim mun meira fái þeir fellt niður af skuldum sínum. Þetta er til að mynda öfugt miðað við það sem gildir í öðrum ríkjum, svo sem Bandaríkjum og á öðrum Norðurlöndum,“ segir Ása að lokum. 

Erindi Ásu verður flutt í málstofunni Neytendaréttur og skuldaskil í stofu 101 í Lögbergi frá kl. 15:00- 16:45. Nánar má lesa um Þjóðarspegilinn á vef Félagsvísindasviðs hér.

deila á facebook