Goð og garpar í fornum heimildum

Guðrún Kvaran, prófessor og sviðsstjóri á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Þann 28. maí mun Guðrún Kvaran, prófessor og sviðsstjóri á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, ganga um Þingholtin og rifja upp sögur úr norrænni goðafræði. Hér má nálgast frekari upplýsingar um gönguna:

„Eins og kunnugt er varð  Ísland fullvalda og frjálst ríki í konungssambandi við Danmörku þegar sambandslagasamningurinn gekk í gildi 1. desember 1918. Það má sjá á vali manna á nöfnum á börn sín á síðari hluta 19. aldar og fram á þá 20. og í nöfnum gatna í Þingholtunum vestan undir Skólavörðuhæðinni,“ segir Guðrún og bætir við að götunefnd borgarstjórans í Reykjavík hafi valið goðaheiti á allmargar götur árin 1919-1920.

„Valið sýnir að nefndin leit á goðafræðina og sagnirnar af goðunum sem mikilvægan þátt í menningarsögu Íslendinga. Þegar ég var beðin um að taka að mér eina af afmælisgöngum Háskóla Íslands í samvinnu við Ferðafélag Íslands og tengja hana mannanöfnum kom mér ekkert betra hverfi í hug. Þingholtin, Skólavörðuhæðin öll, og nærsvæðið er skemmtilegt göngusvæði innan borgar. Þarna má finna fjölda fornra nafna sem tengd verða á göngunni samtímanum og vinsældum þeirra nú. Þeir sem hafa gaman af að rifja upp goðafræðina og fornar sagnir og áhuga hafa á nafngjöfum Íslendinga í aldanna rás ættu að geta haft gaman af röltinu“.

Götuheiti er tengjast Íslendingasögunum og Landnámu 

Guðrún segir að það sama megi segja um val götunafnanefndarinnar á þeim götum sem liggja í austur ofan af Skólavörðuhæðinni og niður á Snorrabraut, hluta Hringbrautarinnar gömlu. „Þar voru þá kallaðir til íslenskir landkönnuðir eins og Eiríkur rauði, sonur hans Leifur og Þorfinnur karlsefni,“ segir Guðrún sem tekur það fram að af Þorfinnsgötunni verði einnig horft yfir Norðurmýrina og rifjuð upp þau nöfn sem gefin voru á göturnar þar, sem tengist annars vegar Laxdæla sögu og hins vegar Landnámu.

„En fleiri sagnahetjur finnast á þessum slóðum. Norðan í Skólavörðuhæðinni eru heiðurshjónin Njáll og Bergþóra og fleiri persónur úr Njáls sögu. Þá taka við götur fleiri goða eins og Þórs og Loka, Týs og Óðins en síðustu nöfnin sem rifjuð verða upp eru nöfn þeirra Hallveigar Fróðadóttur og Ingólfs Arnarsonar,“ segir Guðrún.

Lagt af stað frá Aðalbyggingu Háskóla Íslands   

Reynt verður að miða hraðann við þátttakendur og er gert ráð fyrir að gangan, með spjalli, taki um eina og hálfa klukkustund til tvær stundir, allt eftir veðri. „Lagt verður af stað frá gamla fótboltavellinum fyrir neðan aðalbyggingu Háskólans. Þar verða fyrst rifjuð upp þau nöfn sem valin hafa verið á götur næst skólanum og Þjóðarbókhlöðunni áður en haldið verður yfir Hljómskálagarðinn. Göngunni lýkur á sama stað,“ segir Guðrún og bætir þvi við að gangan hefjist stundvíslega kl 14:00.

Á aldarafmæli Háskóla Íslands taka skólinn og Ferðafélag Íslands höndum saman og standa fyrir reglulegum gönguferðum á afmælisárinu. Reynsla og þekking leiðsögumanna Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess.

deila á facebook