Háskóladansinn hitar upp fyrir Leifturdansinn

Edda Katrín Rögnvaldsdóttir, mastersnemi og stjórnarmeðlimur Háskóladansins.

Síðasta mynd Mánudagsbíósins á þessu misseri er myndin „Flashdance“ frá árinu 1983 í leikstjórn Adrian Lyne með Jennifer Beals í aðalhlutverki. Hún verður sýnd í kvöld, mánudaginn 28. nóvember, kl. 20 í Stóra sal Háskólabíós og er miðaverð aðeins 500 kr.

Háskóladansinn mun sýna dansatriði á undan myndinni til að kynda undir rafmagnaða stemmningu í bíósalnum. Allir dansunnendur og mánudagsbíófarar eru hvattir til að fjölmenna á þessa síðustu sýningu. Stefnt er að því að fylla salinn og búa til ógleymanlegt andrúmsloft með fulltrúum frá Háskóladansinum. Edda Katrín Rögnvaldsdóttir, mastersnemi og stjórnarmeðlimur Háskóladansins var tekin tali á afmælisvef skólans.

Hita upp fyrir Leifturdansinn

„Við vorum mjög ánægð með útkomuna þegar Háskóladansinn dansaði fyrir Mánudagsbíóið fyrr á árinu þegar við hituðum upp fyrir stórmyndina Dirty Dancing. Það var gaman að taka þátt í sýningunni og salurinn tók okkur mjög vel. Ég held að við höfum tvímælalaust aukið stemninguna sem var í salnum enda var okkur ákaft fagnað,“ segir Edda Katrín og bætir við að fulltrúar frá Háskóladansinum hlakki mikið til þess að endurtaka leikinn með því að hita upp fyrir Leifturdansinn (Flashdance), síðustu sýningu Mánudagsbíósins. 

„Við munum taka annan vinkil á söguna sem sögð er í Leifturdansinum, en ég held að engin eigi þó eftir að verða fyrir vonbrigðum,“ segir Edda Katrín og bætir við að um félaga úr Boogie Woogie dansflokki Háskóladansins sé að ræða.

Fjölbreytni dansstíla í Háskóladansinum

Aðspurð segir Edda Katrín fjölbreytni einkenna starfsemina og að dansinn sé sannur gleðigjafi. „Ég hef sjálf verið í dansi frá því að ég var lítil og æfði ballett og jassballett í mörg ár og hef tekið þátt í starfi Háskóladansins frá því að hann var stofnaður haustið 2007. Það er þó engin þörf er á fyrri dansreynslu þegar komið er í tíma til okkar,“ segir Edda Katrín og bætir við að dansinn sé mjög skemmtilegur og að hún hafi kynnst mörgum frábærum einstaklingum í gegnum hann.

„Fjölbreytni dansanna er mikil og hægt er að sækja tíma eða danskvöld flest kvöld vikunnar. Ég er í mastersnámi í lífrænni efnafræði við Háskóla Íslands, sem tekur auðvitað sinn tíma, en reyni að komast í danstíma og á danskvöld þegar ég hef tækifæri til,“ segir Edda Katrín og tekur það fram að félagið sé tiltölulega ungt, en það hafi þó náð að skapa sér nafn innan háskólanna.

„Við bjóðum alls upp á sjö dansa, Boogie Woogie, Swing og Rock'n'Roll, Lindy Hop og West Coast Swing sem allt eru swing-dansar, Salsa og Tangó sem eru latin-dansar og að lokum Contemporary, sem er einstaklingsdans. Allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Annir háskóladansins fylgja önnum háskólanna og við hefjum því næstu önn í janúar. Við komum til með að bjóða upp á tvær fríar prufuvikur þar sem allir geta prófað dansana og fundið þann sem hentar þeim best,“ segir Edda Katrín að lokum. 

Hér má nálgast upplýsingar um Flashdance sýninguna

Frekari upplýsingar má finna á www.haskoladansinn.is

Hér má nálgast upplýsingar um Mánudagsbíóið

Myndir úr starfi Háskóladansins.Myndir úr starfi Háskóladansins.Myndir úr starfi Háskóladansins.Myndir úr starfi Háskóladansins.
deila á facebook