Heilinn breytist við tónlistarnám

Helga Rut Guðmundsdóttir, lektor í tónmennt við Kennaradeild Menntavísindasviðs
Helga Rut Guðmundsdóttir, lektor í tónmennt við Kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

„Tónlistarnám hefur töluverð áhrif á mótun heilans og heilastarfsemi. Niðurstöður rannsókna þar sem bornir eru saman heilar tónlistarmenntaðra og annarra sem eru ekki tónlistarmenntaðir benda til þess að þar sé mun að finna,“ segir Helga Rut Guðmundsdóttir, lektor í tónmennt við Kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Helga heldur á morgun, miðvikudaginn 14. september, örnámskeið fyrir foreldra um raunveruleg áhrif tónlistarnáms á heilann. Námskeiðið fer fram í stofu H-207 í Stakkahlíð, húsnæði Menntavísindasviðs og milli kl. 20 og 22.

Á námskeiðinu verður greint frá niðurstöðum nýlegra rannsókna á sviði tónlistarnáms á heilann. „Áhrif tónlistar á manneskjuna hafa lengi verið viðfangsefni vísinda og heimspeki og samanburður á heilastarfsemi tónlistarmenntaðra og annarra hefur verið vinsælt rannsóknarefni á sviði heilarannsókna. Þó enn sé langt í land að við getum kortlagt nákvæmlega áhrif tónlistarnáms á manneskjuna í heild þá er þó hægt að sýna hvernig heilinn breytist við tónlistarnám,“ segir Helga Rut.

Helga Rut bætir við að áfram megi velta fyrir sér nákvæmlega í hverju munur á heilum tónlistarmenntaðra og annarra felist og hvort hann skipti máli fyrir eitthvað annað en að leika tónlist. „Nýlega hafa verið kynntar niðurstöður þess efnis að tónlistarmenntaðir einstaklingar standi sig töluvert betur en aðrir í því að skynja og greina flókin hljóð í umhverfinu, þar með talin málhljóð. Einnig virðist tónlistarmenntun draga töluvert úr öldrunartengdum heyrnarkvillum,“ útskýrir Helga.

Jafnframt benda niðurstöður til þess að tónlistarnám og -iðkun breyti því hvernig viðkomandi hlustar á allt umhverfi sitt. „Ef nám og iðkun á sviði tónlistar breytir því hvernig heilinn meðtekur og vinnur úr heyrnrænum upplýsingum getur það haft gífurleg áhrif á það hvernig unnið verður í framtíðinni með kvilla sem tengjast úrvinnslu heyrnrænna upplýsinga, svo sem athyglisbrest, lesblindu og einhverfu,“ segir Helga Rut.

Örnámskeið Helgu Rutar er eitt fjögurra slíkra sem Menntavísindasvið býður upp á miðvikudagskvöldum í september, en í mánuðinum fagnar sviðið aldarafmæli Háskóla Íslands með fjölbreyttum viðburðum. Þess má geta að í síðustu viku sóttu um 120 foreldrar fyrsta örnámskeiðið, en þá fjallaði Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild, um uppeldi barna og unglinga. Þriðja örnámskeiðið verður miðvikudaginn 21. september og þar verður fjallað um börn og næringu og 28. september verður sjálfbær þróun og sjálfbærnimenntun í nýrri aðalnámskrá tekin fyrir.

deila á facebook