Hvetur kandídata til að vera viðstadda

Ása Bernharðsdóttir, verkefnisstjóri.

Ása Bernharðsdóttir, verkefnisstjóri í Félags- og mannvísindadeild, hefur komið að brautskráningarathöfnum Háskóla Íslands um árabil. Hún segir ferlið lítið hafa breyst í gegnum tíðina, en þó taki undirbúningurinn aðeins lengri tíma. „Fjöldi brautskráningarkandídata hefur margfaldast og þá sérstaklega þeirra sem eru að ljúka framhaldsnámi“ segir Ása og bætir við að við næstu athöfn séu þeir einmitt fleiri sem taki við brautskráningarskírteini úr framhaldsnámi. „Þar sem fjöldi nemenda Háskóla Íslands er um  fjórtán þúsund þá er mjög mikilvægt að brýna fyrir kandídötum að tilkynna deildarskrifstofum þegar náminu er lokið,“ segir Ása og bætir við að það hafi komið fyrir að kandídatar hafi mætt á athöfnina án þess að gert hafi verið ráð  fyrir þeim við útskrift.

Sérlega hátíðleg athöfn

„Við áætlum að 275 kandídatar útskrifist úr framhaldsnámi og um 200 úr grunnnámi af Félagsvísindasviði þann 11. júní næstkomandi á aldarafmæli skólans. Við munum í fyrsta sinn útskrifa kandídata með diplómapróf í Evrópufræðum, meistarapróf í safnafræði, meistarapróf í skattarétti og reikningsskilum og með samnorrænt meistarapróf í öldrunarfræði (NordMaG),“ segir Ása en tekur fram að hún hvetji kandídata sérstaklega til að vera viðstadda brautskráningarathöfnina sjálfa. „Með því sýnum við menntun og háskólanámi virðingu. Mikill metnaður er lagður í athöfnina sem er sérlega hátíðleg,“ segir Ása að lokum.

Vorbrautskráning kandídata frá Háskóla Íslands fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 11. júní nk. Eins og verið hefur síðustu ár verða athafnirnar tvær. Brautskráning kandídata  sem eru að ljúka framhaldsnámi, þ.e. diplóma- og viðbótarnámi á framhaldsstigi, meistaranámi og kandídatsnámi, fer fram kl. 11.00. Við síðari athöfnina, kl. 14.00, brautskrást kandídatar sem eru að ljúka grunnnámi, þ.e. BA-, B.Ed.- og BS-námi.

Áætlað er að hvor athöfn um sig standi yfir í allt að tvær klukkustundir. Nánar má lesa um fyrirkomlag athafnarinnar hér: 

deila á facebook