Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands 30 ára

María Dóra Björnsdóttir.

Það er ekki einungis Háskóli Íslands sem fagnar stórafmæli á árinu 2011 því Náms- og starfsráðgjöf skólans (NSHÍ) fagnar 30 ára afmæli í ár. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að fyrstu nemendurnir fengu ráðgjöf og stuðning hjá þjónustustofnuninni en í fyrra voru heimsóknir þangað alls sjö þúsund.

María Dóra Björnsdóttir er deildarstjóri Náms- og starfsráðgjafar háskólans ásamt því að stunda doktorsnám í greininni. Hún hefur starfað  hjá NSHÍ í rúman áratug og þekkir forsögu þess að ákveðið var að bjóða upp á slíka þjónustu við Háskóla Íslands í kringum 1980. „Námsráðgjöf hafði tíðkast lengi í Bandaríkjunum og verið nokkuð útbreidd í Evrópu. Þá var einnig farið að huga að mikilvægi þess að veita nemendum aðstoð við að velja sér nám við hæfi við Háskóla Íslands og reyna að draga úr brotthvarfi frá námi. Í þessu innlenda og erlenda samhengi samþykkti háskólaráð að koma á námsráðgjöf við háskólann árið 1979 og tveimur árum síðar, eða árið 1981, var Námsráðgjöf Háskóla Íslands stofnuð,“ segir María Dóra.

Áhersla á heildstæða náms- og starfsráðgjöf

Námsráðgjöfin var fyrst til húsa í Aðalbyggingu háskólans og fyrstu sex árin starfaði einn ráðgjafi við stofnunina. Árið 1987 hóf sálfræðingurinn Ragna Ólafsdóttir störf og hefur hún mesta starfsreynslu af núverandi starfsmönnum NSHÍ.

Hlutverk stofnunarinnar hefur ætíð verið það sama, að veita nemendum stuðning og ráðgjöf, bæði við námsval og á meðan á námi stendur. Auk þess leita nemendur til NSHÍ vegna sértækra námsörðugleika, fötlunar eða veikinda. Þá fá nemendur aðstoð við undirbúning fyrir atvinnuleit, svo sem við gerð starfsferilskrár og fleira sem lýtur að starfsþróun.  „Síðastnefndi verkþátturinn felur í sér ákveðnar áherslubreytingar í þjónustu við nemendur og til marks um það var nafni Námsráðgjafar breytt í Náms- og starfsráðgjöf HÍ árið 2007 í samræmi við breyttar áherslur og breytt starfsheiti stéttarinnar. Eins og tíðkast víða erlendis hefur, undanfarin misseri, verið lögð aukin áhersla á heildstæða náms- og starfsráðgjöf sem nær yfir námsval, stuðning  meðan á námi stendur og þar til stefna er tekin á vinnumarkað að loknu námi þar sem markmiðið er farsæl starfsþróun einstaklingsins,“ segir María Dóra.

Fjöldi nemenda sem leita til NSHÍ hefur, líkt og heildarfjöldi nemenda við skólann, margfaldast á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun NSHÍ. „Árið 2000 komu rúmlega þrjú þúsund einstaklingar til náms- og starfsráðgjafa en árið 2010 voru þeir rúmlega sjö þúsund. Þá fengu 59 nemendur sértæk úrræði í námi og prófum árið 1996 en á nýliðnu háskólaári var þessi tala í kringum 700 nemendur,“ segir María Dóra. Starfsmönnum hefur einnig fjölgað með auknum verkefnum og nú starfa þar ellefu manns í rúmum tíu stöðugildum.

Tekur þátt í að byggja upp starfstéttina

Starfið hefur hins vegar ekki eingöngu verið bundið við stuðning og ráðgjöf til nemenda.  „NSHÍ hefur tekið þátt í ýmsu innlendu og erlendu samstarfi í gegnum árin og tekið þátt í uppbyggingu fagstéttarinnar, meðal annars með því að hafa meistaranema í náms- og starfsráðgjöf í starfsþjálfun.  Höfum við alla tíð átt mjög gott samstarf við námsbraut í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands,“ segir María Dóra.

Hún bendir einnig á að stétt náms- og starfsráðgjafa hafi unnið mikinn sigur árið 2009 þegar starfsheitið var lögverndað. „Með viðurkenningu á starfsheitinu er verið að tryggja að þeir sem leita til náms- og starfsráðgjafa fái þjónustu sem byggir á tilskilinni menntun og þekkingu. Auk þess má segja að lögverndun starfsheitisins sé ákveðin viðurkenning á mikilvægi fagsins,“ segir María Dóra enn fremur. 

Afmæli NSHÍ verður að líkindum fagnað síðar á árinu að sögn Maríu Dóru. Fram undan er hins vegar sumarlokun í júlímánuði en strax í ágúst fara starfsmenn NSHÍ af stað aftur við að styðja núverandi og tilvonandi nemendur í námi og starfi.

deila á facebook