Plöntur eru augnayndi en hvað leynist undir yfirborðinu?

Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

Þann 23. júní mun Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, leiða plöntuskoðunarferð á Esjuna upp með Mógilsá. Markmiðið er að skyggnast inn í ósýnilegan heim plöntuefnasambanda, undraheim sem gefur okkur virk efni til að nota í lyf. Útskýrt verður hvaða kraftaverk gerast í plöntunum á hverjum degi, sem við ekki sjáum.

„Plöntur lifa í heimi samkeppni og þurfa að verjast örverum, sveppum  og veirum alveg eins og við. Til þess nota þær efnahernað, en ekki ónæmiskerfi eins og við,  þær hafa þróað með sér hæfileika til að framleiða mikinn fjölda alls kyns varnarefna,“ segir Elín Soffía og bætir við að þær búi því yfir duldri veröld lífefnasmíða sem er gaman að skyggnast inn í þó við getum ekki séð hann með berum augum.

Lyfjaefni eiga rætur sínar að rekja til plantna

„Við erum vön að skoða plöntur og dáðst að litskrúði þeirra og fegurð, en leiðum hugan sjaldnast að því hvaða heimur leynist undir yfirborðinu. Fyrir daga tækniframfara og vísindalegrar þekkingar voru plöntur notaðar beint sem lyf á Íslandi sem og annars staðar í heiminum, en í dag eru lyf stöðluð efnasambönd í lyfjaformi t.d. hvítri töflu. Það sem er skemmtilegt er að fjöldi lyfjaefna í dag á rætur sínar að rekja til plantna og örvera sérstaklega í hópi sýkinga- og krabbameinslyfja,“ segir Elín Soffía. Hún tekur það fram að í göngunni verði sérstök athygli vakin á plöntum sem verið er að rannsaka við Háskóla Íslands sem teljast til lágplantna. „Þær láta lítið yfir sér og fólk tekur venjulega ekki eftir þeim. Engu að síður eru þær áhugaverðar þegar farið er að skoða innihaldsefni þeirra,“ segir Elín Soffía og bætir við að Esjan hafi orðið fyrir valinu fyrir gönguna því þar sé skemmtilegt útivistarsvæði og að þar vaxi nokkrar tegundir þeirra plantna sem verið er að rannsaka.

„Við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands höfum við rannsakað íslensk náttúruefni úr plöntum undanfarin mörg ár, einkum efni úr lágplöntum og fléttum, og þar leynast mörg áhugaverð lífvirk efnasambönd. Það er þó langur vegur frá lífvirku náttúruefni og að því að nota megi það sem efni í lyf, sem ekki skal rakinn hér“. Athygli skal vakin á því að hafin sé rannsókn á náttúruefnum úr sjávarlífverum við Íslandsstrendur við Lyfjafræðideildina undir stjórn Dr. Sesselju Ómarsdóttir dósents og verður spennandi að sjá hvaða efni leynast í undirdjúpunum.

Upphafspunktur göngunnar er bílastæðið við rætur Esjunnar kl. 17:00. Nánar um gönguna í viðburðadagatali skólans hér:

deila á facebook