Samstarf um leið að sjálfbærni

Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.

„Verkfræði og náttúruvísindi eru mjög mikilvæg þegar leitað er leiða til sjálfbærni og sjálfbærrar þróunar, en það er hins vegar ekki nóg að leita eingöngu tæknilegra lausna. Öll fræðasvið háskólasamfélagsins þurfa að vinna að því saman,” segir Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Hún vinnur þessa dagana ásamt starfsmönnum sviðsins að undirbúningi fjölmargra viðburða í apríl. Sá mánuður verður helgaður verkfræði og náttúruvísindum á aldarafmælisári Háskóla Íslands.

Kristín Vala er doktor í jarðaefnafræði og hefur starfað sem prófessor við erlenda háskóla stærstan hluta starfsævinnar. Síðla árs 2008 yfirgaf hún Bristol-háskóla í Bretlandi og kom hingað til lands til að taka við starfi forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs þegar skipulagi Háskóla Íslands var breytt með sameiningu við Kennaraháskólann og innleiðingu fimm nýrra fræðasviða. „Ég ætlaði mér alltaf að koma aftur þegar ég fór í nám til útlanda árið 1979,“ segir Kristín Vala. Örlögin höguðu því hins vegar þannig að hún stofnaði fjölskyldu ytra og settist þar að. „Þegar við maðurinn minn vorum skilin og börnin farin í háskóla hugsaði ég með mér: „Nú er kannski tækifæri til að flytja til Íslands“,“ segir Kristín Vala.

Kristín Vala sótti um tvö störf utan HÍ og eitt við Háskóla Íslands en fékk þau ekki. En þegar starf forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs var auglýst hvöttu bæði fjölskyldan  og fjölmargir kollegar hana til að slá til. „Ég ákvað að sækja um og lagði mikla áherslu á sjálfbærni og sjálfbæra þróun. Það myndi vera mín stefnumörkun fyrir sviðið og allan háskólann að við myndum breyta kennslu, rannsóknum og rekstri skólans í þá átt. Þá hélt ég kannski að forsvarsmenn háskólans myndu hugsa með sér: „Hún hefur dottið á höfuðið úti í Bretlandi og er greinilega stórskrítin.“ En svo fannst þeim þetta flott framtíðarsýn og þeir buðu mér starfið. Og síðan hef ég verið að vinna í þessum málum – með misgóðum undirtektum eins og gengur,“ segir Kristín Vala.

Hún segir það hafa verið mikil viðbrigði að koma heim eftir 30 ára fjarveru en hún fluttist aftur til Íslands í desember 2008. „Þetta voru miklu meiri viðbrigði en ég átti von á. Það Ísland sem ég fór frá árið 1979 var náttúrulega allt annað land og þjóðfélag. Vinir mínir í Bretlandi sögðu að ég þyrfti ekkert að fara, ég væri með starf í Bretlandi en á Íslandi væri bara björgunarstarf eftir hrun. Ég sagði hins vegar: „Nei, nú eru breytingar og ég held að þess vegna hafi Íslendingar kannski áhuga á að hlusta á eitthvað nýtt og núna þurfa þeir líklega meira á mér að halda en ef þeir væru enn í bólunni.“ Og það hefur reynst alveg rétt,“ segir hún.

Fjölga þarf kvenkyns fyrirmyndum í verkfræði- og náttúruvísindum

Kristín Vala í skoðunarferð í Hörpunni.

Undir hatti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs sameinuðust allar greinar verkfræði, raun- og náttúruvísinda í sex deildum. Af fimm sviðsforsetum er Kristín Vala eina konan og það á sviði þar sem karlar hafa hingað til verið áberandi. Hún telur að fjölga þurfi konum í verkfræði og náttúruvísindum og bendir á að það þurfi fyrirmyndir fyrir ungar konur. „Ég held að vandamálið byrji í grunnskólanum þar sem enn þá virðist rætt um að þessar greinar séu ekki fyrir konur. Þetta finnst mér mjög einkennilegt því þegar ég var í barnaskóla, gagnfræðaskóla og framhaldsskóla ætlaði ég að verða vísindakona af því að það vantaði fleiri konur á því sviði. Ég vildi sýna að ég gæti gert allt það sem karlar gætu gert. Svo mér finnst skrítið, 40 árum síðar, að við séum enn í þessu fari og við fáum ekki nógu margar konur inn í þessar greinar,“ segir Kristín Vala.

Hún bendir þó á að í ýmsum greinum verkfræðinnar hafi konum fjölgað nokkuð og þá séu þær um helmingur nemenda í Jarðvísindadeild og fjölmennari en karlar í Líf- og umhverfisvísindadeild. Þær séu hins vegar mun færri í flestum greinum verkfræði og Raunvísindadeildar. „Einhvern veginn er áhuginn hjá stelpunum drepinn niður í skólakerfinu. Ég held að þar þurfi að byrja, alla vega í seinni hluta grunnskóla, að vekja athygli kvenna á því að vísindi skapa þeim áhugaverðan starfsvettvang,“ segir Kristín Vala.

Ísland gæti verið fyrirmynd í sjálfbærni

Kristín vala á Balaton ráðstefnu í HÍ. Sjálfbærni, sjálfbær þróun og jarðvegsfræði eru þau rannsóknarsvið sem Kristín Vala hefur helgað krafta sína undanfarin ár. Með sjálfbærni og sjálfbærri þróun er átt við þróun þar sem ákvarðanir í samfélaginu eru teknar með langtímahagsmuni í huga og reynt er að ná jafnvægi milli efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta.

Áhugi Kristínar Völu á þessum sviðum kviknaði af alvöru fyrir rúmum áratug. „Í rauninni var ég ferkantaður vísindamaður í jarðefnafræði til ársins 2000. Þá hitti ég mann í Bristol, þar sem ég bjó, sem vann fyrir félagasamtök sem heita Schumacher Society og eru kennd við þýskan hagfræðing, Fritz Schumacher, sem skrifaði merkilegar bækur með áherslu á sjálfbærni. Þegar ég fór að ræða við þennan mann komst ég að því að hann var að vinna að umhverfismálum frá allt öðru sjónarhorni en ég. Ég var að vinna að því að nota hraðal í Norður-Englandi til þess að rannsaka byggingu á jónum í vatni eða á yfirborði á steindum en hann skoðaði stóru myndina. Ég gerði mér grein fyrir því að ég hefði misst sjónar á heildinni.  Þá sat ég heilt sumar og starði á tölvuskjáinn minn og hugsaði : „Ég er búin að eyða 20 árum af minni vísindavinnu í eitthvað sem skiptir engu máli.“ Og þá fór ég að pæla í því hvað ég gæti gert,“ segir Kristín Vala. Fyrst íhugaði hún að hætta háskólakennslu en ákvað svo að flytja sínar rannsóknir og kennslu yfir í þessi nýju sjálfbærnifræði.

Kristín Vala hefur sagt að Ísland geti orðið öðrum þjóðum fyrirmynd í þeim efnum. „Þá þyrftum við að ímynda okkur hvað við yrðum að gera á Íslandi til þess að geta framleitt okkar eigin matvöru, orku og meirihlutann af okkar neysluvörum. Það þýðir ekki að við hættum öllum inn- og útflutningi. Við getum hins vegar stórminnkað hann. Eins og er flytjum við inn 70% af grænmetinu og 99% prósent af ávöxtunum sem við neytum. Við gætum framleitt miklu meira af þessum matvælum. Við höfum jarðveg, vatn og orku og getum byggt meira af gróðurhúsum,“ segir Kristín Vala.  Einnig er unnt að lengja vaxtartímann með því að hafa rör með heitu vatni undir gróðurlandi eins og nú þegar er gert á tilraunareitum í Hveragerði og á golfvöllum.

Hún bendir á að mannkynið hafi nú þegar brennt upp um helmingnum af þeirri olíu sem jarðöflin hafi framleitt og að sífellt erfiðara og dýrara verði að ná þeirri olíu sem eftir er. Olíuverð fari stighækkandi og sama megi segja um verð á hvers kyns málmum. „Auðlindirnar eru að verða mjög dýrar því þær fara þverrandi. Við þurfum að endurskoða allar forsendur. Við þurfum að þróa sjálfbær samfélög út um allan heim og Ísland gæti orðið að mestu sjálfbært. Það er að þessu sem ég stefni og það var þetta sem mér fannst áhugavert við að koma til Íslands,“ segir Kristín Vala.

Ekki nóg að finna tæknilegu lausnirnar

Kristín Vala segir aðspurð að vissulega hafi greinarnar á hennar fræðasviði, Verkfræði- og náttúruvísindasviði, miklu hlutverki að gegna. „Náttúruvísindin og verkfræðin eru mjög mikilvæg í þessum málum en við þurfum líka að vinna með greinum af öðrum fræðasviðum. Það er ekki nóg að finna tæknilegu lausnirnar. Við þurfum líka að skoða sálfræðina og hvernig við fáum fólk með okkur og hvernig við vekjum athygli á þessum hlutum. Þannig þurfum við að vinna með fólki af fleiri fræðasviðum, t.d. félagsfræðingum og blaðamönnum, þeim sem kunna að segja sögur. Hvernig segirðu góða sögu sem fær fólk í lið með þér?“ spyr Kristín Vala.

„Ég hef tekið að mér það hlutverk að vera sögumaðurinn og vekja athygli fólks á vandamálunum. Ég var að ræða um þessi mál í útvarpinu um daginn og faðir minn, sem er 82 ára, varð reiður. Hann sagði: „Þurftir þú að koma til Íslands til þess að tala um heimsendi?“ Ég svaraði: „Ég var ekki að tala um heimsendi, ég var að segja að við þyrftum að breyta um stefnu.“ Þetta er nokkuð dæmigert viðhorf því mörgum finnst óþægilegt að hugsa um þessi vandamál. Nú eru mikil tækifæri til að finna lausnir fyrir framtíðina,“ bætir Kristín Vala við.

Umhverfismál inn í stjórnarskrá

Jón Gnarr og Kristín Vala.

Kristín Vala hefur látið til sín taka á vettvangi þjóðmálanna og bauð sig til að mynda fram til stjórnlagaþings síðastliðið haust en náði ekki kjöri. „Mér hefði aldrei dottið í hug að bjóða mig fram en það var fullt af fólki úti í samfélaginu sem bað mig um það, bæði innan háskólans og utan. Það benti á að ég hefði þekkingu á umhverfis- og sjálfbærnimálum og slík mál þyrftu að komast inn í stjórnarskrá,“ rifjar hún upp.

Kristín Vala lagðist því í rannsóknir á stjórnarskrám og komst að ýmsu merkilegu. „Það eru margar stjórnarskrár í heiminum, sérstaklega þær sem hafa verið endurskoðaðar nýlega, þar sem náttúruvernd og sjálfbærni er framsett á mismunandi hátt. Þar má nefna stjórnarskrár Kosta Ríka, Namibíu, Noregs, Sviss og Eistlands og ýmissa ríkja Bandaríkjanna. Ég var búin að taka þetta saman og ætlaði að fara með þetta inn á stjórnlagaþing en núna þegar stjórnlagaráð tekur til starfa ætla ég að senda því þessi gögn,“ segir Kristín Vala. Hún bendir jafnframt á að flestir hinna 25 fulltrúa sem valdir voru hafi nefnt auðlindir og náttúru meðal áherslumála sinna.

Hlutirnir hreyfast hraðar hér

Verkfræði- og náttúruvísindasvið hefur haft forystu í umhverfismálum innan Háskóla Íslands. „Ég og stjórn sviðsins settum á fót umhverfisnefnd og út úr henni hefur komið umhverfisstefna sviðsins sem jafnframt var fyrsta umhverfisstefna fræðasviðs innan skólans. Við fórum að flokka úrgang í sérstakar tunnur 2009 og nú er flokkun komin út um allan háskólann. Ég hef einnig unnið með nemendum, með styrk frá rektor, að því að móta umhverfis- og sjálfbærnistefnu fyrir háskólann í heild sem er núna komin inn á borð hjá háskólaráði. Einnig hef ég lagt á það áherslu að samfélagsleg ábyrgð verði tekin alvarlega, ekki bara rætt um hana,“ segir hún og bætir við: „Það er ekki nóg að hafa stefnu á pappír eða einhverri vefsíðu, það þarf að setja mælikvarða til að fylgja þeim eftir – til að sýna að við séum að fara í rétta átt.“

Hún rifjar upp að hlutirnir hafi ekki breyst á einni nóttu í háskólanum í Bristol þegar hún fór að vekja þar athygli á umhverfismálum. „En þegar ég fór þaðan árið 2008 voru verkfræðingarnir búnir að taka að sér leiðtogahlutverk í  þverfaglegri stofnun sem horfir á sjálfbærar lausnir til framtíðar  og var ég beðin um að flytja mig yfir í verkfræðideildina til þess að leiða þetta starf. Það tók því átta ár að komast á þennan stað. Mér finnst hlutirnir hreyfast aðeins hraðar hér á Íslandi og að ég hafi meiri áhrif. Þar var ég bara einn prófessorinn sem kvartaði. Hér get ég farið með mál til hinna sviðsforsetanna og rektors, sem og á stjórnarfundi míns sviðs, og það er yfirleitt hlustað á mig,“ segir Kristín Vala.

Mikilvægt að vinna með fólki utan landsteinanna

Samhliða sviðsforsetastarfinu tekur Kristín Vala þátt í rannsóknarverkefnum í samstarfi við erlenda aðila og doktorsnema við Háskóla Íslands. Hún telur þann hluta starfsins mjög mikilvægan. „Þetta gerir starfið mitt miklu viðameira og það fer langt út fyrir venjulega vinnuviku en ég hef alltaf unnið mikið og mér finnst það gaman. Þetta verður líka til þess að Háskóli Íslands verður sýnilegri á erlendri grundu,“ segir hún.

Kristín Vala með barnahópi á Indlandi.

„Ég er með tvö Evrópuverkefni sem tengjast út fyrir Evrópu. Í öðru þeirra athugum við hvernig unnt er að þróa ramma utan um sjálfbær samfélög og þar tökum við Ísland sem dæmi. Svo er ég að vinna að stóru jarðvegsverkefni. Jarðvegur eyðist mjög hratt, miklu hraðar en hann myndast, af því að við förum svo óvarlega í landbúnaði. Í þessu jarðvegsverkefni athuga ég með samstarfsmönnum mínum sjálfbærnihlutann, hvernig við getum nýtt okkur jarðveg til þess að halda frjóseminni og án þess að hann eyðist,“ útskýrir Kristín Vala og bætir við: „Hér er mikilvægt að leggja ekki einungis áherslu á vísindin sjálf heldur einnig yfirfærslu þekkingar til landeigenda og ráðamanna til að breyta jarðvegsnýtingu í átt að sjálfbærni.“

„Ég byrjaði á Evrópuverkefnum í Bretlandi og mér fannst það miklu skemmtilegra en að vinna bara ein með rannsóknarverkefni styrkt af Rannsóknarráði Bretlands, með einn eða tvo doktorsnema. Mér finnst þverfagleg vinna með fólki úti um allan heim skemmtileg og það er ekki síst þess vegna sem ég legg áherslu á að fólk sæki um styrki til Evrópu og vinni með fólki fyrir utan háskólann. Það er lögð áhersla á að fólk geti farið í rannsóknarleyfi á Íslandi því við séum einangruð en við getum einnig unnið alþjóðleg verkefni og dregið þannig úr einangrun. Ég er með Skype-fundi hérna reglulega til þess að tala við erlenda kollega mína. Upplýsingatæknin gerir það kleift,“ segir hún.

Kristín Vala hvetur að lokum sem flesta til að kynna sér afmælisdagskrá Verkfræði- og náttúruvísindasviðs í apríl. „Ég hvet alla til þess að kynna sér dagskrána á vefsíðu HÍ og taka með sér alla vega eitt barn eða ungling á hvern viðburð til þess að vekja athygli þeirra á skemmtilegri atvinnu sem býðst ef þau útskrifast úr verkfræði og náttúruvísindum,“ segir hún að lokum.

deila á facebook