Skóli án aðgreiningar og ADHD

Ásdís Ýr Arnardóttir.

Árleg ráðstefna Menntavísindasviðs Háskóla Íslands verður haldin þann 30. september 2011 undir heitinu Menntakvika: rannsóknir, nýbreytni og þróun. Eitt af erindunum á Menntakviku ber titilinn „Skóli án aðgreiningar og ADHD.“ Fyrirlesarinn Ásdís Ýr Arnardóttir er menntuð í uppeldis- og menntunarfræði, fötlunarfræði og kennslufræðum. Ásdís Ýr var tekin tali á afmælisvef skólans.

Hugmyndafræði fremur en hugtak

„Ég kýs að tala um hugmyndafræði "skóla án aðgreiningar" fremur en hugtak í sjálfu sér. Upphaflega hugmyndafræðin samkvæmt Salamanca yfirlýsingunni frá árinu 1994 gerir ráð fyrir því að menntun allra barna og ungmenna eiga að fara fram í heimaskóla þar sem hann sé best til þess fallinn að vinna bug á fordómum og þekkingarleysi,“ segir Ásdís Ýr og tekur fram að beiting hugmyndafræðinnar sé ólík eftir löndum og jafnvel bæjarfélögum á Íslandi.

„Í stuttu máli má segja að hugmyndafræðin eigi aðeins við um þá hópa sem "passa" við ríkjandi hefðir í skólastarfi og þar sem boðið er upp á viðunandi þjónustustig. Auk þess höfum við farið þá leið að skilagreina sérskóla sem hluta af hugmyndafræðinni þó að upphaflega hugmyndin gerði aðeins ráð fyrir sérskólum þar sem ríki höfðu lagt í mikla fjármuni við stofnun sérskóla - við erum að tala um árið 1994, við höfum breytt sérskólaflórunni frá þeim tíma. Rökin fyrir því að halda úti sérskólum eru m.a. þau að foreldrar eigi rétt á því að velja menntun fyrir barn sitt sem er hluti af hugmyndafræðinni samkvæmt Salamanca en reynslan hefur hins vegar sýnt okkur það og rannsóknin mín staðfestir það að foreldrar barna með ADHD hafa lítið val þegar börnum þeirra er vikið úr skóla,“ segir Ásdís Ýr.

Viðurlög við hegðunarbrotum

Ásdís Ýr tekur það fram að hún sé mikill áhugamaður um húmanískar aðferðir í uppeldi. „Það kom mér sérstaklega óvart að leiðrétting á óæskilegri hegðun felist í einhverjum tilvikum í því að svipta ákveðna hópa rétti til menntunar. Þegar við erum með nemendur með ADHD verðum við að huga að því að eitt af því sem hamlar þeim í samskiptum er ákveðið ójafnvægi í samskiptalæsi sem athyglisbresturinn veldur, orsök og afleiðing er ekki alltaf skýr í huga þeirra,“ segir Ásdís Ýr og bætir því við að viðmælendurnir í rannsókninni hafi allir átt það sameiginlegt að hafa brotið reglur skólanna ítrekað og þar með verið vísað úr skóla. „Sumir voru án skóla í lengri tíma og aðrir höfðu mjög litla bóklega menntun að baki þrátt fyrir að hafa setið á grunnskólabekk árum saman. Að sama skapi var félagsfærni þeirra skert, m.a. vegna aðgreiningar“.

„Hver og einn á rétt á menntun við hæfi“

„Við erum alltaf að læra en betur má ef duga skal. Fyrsta skerfið sem við höfum tekið er að viðurkenna ADHD sem röskun og halda umræðunni sífellt á lofti. Við erum með ólíka nemendahópa og hver og einn á rétt á menntun við hæfi,“ segir Ásdís Ýr en tekur það fram að margir skólar vinni gott starf og leggji áherslu á að koma til móts við ólíkar þarfir einstaklinga.

„En við erum líka með skóla sem vilja þvinga nemendur í þröngan ramma sem aðeins henta hinum týpíska nemanda sem ekkert þarf aukalega, ef til vill stýrist þetta að einhverju leyti af fjármagni innan hvers skóla en líka um viðhorf. Einn viðmælenda minna gekk svo langt í vangaveltum um þennan hóp að hann sagði að nemendur með ADHD stæðu helst skóla án aðgreiningar fyrir þrifum því sumir vildu einfaldlega ekki hafa þann hóp innan almenna skólakerfisins. Annað sem við þurfum líka að huga að er að stór hluti fanga hefur ekki hlotið grunnmenntun, börn og ungmenni með ADHD eru í talsverðum áhættuhópi hvað varðar ýmsa frávikshegðun s.s. áfengis- og vímuefnaneyslu en með aukinni menntun getum við dregið úr þeirri áhættu. Með því að svipta þennan hóp rétti til menntunar aukum við líkurnar á því að hér sé kominn frávikshópur til framtíðar,“ segir Ásdís Ýr.

Hér er hægt að lesa um dagskrá Menntakviku Menntavísindasviðs

deila á facebook