Tengsl skólamenningar við námsárángur á samræmdum prófum

Börkur Hansen, prófessor.

Árleg ráðstefna Menntavísindasviðs Háskóla Íslands verður haldin þann 30. september 2011 undir heitinu Menntakvika: rannsóknir, nýbreytni og þróun. Eitt af erindunum á Menntakviku ber titilinn „Tengsl skólamenningar við námsárángur á samræmdum prófum“. Börkur Hansen, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs og einn af höfundum rannsóknarinnar, var tekinn tali á afmælisvef skólans. 

Áherslum í stofnanamenningu í skólum lýst

„Í rannsókn okkar notum við orðið skólamenning um stofnanamenningu í skólum. Eins og allir vita snúast skólar um að mennta og mótast stofnanamenning skóla einkum af því hlutverki. Við vorum ekki með fyrirframgefnar hugmyndir um gerðir skólamenningar heldur báðum við kennara að taka afstöðu til staðhæfinga um viðhorf til kennslu, viðhorf  til nemenda, samskipti milli kennara, samskipti milli kennara og stjórnenda, samskipti milli kennara og nemenda, o.s.frv.,“ segir Börkur en tekur fram að tölfræðilegar aðgerðir hafi verið notaðar til að draga fram einkenni í svörunum. „Þau einkenni notum við síðan til lýsa áherslum í stofnanamenningu þeirra skóla sem við söfnuðum gögnum hjá en stofnamenning einkennist  af þeim gildum sem eru ráðandi á hverjum stað,“ segir hann.

Þættir sem höfðu sterkust tengsl við námsárangur

„Við söfnuðum gögnum frá um 230 kennurum í átta grunnskólum með spurningalistum. Þessi þáttur var hluti af stærri rannsókn þar sem einn hlutinn beindist að þáttum í skólamenningu,“ segir Börkur og tekur fram að rannsóknin á skólamenningunni hafi ekki verið tæmandi og líta beri á niðurstöðurnar sem vísbendingar. „Svo má ekki gleyma því að það er hægt að rannsaka skólamenningu með öðrum aðferðum, s.s. með því að dvelja í skólunum um nokkurn tíma,“ segir Börkur.

„Þættirnir í skólamenningunni sem komu fram í rannsókn okkar voru áhersla á völd og áhrif, áhersla á nýbreytni, og áhersla á forystu og stefnufestu. Tveir þættir komu fram sem beindust að kennsluhátttum, það er áhersla á samanburð og getu nemenda ellegar skilnings á því sem verið er að gera. Það kom fram talsverður munur milli skóla hvað alla þessa þætti varðar,“ segir Börkur sem tekur fam að næsta skrefið hafi verið að kanna hvernig þessi einkenni í skólamenningunni tengdust námsárangri á samræmdum prófum í 4, 7. og 10. bekk. „Fram kom að þættirnir kennsla sem beinist að skilningi nemenda og formfesta og stefnufesta höfðu sterkust tengsl við góðan námsárangur,“ segir Börkur.

Samkeppnismenning og námsmenning

„Í erindinu er aðeins verði að kynna brot af niðurstöðum úr stærri rannsókn og auðvitað kalla þær á frekari rannsóknir á ákveðnum atriðum. Í sumum skólanna einkennast kennsluhættir af því að skapa umhverfi getu og samanburðar, einkum í þeim skólum þar sem völd og áhrif koma sterkt fram í skólamenningunni. Í öðrum skólum er áherslan frekar á nám og kennslu, þ.e. þar sem sterk tengsl komu fram milli kennsluhátta sem beinast að því að efla skilning og þáttanna nýbreytni, og forysta og stefnufesta. Ef til vill má gefa þessum tveimur megingerðum af skólamenningu heitin samkeppnismenning annars vegar og námsmenning hins vegar. Það er svo námsmenningin sem hefur jákvæð tengsl við námsárangur,“ segir Börkur.

„Tengsl skólamenningar við námsárángur á samræmdum prófum.“- Erindi á Menntakviku þann 30. september. Höfundar: Börkur Hansen (flytjandi), Amalía Björnsdóttir og Baldur Kristjánsson.

Hér er hægt að lesa um dagskrá Menntakviku Menntavísindasviðs

deila á facebook