Þekking á mikilvægi safna og framtíðarsýn höfuðsafna

Sigurjón B. Hafsteinsson, lektor við félags- og mannvísindadeild.

Í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands efnir Félagsvísindasvið og námsbraut í safnafræði við Háskóla Íslands til fyrirlestraraðar um framtíðarsýn safnstjóra höfuðsafna landsins. Sigurjón B. Hafsteinsson, lektor við félags- og mannvísindadeild var tekinn tali á afmælisvef skólans. 

Markmiðið að auka þekkingu á mikilvægi safna
Höfuðsöfnin á íslandi eru Listasafn Íslands Listasafn Íslands, Þjóðminjasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands. „Hlutverk þeirra eru skilgreind í sérstökum lögum um tilgang og starfsemi þeirra, en þau eiga að sinna víðtækum samfélagslegum tilgangi, hvert á sínu sviði, sem og að vera faglegur stuðningur við önnur söfn og safntengda starfsemi í landinu,“ segir Sigurjón og tekur fram að söfnin gegni mikilvægum hlutverkum og því hafi verið kjörið að efna til fyrirlestrarraðarinnar. 

„Á félagsvísindasviði var stofnað til námsbrautar í safnafræðum árið 2009, en þar er boðið upp á nám í safnafræði sem aukagrein á grunnstigi og svo á framhaldsstigi til diploma, MA og PhD. Markmiðið með náminu, líkt og með því að efna til fyrirlestranna, er að auka faglega og fræðilega þekkingu á mikilvægi safna og safntengdrar starfsemi,“ segir Sigurjón. 

Framtíðarsýnin miðuð við árið 2050
„Upphaflega átti ártalið að vera 2063, en árið 1863 var fyrsta formlega safnið stofnað á Íslandi, Forngripasafnið sem síðar varð Þjóðminjasafn Íslands. Það sem einkenndi það safn var að forsvarsmenn þeirra vildu stemma stigu við útflutningi menningarverðmæta og gera Íslendinga sjálfa meðvitaða um gildi þess að hafa tækifæri til að sjá hluti á borð við menningaminjar og listgripi með eigin augum, en ekki eingöngu að heyra sögur af þeim.

Fljótlega fylgdi í kjölfarið vilji til þess að stofnað yrði náttúrugripasafn með sömu formerkjum og var það gert áður en 19. öldin leið undir lok. Eftir vandlega yfirlegu var ákveðið að rúnna töluna af og varða leiðina við 2050, þar sem hún er hæfilega fjarlæg til að geta gefið ímyndunaraflinu lausan taumin en um leið það nálægt að megin þorri þeirra sem stunda nú nám við Háskóla Íslands munu lifa til að geta metið framtíðarsýnina!,“ segir Sigurjón. 

Allt frá því að líma gogg á fugl til flókinna rannsóknaverkefna
„Það er mjög mikill áhugi fyrir náminu, enda safnasviðið vaxandi atvinnugrein hér á landi og jafnframt með þeim stöðugri á efnahagslegan mælikvarða. Námið er þverfaglegt og endurspeglar það þá líflegu vinnustaði sem söfnin eru, en þar er verið að fást dags daglega við fjölbreytileg viðfangsefni frá því að líma gogg á uppstoppaðan fugl til flókinna rannsóknarverkefna,“ segir Sigurjón og tekur fram að námsbrautin hafi verið stofnuð árið 2009 og að nú stundi ríflega 40 manns námið á ýmsum stigum, sem aukagrein, diploma-nám, eða til MA eða doktorsprófs.

„Safnmenn hafa í gegnum tíðina verið ötulir talsmenn menningar og mennta í landinu og er hægt að nefna nokkra því til stuðnings; Sigurð "málara" Guðmundsson, Matthías Þórðarson, Kristján Eldjárn, og Selma Jónsdóttir, að öðrum ólöstuðum,“ segir Sigurjón og bætir við að þessir og aðrir safnmenn stunduðu sín fræði sem í þá daga voru kölluð öðrum nöfnum, en í dag gæti vel flokkast undir safnafræði. 

„Það sem er einna helst ábótavant í þessum fræðum  er að okkur vantar frekari rannsóknir á þessu sviði, þar sem sjónum er beint að sögu safna, hlutverki þeirra í menningartengdri ferðaþjónustu, fagmennsku í safnastarfi og síðast en ekki síst gerð tilraun til að meta þessa hluti í ljósi erlendra fræða og samanburðar. Þar á námsbraut í safnafræði ríkt erindi sem vettvangur öflugra sérfræðinga og fræðimanna framtíðarinnar“. 

Fyrsta fyrirlesturinn flytur dr. Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands. Hann mun flytja erindið ,,Listasafn Íslands árið 2050". Hér er hægt að lesa um erindi hans á viðburðadagatali skólans. 

deila á facebook