Tillaga að lögfestingu og kynningu Barnasáttmálans

Daníel Reynisson, lögfræðingur.
Daníel Reynisson, lögfræðingur.

Í tilefni af útkomu ritsins Ábyrgð og aðgerðir: Niðurstöður þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal barna á Íslandi er boðað til málþings miðvikudaginn 7. desember í Öskju á vegum Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni í samstarfi við Félagsráðgjafardeild, Lagadeild og Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Fyrri hluti ritsins geymir fræðilegt yfirlit og helstu niðurstöður þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal íslenskra barna. Í seinni hluta þess er útdráttur þriggja meistararitgerða sem niðurstöður rannsóknarinnar byggjast á. Á málþinginu munu höfundar gera grein fyrir tillögum til úrbóta í eineltismálum, sem þeir byggja á niðurstöðum ritgerða sinna. Daníel Reynisson, einn þriggja höfunda sem rannsakaði einelti, sem það gerði út frá sjónarhóli lögfræði var tekin tali á afmælisvef skólans.

Vonir um að tekið verði á einelti á beinskeyttari hátt

„Almennt séð kom það mér á óvart að það alvarlega vandamál sem einelti meðal barna er, er í dag nánast alveg jafn algengt og útbreitt og það hefur verið, þrátt fyrir alla þá vitundarvakningu sem átt hefur sér stað síðustu ár og áratugi varðandi málefnið,“ segir Daníel og bætir við að það hafi verið afar áhugavert að skoða einelti meðal barna frá lögfræðilegu sjónarhorni.

„Margt gott er að finna í löggjöfinni. Þannig eru t.d. mannréttindaákvæði vel vernduð í stjórnarskránni og Mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur verið lögfestur. Þegar barn verður fyrir einelti má leiða sterkar líkur á því að brotið sé gegn einhverjum mannréttindum þess. Margt í skólalöggjöfinni er jákvætt, t.d. markmiðsákvæði laga og námskráa. Sérstaklega ber að vonast til þess að nýtt ákvæði 30. gr. grunnskólalaga skili árangri, en í ákvæðinu er tekið á einelti innan grunnskóla á beinskeyttari hátt en gert hefur verið áður í íslenskri löggjöf,“ segir hann.

Tillaga um lögfestingu Barnasáttmálans

„Lögfesting og kynning Barnasáttmálans yrði stórt skref. Í honum eru mannréttindi barna sérstaklega vernduð og lögesting hans myndi þýða að staða hans yrði sterkari og hægt yrði að beita ákvæðum hans í meira mæli en áður, t.d. fyrir dómstólum. Myndi lögfesting þannig gera það að verkum að dómar ættu ávallt að vera í samræmi við ákvæði sáttmálans, en dæmi eru um að slíkt hafi farist fyrir hér á landi hingað til. Einnig leggjum við til lagalega skilreiningu á einelti meðal barna, en slík skilgreining væri til þess fallin að tryggja sameiginlegan skilning á hugtakinu og stuðla að samhæfðari viðbrögðum,“ segir Daníel.

Eineltið einskorðast ekki við skólaumhverfið

„Oft vill gleymast að einelti meðal barna einskorðast ekki við skóla. Íþrótta- og tómstundastarf hefur m.a. þann tilgang að efla samstöðu barna og skapa gott umhverfi og anda þar sem einelti ætti ekki að þrífast. Staðreyndin er hins vegar sú að hvar sem mikill fjöldi barna koma saman er hætta á einelti meðal þeirra. Bæta mætti til muna allt sem við kemur baráttu gegn einelti í slíku starfi, þ.á.m. löggjöf, fræðslu til þjálfara og starfsfólks, samhæfingu viðbragða o.s.frv,“ segir Daníel.

Hann tekur þó fram að þó svo að megináhersla málþingsins sé „tillögur að úrbótum“, megi ekki gleyma þeim fjölmörgu aðilum sem hafa unnið frábært starf innan málaflokksins. „Raunveruleikinn er hins vegar sá að mikið starf er enn óunnið og því mikilvægt að allir þeir sem vettlingi geta valdið leggi sitt af mörkum í baráttunni gegn einelti. Okkar tillögur nýtast vonandi einhverjum hvað það varðar,“ segir Daníel að lokum.

----------------------------------------------------------------------

Höfundar meistararitgerðanna eru Daníel Reynisson, sem rannsakaði einelti frá sjónarhóli lögfræði, Hjördís Árnadóttir, sem rannsakaði það frá sjónarhóli félagsráðgjafar, og Sjöfn Kristjánsdóttir, sem rannsakaði það frá sjónarhóli grunnskólakennara. Meðhöfundar að útdráttum ritgerðanna, sem birtast í ritinu, eru kennarar við Háskóla Íslands.

Mennta- og menningarmálaráðherra verður afhent fyrsta eintak ritsins. Auk þess fá grunnskólar landsins eintak af ritinu til upplýsingar enda brýnt að koma umfjöllunarefninu á framfæri við þá sem starfa með börnum.

Hér er hægt að lesa nánar um viðburðinn í viðburðadagatali skólans:

deila á facebook