Trúin og háskólinn

Einar Sigurbjörnsson, prófessor.

Einar Sigurbjörnsson er prófessor í trúfræði við Guðfræðideild Háskóla Íslands. „Ég er búinn að starfa hér allt of lengi í 35 ár, síðan1975. Svo starfaði pabbi minn hér í mörg ár og ég var mikið að sniglast hér innanveggja sem krakki, svo ég á margar bernskuminningar úr þessu húsi.“ Það var því ekki úr vegi að ræða við Einar um kapellu háskólans þar sem hann er sérlega fróður um sögu hennar.

Kapellan vígð

Kapellan er byggð um leið og Háskóli Íslands, hún er vígð 16.júní 1940, daginn áður en sjálf háskólabyggingin var vígð. Þegar bygging háskólans var tekinn í notkun þá hófst sú athöfn með guðþjónustu í  kapellunni þann 17.Júní. Kapellan hefur því  alltaf verið hluti af háskólanum og  það var ráð fyrir henni gert frá upphafi. Guðjón Samúelsson húsameistari réð útliti kapellunnar og var leitast við að hafa allt sem vandaðast. „Upphaflega vildi Háskólaráð bara hafa þetta eina hæð en þegar tímar liðu fram var ákveðið að láta þetta ná upp yfir tvær hæðir, sem betur fer. Þetta er gott sönghús og virkilega góður hljómur hér.  Gert var ráð fyrir sönglofti og búið var að panta orgel frá Englandi en svo kom stríðið í veg fyrir að það kæmist til landsins. Þá smíðuðuð þeir þessar pípur sem tákn um að orgel átti að koma á loftið. En það kom svo eftir stríð og þarna uppi var söngloft, kór og orgelið,“ segir Einar. Guðfræðinemar tóku svo loftið undir sig sem kaffistofu. Núna er loftið kaffistofa fyrir hugvísindasvið.

Allt Íslenskt

Einar bendir á  í sambandi við byggingu Háskóla Íslands yfirleitt, að mönnum hefði verið mikið í mun að hafa allt íslenskt, „þetta var nú Háskóli Íslands og Ísland á leið til sjálfstæðis og þá var notað sem mest íslenskt efni. Unnið var með geislasteina og hrafntinnu sem Guðmundur á Miðdal gerði, eins og í hvelfingunni í anddyri Háskóla Íslands sem er blátt á lit. Kertastjakarnir voru hannaðir af Guðjóni arkitekt og smíðaðir af íslenskum járnsmið og það er íslenskur birkispónn á bekkjunum.“

Nýtt hljóðfæri

„En vonin var alltaf sú að fá nýtt hljóðfæri sem yrði þá sett upp hér niðri, það væri þægilegra af því það er ekki alltaf hægt að hafa söngfólk. Fólk kemur hér saman til að skíra, gifta og þá er þægilegra að hafa fólk hérna niðri og í kringum hljóðfærið.  „Úr því rættist þegar nýju orgeli var komið fyrir inni í kapellunni sjálfri árið 1981.  „Það hefði mátt vera stærra því að rýmið þolir það og margir organistar hafa kvartað yfir því hvað það er lítið og að það vanti annað nótnaborð. En hljómurinn er góður og hljómar vel hérna inni, gott til undirleiks  en það er lítið hægt að spila,“ segir Einar.

Lýsist upp í dýrð Guðs

Kapellan var færð í upprunalegan búning árið 2006 eftir gagngera endurnýjun, „ ... en fyrst og fremst var það út af þessum sérstaka bláa lit sem að Guðjón Samúelsson valdi á Kapelluna. Það hafði verið málað yfir hann bara með eldhúsgulu. Rafmagnsljósin voru fjarlægð um 1970, en þau gáfu svolítið góðan svip, sérstaklega þegar veggurinn var blár. Táknið hjá Guðjóni var það að það ætti að tákna himinblámann og svo lýsist hann upp í dýrð Guðs. Þetta var hugsjón Guðjóns Samúelssonar og nú er hún aftur komin í sína upprunalegu mynd.“   

„Sannleikurinn mun gera yður frjálsa“

Þess setning prýðir altari kirkjunnar, „ ... þetta er úr Jóhannesarguðspjalli, 8. Kafla. Þetta er sennilega valið vegna þess að þetta er hásólakapella. Mér finnst það alltaf kallast á við hendingu Jónasar Hallgrímssonar  „Vísindi efla alla dáð,“ vísindi, sannleikur og trúin, þetta heyrir saman. Það eru fjölda margir vísindamenn sem eru miklir  trúvarnarmenn, eru trúaðir menn og svo eru auðvitað aðrir mjög herskáir andstæðingar,“ segir Einar.

Tákn Guðspjallamannanna

„Guðjón Samúelsson hugsaði mjög rækilega um þetta rými í kringum altarið. Magnús Jónsson prófessor í Guðfræði, alþingismaður og ráðherra var með honum í þessu. Þeir munu hafa unnið mjög að altarinu og öllum þeim táknum sem hér eru. Tákn Guðspjallamannanna eru hér við altarið, Matteus er maðurinn því hann byrjar guðspjall sitt á ættartölu Jesú Krists og ítrekar þá hið mannlega við Jesú. Ljónið er Markús af því að hann byrjar frásöguna á Jóhannesi skírara, sem var rödd hrópandi í eyðimörk eins og öskrandi ljón í eyðimörkinni.

Lúkas  er nautið af því að fyrsta frásaga Lúkasar er af fórn Sakaría prests og nautið var fórnardýr í Ísrael. Jóhannes  er örninn sem flýgur fugla hæst, en hann byrjar frásöguna í himninum. Þetta eru forn tákn frá 2.öld og þetta styðst við biblíulegar myndir,“ segir Einar og bætir því við að þetta eru mjög algengar myndir á gömlum predikunarstólum á Íslandi.

Alfa og Omega

Ýmis tákn eru líka að finna í gluggum kapellunnar. „Fyrsta er gríska A eða Alfa og hinar mynda gríska O eða omega sem er síðasti stafur stafrófsins. Opinberunarbókin talar um Jesús sem alfa og omega eða upphafið og endirinn. Og hér eru tveir krossar, þeir eru grískir, jafnarma og svo er latneskur kross og síðan er X og R eða P. Svo er IHS „Jesus hominum salvator“ á latínu sem þýðir Jesús mannanna frelsari,“ segir Einar.

Ásmundur Sveinsson myndhöggvari gerði þessa lágmynd, Einar bendir á að „þarna sé Kristur fyrir miðju og honum til vinstri handar sé vængjað ljón sem er tákn Krists. Svo er það fiskurinn sem er eldgamalt Krists tákn og það eru heimildir fyrir því að á ofsóknartímum þá notuðu kristnir menn þetta  sem leynimerki.  Svo er skipið tákn kirkjunnar. Harpan sem er tákn söngsins benti á söngloftið. Vínviðurinn er tákn Krists og svo er það dúfan sem er tákn heilags anda.“

Kapellan í meiri notkun hér áður fyrr

Fyrstu árin þá var reglulegt helgihald í kapellunni. Einar segir að  „bæði hafi verið færri kirkjur í Reykjavík og prófessorar deildarinnar höfðu reglulega svokallaða háskólamessu hér fram eftir árum. Þegar Neskirkja var stofnuð árið 1941 þá voru fyrstu messurnar hér. Eins þegar Dómkirkjan var lokuð nokkrum  sinnum vegna viðgerða, Þá fékk dómkirkjusöfnuðurinn hér inni. Hér voru fermingar og þær athafnir sem fara fram í kirkjum. Hér var sunnudagaskóli á vegum Guðfræðideildar í mörg ár eða fram yfir 1960. En það hlaut að fjara út þegar Neskirkja var orðin öflug og kirkjum fjölgaði.“

Hér ríkir kyrrð

„Stúdentar eru hér með reglulegar bænastundir,“ segir Einar og bætir við að æfingarmessur fari fram í kapellunni einu sinni í viku og á meðan á kennslu stendur þá sé reglulega athöfn í kapellunni. „Einstaka sinnum eru athafnir hér á sunnudögum. Guðfræðinemar starfa víða í söfnuðum út um bæinn og sinna meðal annars barnastarfi í kirkjum hér í kring , svo að Kapellan er notuð minna en áður,“ segir Einar og bætir svo við, „en ég veit að það er starfsfólk sem leitar hingað inn í kyrrðina. Því hér ríkir kyrrð.“

Sorgarathafnir í Kapellunni

„Það hefur komið fyrir að sorgarathafnir hafa orðið og þá hefur fólki verið stefnt hingað til bænastundar. Ég man eftir því þegar stúdent í Guðfræði lést af slysförum og þá komu allir stúdentar og kennarar hér saman. Eins þann 11. september árið 2001, þá var safnast hér saman til bænastundar eftir árásirnar. Þessa minnist ég,“ segir Einar.

Kapellan er mín kirkja

„Jú það gæti verið rétt að vissu leyti, að kapellan sé mín kirkja, mér þykir mjög vænt um þessa kapellu. Mér eru minnistæð læknishjón sem komu utan af landi. Þau höfðu látið gifta sig hér. Þeim fannst það tilheyra því hann væri stúdent að gifta sig hér í Kapellu háskólans. Þau bönkuðu bara upp á hjá einum prófessor í guðfræði og báðu hann að gifta sig. Þetta er mér minnistætt því það var faðir minn sem gifti þau. Börnin  mín hafa líka öll verið skírð hér, faðir minn skírði þau. En ég hef notað þessa kirkju og fólk er gefið hér saman og jafnvel skírt.“

Einar segir svo að lokum, „ ... ef Guð lofar þá verð ég sjötugur 2014, og þá verð ég að hætta, en ég má hætta fyrr ef mér segir svo hugur. Ég vona að kannski geti eitthvert gagn verið af mér í tvö ár í viðbót.“

Greinarhöfundur: Áslaug Einarsdóttir, mastersnemi í Blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands

deila á facebook