„Erlendum nemendum mikill styrkur að kynnast þegar í stað Íslendingi“

Hafsteinn Einarsson, fulltrúi Alþjóðanefndar Stúdentaráðs HÍ.

Á aldarafmæli Háskóla Íslands er vert að huga að vexti skólans og fjölgun stúdenta, en skiptistúdentum fjölgar í takt við þá þróun. Alþjóðaskrifstofa HÍ og Stúdentaráð HÍ óskar nú eftir tengiliðum, en verkefnið hefur gengið mjög vel hingað til. Hafsteinn Einarsson, fulltrúi Alþjóðanefndar Stúdentaráðs Háskóla Íslands var tekinn tali á afmælisvef skólans.

Háskóli Íslands vinsæll áfangastaður

„Hlutverk tengiliðs er að vera skiptistúdentum innan handar við komu til landsins, aðstoða við hagnýt atriði, kynna félagslíf, aðstoða við að kynnast og aðlagast nýju umhverfi og koma í veg fyrir félagslega einangrun,“ segir Hafsteinn og bætir því við að Háskóli Íslands sé afar vinsæll áfangastaður fyrir erlenda skiptinema. „Það á ekki síður við nú þegar kostnaður við að búa hér hefur lækkað. Við fáum fleiri skiptinema á haustmisseri, nú síðast voru um 300 þeirra skráðir í tengiliðaverkefnið.

„Íslenskir tengiliðir eru alla jafna færri, svo flestir þeirra fá 2 buddya. Það er misjafnt hversu góð skráningin er en maður lendir í því að biðja vini sína um að skrá sig sem vinargreiða, auk þess taka margir sem eru í Stúdentaráði og nefndum þess þátt,“ segir Hafsteinn og tekur jafnramt fram að skráning sé hafin snemma til þess að virkja enn fleiri stúdenta til þátttöku.

Erlendum nemendum styrkur að kynnast Íslendingi

„Tengiliðaverkefnið er ansi farsælt, ég held að það sé erlendum nemendum mikill styrkur að kynnast þegar í stað Íslendingi. Buddyinum er ætlað að vera hálfgerðum „ráðgjafa“ um hvernig á að búa á Íslandi og vera í HÍ,“ segir Hafsteinn og tekur það fram að margar spurningar vakni við að búa á nýjum stað og því sé tengiliðurinn afar mikilvægur. „Íslenskir stúdentar fá tækifæri til að kynnast fólki úr annarri menningu og jafnvel að æfa tungumál sem þau hafa lært eða vilja kynna sér. Svo er auðvitað bara gaman að eiga vini, hvernig sem það er tilkomið,“ segir hann.

Hafsteinn nefnir einnig að óskir nemenda séu alla jafna að fá buddy frá ákveðnu þjóðerni, eðlilega hafa stúdentar áhuga á að kynna sér menningu landa sem þeir hafa sérstakan áhuga á. „Við reynum eftir getu að verða við slíkum óskum. Þá er líka hægt að lista upp áhugamál og annað sem æskilegt er að buddy hafi sameiginlegt með öðrum stúdentum“.

„Erlend og Noora buddyarnir mínir“

Kynningarfundur tengiliðaverkefnisins er haldinn í janúar. „Fundurinn er einna helst tækifæri til að hitta buddyinn sem allra fyrst og auðvitað að spyrja spurninga ef þær eru einhverjar. Buddyar eru almennt nokkuð meðvitaðir um hvað þær vilja gera enda er það mjög frjálst hlutverk,“ segir Hafsteinn. 

Aðspurður um hvort hann sjálfur hafi verið tengiliður játar Hafsteinn því og segir það afar ánægjulega reynslu. „Ég er svo heppinn að hafa tvo buddya og hef haft sérstaklega gaman af. Erlend, norskur félagsfræðinemi sem hefur hjálpað mér aðeins við að rifja upp ryðgaða norskuna mína og Noora, finnskur laganemi sem hefur því miður ekki tekist að kenna mér finnsku, það verður að bíða betri tíma. Ég ætla að halda áfram að vera buddy þegar nýjir skiptinemar koma eftir áramót og vona að sem flestir stúdentar geri slíkt hið sama. Ég held að þeir muni ekki sjá eftir að taka þátt í því að kynnast buddy,“ segir Hafsteinn að lokum.

Hér er hægt að nálgast nánari upplýsingar ásamt því að skrá sig í tengiliðaverkefni Alþjóðaskrifstofu HÍ og Stúdentaráðs HÍ.

deila á facebook