Handritin eru hagnýt

Vefsvæðið handrit.is hreppti Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands sem veitt voru á Nýsköpunarmessu HÍ í fyrra. Undirtitill verkefnisins er: Rannsóknargagnagrunnur og samskrá um íslensk og norræn handrit. Markmið með Hagnýtingarverðlaununum er að laða fram hagnýtanlegar hugmyndir sem kviknað hafa innan Háskólasamfélagsins.  

Vefsvæðið handrit.is er hugmynd frá Sigurgeir Steingrímssyni, vísindamanni á Árnastofnun, Erni Hrafnkelssyni, forstöðumanni handritadeildar Landsbókasafns og Matthew Driscoll, forstöðumanni Árnastofnunar í Kaupmannahöfn. Í þættinum Fjársjóður framtíðar heyrum við einmitt í Sigurgeiri þar sem hann sýnir okkur fáeina dýrgripi úr safni Stofnunar Árna Magnússonar. 

Verkefnið er á sviði norrænna fræða og er nútíma  gagnagrunnur um íslensk og norræn handrit.  Beitt er nútímatækni sem tengir saman ólíkar upplýsingar á nýstárlegan hátt. Hægt er að taka handrit og tengja við upplýsingar af ólíkum toga m.a. staðsetningar og landfræðilegar og fornleifafræðilegar upplýsingar. Auk þess má leika sér með handritin í grunninum, bæta við eigin texta, athugasemdum, nýta myndskreytingar og raða ólíkum atriðum saman að vild. Gagnagrunnurinn verður hvort tveggja tæki til fræðilegra athugana og persónulegt verkfæri til eigin sköpunar og uppgötvana. Með vefnum eru handritin gerð aðgengileg öllum.

deila á facebook