Hátíðarmálþing og afmælishátíð Háskóla Íslands

Kofi Annan, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna og Nóbelsverðlaunahafi, mun flytja erindi á hátíðarmálþingi Háskóla Íslands.

Hátíðarmálþing Háskóla Íslands í tilefni af aldarafmæli skólans verður haldið föstudaginn 7. október 2011 kl. 13.00-16:30 í stóra sal Háskólabíós. 

Í upphafi 21. aldar stendur mannkyn frammi fyrir stórum áskorunum. Þessar áskoranir varða framtíðlífs okkar á jörðinni, hvort sem litið er til loftslags, heilbrigðis, sjálfbærni, fátæktar eða offjölgunar mannkyns, svo dæmi séu nefnd. Jafnframt hafa möguleikar okkar til að takast á við þessar áskoranir aldrei verið meiri og mun glíman við þær að miklu leyti ráðast af nýsköpun þekkingar og framþróun vísinda og menntunar. 

Í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands býður skólinn til opins málþings um áskoranir 21. aldar. Á málþinginu munu heimskunnir fyrirlesarar, fræðimenn og stjórnendur háskóla fjalla um efnið frá ólíkum sjónarhóli og varpa á það ljósi.

Afmælishátíð Háskóla Íslands

Aldarafmæli Háskóla Íslands hefur verið fagnað með margvíslegum hætti allt árið.

Laugardaginn 8. október nk. verður fjölbreytt hátíðardagskrá í Hörpu þar sem litið verður yfir liðna öld og horft til framtíðar. 

 

Hátíðin hefst stundvíslega kl. 15.00 í Eldborg en húsið opnar kl. 14.15. Dagskráin verður tekin upp og henni sjónvarpað síðar á RÚV.

Hátíðardagskráin á sviði Eldborgar stendur í klukkustund og að henni lokinni verður móttaka fyrir framan Eldborg og í Flóanum á 1. hæð. Móttökunni lýkur kl. 17.

Starfsfólk, nemendur, samstarfsaðilar og velunnurar Háskóla Íslands er boðnir sérstaklega velkomnir á afmælishátíðina í Hörpu til þess að njóta glæsilegrar og lifandi dagskrár.

deila á facebook