Þann 1. desember næstkomandi halda stúdentar hátíðisdag sinn hátíðlegann, á aldarafmæli Háskóla Íslands. Lilja Dögg Jónsdóttir, formaður Stúdentaráðs var tekin tali á afmælisvef skólans um daginn, dagskrána og afmælisárið.
„Stúdentinn Ég“
„Frá árinu 1922 hafa stúdentar haldið fullveldisdaginn hátíðlegan. Hátíðarhöldin hafa vissulega breyst frá ári til árs en smám saman hefur þessi dagur orðið að hátíðisdegi stúdenta. Ár hvert hafa mismunandi málefni verið höfð í forgrunni, fyrstu árin var það bygging Stúdentagarða, en síðar voru þau landsmál sem helstu brunnu á stúdentum hverju sinni höfð í forgrunni,“ segir Lilja Dögg.
Hún tekur fram að á aldarafmæli skólans séu 89 ár liðin frá því að stúdentar héldu 1. desember í fyrsta sinn hátíðlegan. „Á umbrotatímum vill Stúdentaráð hvetja alla stúdenta, fyrr og síðar, til að vera aftur stúdentar í einn dag. Hugsið aftur til ykkar stúdentsára. Hvað brann á ykkur á þegar þið voruð stúdentar og hvers minnist þið frá ykkar háskólaárum?,“ segir Lilja Dögg og útskýrir jafnframt að þannig hafi titill dagsins verið ákveðinn „Stúdentinn ég“.
Hitamál og eftirfylgni málefna stúdenta
„Á hátíðarmálþingi Háskóla Íslands ræddi Kofi Annan, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega um mikilvægi þess að ungt fólk tæki virkan þátt í íslensku samfélagi og reyndi að hafa áhrif á það samfélag sem það brátt mun erfa. Til stúdenta í dag beinum við sömu vangaveltu – hvað brennur á ykkur? Og ennfremur – hvað ætlið þið að gera til að fylgja því eftir?,“ segir Lilja Dögg að lokum.
---------------------------------------------------------------
Dagskrá:
10:20 Stúdentar ganga frá Háskóla Íslands að leiði Jóns Sigurðssonar
10:30 Blómsveigur lagður á leiði Jóns Sigurðssonar
Fulltrúar stúdenta, forseti Íslands og rektor Háskóla Íslands koma saman við leiði Jóns Sigurðssonar. Allir gestir velkomnir.
Guðfinnur Sveinsson stúdent flytur hugvekju.
Hópur úr Háskólakórnum syngur lag.
11:00-12:00 Messa guðfræðinema í Háskólakapellunni
12:00-13:00 Hátíðarhöld á Háskólatorgi
Háskóli Íslands býður stúdentum súpu, kakó og piparkökur.
Gleðisveit Lýðveldisins leikur jólalög í bland við annað íslenskt efni.
Félagsstofnun stúdenta afhendir verkefnastyrki.