Ofmeta réttarstöðu sambúðarfólks

Hrefna Friðriksdóttir, dósent við Lagadeild Háskóla Íslands.
Hrefna Friðriksdóttir, dósent við Lagadeild Háskóla Íslands.

Allstór hópur fólks telur að einstaklingar í óvígðri sambúð öðlist sömu réttarstöðu og hjón í mun ríkara mæli en rétt er samkvæmt gildandi lögum. Þetta er meðal þess sem Hrefna Friðriksdóttir, dósent við Lagadeild Háskóla Íslands, ræðir á opnu hádegiserindi miðvikudaginn 26. október. Erindið, sem ber heitið Sambúð eða hjónaband - hver er munurinn?“, er liður í hátíðahöldum Félagsvísindasviðs í október í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands. 

Á undanförnum áratugum hefur það farið vaxandi að leggja óvígða sambúð að jöfnu við hjónaband á afmörkuðum sviðum að vissum skilyrðum uppfylltum. Það er þó enn grundvallarmunur á réttarstöðu einstaklinga í óvígðri sambúð og einstaklinga í hjúskap að sögn Hrefnu. Hún mun í erindi sínu kynna helstu niðurstöður könnunar þar sem athuguð var þekking fólks á réttarstöðunni í óvígðri sambúð.

„Reynslan gefur sterkar vísbendingar um að fólk misskilji réttaráhrif óvígðrar sambúðar og telji í ríkum mæli að einstaklingar í óvígðri sambúð öðlist sjálfkrafa sömu réttarstöðu og hjón við tilteknar aðstæður, svo sem með því að eignast barn eða eftir að hafa búið saman í tiltekinn tíma. Þessar grundvallarspurningar um stöðu mismunandi fjölskyldugerða eru áhugaverðar frá ýmsum sjónarhornum félagsvísinda og mikilvægar fyrir stóran hluta íslensks samfélags. Því þótti tilvalið í tilefni af afmælisári háskólans að Lagadeild og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands legðu saman krafta sína og úr varð þessi könnun,“ segir Hrefna.

Hún segir að niðurstöður könnunarinnar hafi staðfest að mörgu leyti það sem reynslan þyki hafa sýnt. „Allstór hópur fólks telur að einstaklingar í óvígðri sambúð öðlist sömu réttarstöðu og hjón í mun ríkara mæli en rétt er samkvæmt gildandi lögum. Einhverjir telja að þetta gerist sjálfkrafa við vissar aðstæður. Þó vekur athygli að fleiri virðast telja réttaráhrifin bundin við tiltekið frumkvæði þeirra sem velja óvígða sambúð, svo sem með því að sambúðarfólk skrái sambúð sína. Þá vekur áhuga hversu margir telja að hægt sé að semja um að sambúðarfólk öðlist sömu lagalegu stöðu og hjón,“ segir Hrefna. 

Auk þess að spyrja um þekkingu var einnig spurt um óskir fólks. „Með hliðsjón af því hversu margir þátttakendur töldu réttarstöðu sambúðarfólks í raun betri en hún er þá vekur sérstaklega athygli hversu margir virðast jafnframt óska þess að hjón og sambúðarfólk séu í enn ríkara mæli í sömu lagalegu stöðu,“ segir Hrefna enn fremur.

Fyrirlesturinn fer fram miðvikudaginn 26. október kl. 12 í stofu 101 í Lögbergi. Hann er öllum opinn meðan húsrúm leyfir.

deila á facebook