Stefnt að því að doktorshátíð verði árviss viðburður

Pétur Ástvaldsson, verkefnastjóri hjá Miðstöð framhaldsnáms og einn af aðstandendum hátíðarinnar.

Þann 1. desember 2011 efndi Háskóli Íslands í fyrsta sinn til Hátíðar brautskráðra doktora í Hátíðasal Aðalbyggingar. Þar tóku þeir doktorsnemar, sem varið hafi ritgerðir sínar við Háskóla Íslands undanfarið ár, við gullmerki háskólans að viðstöddum forseta Íslands, menntamálaráðherra, rektor háskólans, forsetum fræðasviða og deildarforsetum. Stefnt er að því að hátíðin verði árlegur viðburður hér eftir. Pétur Ástvaldsson, verkefnastjóri hjá Miðstöð framhaldsnáms og einn af aðstandendum hátíðarinnar, var tekinn tali á afmælisvef skólans.

„Þessi fyrsta doktorahátíð Háskóla Íslands tókst með miklum ágætum, það var sannkölluð hátíðarstemning í salnum. Gestir hafa lokið upp einum rómi um að hátíðin hafi bæði verið ánægjuleg og tímabær nýjung í starfi skólans,“ segir Pétur og bætir við að gullmerkið sem afhent var doktorum sé barmmerki með merki Háskóla Íslands.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sagði m.a. í ræðu sinni:

„Vísindastarf sem verður til með samvinnu metnaðarfullra doktorsnema og öflugra leiðbeinenda leiðir af sér verðmætasköpun á öllum fræðasviðum. Námið hefur í för með sér stranga þjálfun í þekkingarleit, nákvæmni, rökhugsun, túlkun og ályktunarhæfni, frumkvöðlahugsun, framsetningu í rituðu og töluðu máli. .... Þróun doktorsnámsins byggir á þeim grunni sem lagður hefur verið á undanförnum áratugum í starfi skólans. Það er engin spurning að þessi uppbygging hefur átt verulegan þátt í þeirri velgengni sem Háskóli Íslands nýtur á alþjóðavettvangi. Staðfest var fyrir nokkrum vikum þegar tilkynnt var að skólinn væri kominn í hóp 300 bestu háskóla að mati Times higher Education World University ranking“.

1. desember hátíð brautskráðra doktora

Á tímabilinu frá 1. desember 2010 til 1. desember 2011 brautskráðust 47 doktorar frá Háskóla Íslands, 27 karlar og 20 konur. Doktorsnám er í eðli sínu aðlþjóðlegt og eru doktorar frá Háskóla Íslands á þessu tímabili frá níu þjóðlöndum og þremur heimsálfum, en rúm 60% þeirra eru frá Íslandi.

„Það lá fremur beint við að 1. desember yrði valinn, þar sem hann er hátíðisdagur í svo mörgum skilningi. Tímamótin eru einnig þau að á afmælisárinu munu 50 doktorsvarnir fara fram frá skólanum,“ segir Pétur og tekur fram að doktorsnáminu hafi vaxið mjög ásmegin undanfarin ár. „Brautskráningum hefur fjölgað hratt, einkum eftir 2006, er stefnan var mörkuð um áherslu á eflingu rannsókna og doktorsnáms. Doktorsnemar eru nú tæplega 500, þar af eru erlendir nemendur um 100,“ segir hann að lokum.

Hér er hægt að skoða bækling með nöfnum þeirra doktora er hlutu gullmerki Háskóla Íslands (pdf)

Hér fyrir neðan er hægt að skoða myndaseríu frá athöfninni.

deila á facebook