Þjóðfræði í mynd

Björk og Ólafur, framleiðendur þáttanna.

Níu þjóðfræðiþættir verða frumsýndir í Bíó Paradís fimmtudaginn 20. október, en í hverjum þætti verða rannsóknir á íslenskum veruleika kynntar í samræðum við alþjóðleg fræði. Í þáttunum er rætt við höfunda ritgerðanna, aðra fræðimenn og fleiri viðmælendur. Björk Hólm, einn af framleiðendum þáttanna, var tekin tali á afmælisvef skólans.

Rannsóknir í Háskóla Íslands á hvíta tjaldið
„Okkur finnst kvikmyndaformið henta þjóðfræðinni vel. Það fer að sjálfsögðu eftir umfjöllunarefninu hverju sinni en þar sem þjóðfræðin fæst oftar en ekki við hversdagslegan veruleika fólks getur efnið oft hentað vel í heimildamyndaforminu,“ segir Björk og bætir við að henni og samstarfsaðila hennar Ólafi Ingibergssyni, sýnist að formið sé farið að sækja í sig veðrið hjá þjóðfræðingum og að eins og megi sjá verkefni sem Þjóðfræðistofa vinni að sem kallist Frásagnasafnið þar sem tekin eru viðtöl við íbúa á Seyðisfirði og á Ströndum.

„Einnig má nefna að bandaríski þjóðfræðingurinn Timothy Tangherlini hefur notað myndbandsformið í rannsóknum sínum en við fáum einmitt að nota brot úr heimildarmynd hans, Talking Trauma, í einn af þáttunum okkar. Það sem okkur finnst einmitt svo heillandi við miðilinn er að með honum getum við gert rannsóknir, t.d. þær sem gerðar eru í háskólanum, aðgengilegri fyrir stærri hóp fólks. Við lítum svo á að við séum að færa þjóðfræðina aftur til fólksins,“ segir Björk.

Efni ritgerðanna yrði að henta miðlinum
„Efnisvalið í þetta skiptið fór að miklu leiti fram í samvinnu við Terry Gunnell prófessor og Valdimar Tr. Hafstein dósent í þjóðfræði. Að sjálfsögðu höfðum við í huga að efni ritgerðarinnar þyrfti að henta myndbandsmiðlinum vel en auk þess höfðum við í huga að þættirnir endurspegluðu þá miklu vídd sem þjóðfræðin býr yfir,“ segir Björk og bætir við að þættirnir séu framhald af þáttaseríu sem þau Ólafur og Björk framleiddu í fyrra. „Það er óhætt að segja að öll tæknivinnsla hafi gengið talsvert betur í ár en í fyrra þegar hvorugt okkar hafði komið nálægt slíkri vinnu áður. Við þykjumst vera orðin miklu flinkari í ár en um leið miklu metnaðarfyllri,“ segir hún.

Ráðleggingar frá Timothy Tangherlini 
„Við vorum ótrúlega heppin með viðmælendur og allir sem hafa komið að verkefninu á einn eða annan hátt hafa verið jákvæðir og hjálplegir. Það er samt óhætt að segja að það hafi verið svolítill hápunktur fyrir okkur að fá að taka viðtal við þjóðfræðinginn Timothy Tangherlini sem við höfum lesið svo mikið eftir í náminu. Það var líka gaman að geta rætt við hann um hans aðkomu að heimildamyndagerð og fá ráðleggingar frá honum í þeim efnum,“ segir Björk og endar á því að taka fram að hún og Ólafur hlakki mikið til að frumsýna annan árgang af þáttaröðinni Þjóðfræði í mynd í Bíó Paradís næstkomandi fimmtudag.

Þættirnir níu sem frumsýndir verða í Bíó Paradís fjalla um: Bollaspádóma, jólahald, menningartengda ferðaþjónustu, húsmæðraskóla, umskiptingasagnir, lífrænan mat, hjálækningar óperusöngvara, opin eldhús og matarboð og Spútník- týpur. Þættirnir sækja umfjöllunarefni sitt í BA og MA ritgerðir sem skrifaðar hafa verið í þjóðfræði á undanförnum árum.

Þættirnir verða sýndir fimmtudaginn 20. október í Bíó Paradís kl. 15:00 og er aðgangur ókeypis og öllum heimill. Sjá nánar í viðburðadagatali skólans.

Hægt er að að skoða þættina frá því í fyrra á myndbandasíðu skólans undir „Lifandi myndir háskólafólks“

deila á facebook