Fyrsti kvenprófessorinn hlýtur heiðursdoktorsnafnbót

Margrét Guðnadóttir
Sigurður Guðmundsson, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, Margrét Guðnadóttir, Guðmundur Þorgeirsson, forseti Læknadeildar. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson

Margrét Guðnadóttir, prófessor emeritus, var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Læknadeild Háskóla Íslands í nóvember 2011. Nafnbótina hlýtur hún fyrir vísindaframlag á sviði veirufræði og greiningu veirusýkinga. Með rannsóknum sínum hefur Margrét lagt af mörkum mikla þekkingu á fjölmörgum veirusýkingum, m.a. rauðum hundum, mislingum, hettusótt og cytomegalo-veirusýkingum. Þá hafa rannsóknir hennar á hæggengum veirusjúkdómum í sauðfé, eðli visnu-mænuveikisýkingar og gerð bóluefnis við þeirri sýkingu skipað Margréti í röð fremstu vísindamanna og borið merki Háskóla Íslands hátt í hinum alþjóðlega vísindaheimi. Margrét var fyrst kvenna til að gegna stöðu prófessors við Háskóla Íslands.

Margrét Guðnadóttir (f. 1929) lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands. Hún stundaði framhaldsnám í veirufræði við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum þar sem hún starfaði undir stjórn Björns Sigurðssonar, fyrsta forstöðumanns Tilraunastöðvarinnar. Á Keldum var hennar fyrsta verkefni að rannsaka ónæmi barna gegn mænusótt til undirbúnings fyrstu mænusóttarbólusetningunni hér á landi. Í kjölfarið sótti hún framhaldsmenntun og þjálfun við Central Public Health Laboratory í London, á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar á ýmsum veirurannsóknarstofum í Bandaríkjunum og Kanada og loks fráhalsnám í veirufræði við Veirufræðideild Yale háskóla.

Að námi loknu, árið 1960 tók Margrét við starfi sérfræðings á við Tilraunastöðina á Keldum. Þar kom í hlut hennar og samstarfsmanna að halda uppi merki Björns Sigurðssonar sem þá var nýlega fallinn frá. Rannsóknir Björns höfðu sett Keldur á heimskortið með uppgvötvunum á hæggengum veirusjúkdómum í sauðfé. Rannsóknir Margrétar og samstarfsfólks hennar leiddu til aukins skilnings á slíkum veirusjúkdómum og það hefur reynst ómetanlegt baráttu við aðra hæggenga veirusjúkdóma, einkum HIV.

Eftir níu ára starf á Keldum, vorið 1969, var Margrét skipuð prófessor í sýklafræði við Læknadeild Háskóla Íslands og var þar með fyrst kvenna til að gegna prófessorsembætti við háskólann. Hluti af starfi hennar fólst í að veita Rannsóknastofu háskólans í veirufræði forstöðu og þar með hafa yfirumsjón með rannsóknum í veirufræði og greiningu veirusýkinga í landinu um áratuga skeið. Margrét lét af störfum sem prófessor við Læknadeild sökum aldurs árið 1999.

deila á facebook