Aldarsaga Háskóla Íslands gefin út

Gunnar Karlsson, sagnfræðingur og ritstjóri Aldarsögu Háskóla Íslands.

Í tilefni af 100 ára afmæli HÍ kemur út Aldarsaga Háskóla Íslands 1911–2011. Um er að ræða mjög umfangsmikið og vandað rit, tæplega 900 blaðsíður að lengd og skreytt rúmlega 300 myndum af margvíslegu tagi. Ritstjóri ritsins, Gunnar Karlsson, var tekinn tali á afmælisvef skólans.

Leituðust við að draga upp Háskólann sem samfélag fólks

Gunnar greinir frá því að verkinu hafi verið frá upphafi stýrt af fimm manna ritnefnd, einum fulltrúa hvers fæðasviðs Háskólans, eins og þau voru áður en Kennaraháskólinn sameinaðist Háskóla Íslands, og ritstjóra. „Ein fyrsta ákvörðun nefndarinnar var að láta ekki skrifa einhliða stofnunarsögu heldur félagssögu Háskólans. Höfundarnir, þrír talsins, voru alveg sammála þessu og leituðust við að draga upp mynd af Háskólanum sem samfélagi fólks, kennara, fræðimanna og nemenda,“ segir hann.

Gunnar nefnir sem dæmi um þetta að í ritinu sé sagt frá kennsluháttum og breytingum á þeim, rannsóknum starfsmanna, samskiptum kennara og stúdenta, félagsstarfi og lífsháttum nemenda. „En auðvitað varð þetta jafnframt stofnunarsaga því visulega er Háskólinn meðal annars stofnun. Þannig eru samskipti ríkisvaldsins og Háskólans rakin nákvæmlega frá því að hann var svo gersamlega undir stjórn ráðherra að ráðherra gat veitt kennarastöður að eigin geðþótta, uns Háskólinn náði því að stýra nánast öllu starfi sínu, innan ramma laga og samninga við ríkið um fjárveitingar. Annars er sögunni skipt í þrjá hluta eftir ríkjandi áherslum á hverjum tíma. Embættismannaskólinn fjallar um fyrstu hálfa öldina, Grunnmenntunarskólinn um næstu þrjá áratugi, 1961-90, og Rannsóknarháskólinn um tvo síðustu áratugina“.

Þótti minnistæðast að byrja í háskólanámi

Aðspurður um hvað honum hafi þótt minnisstæðast sjálfum, svara Gunnar: „Ég var hér á Háskólalóðinni að mestu leyti í næstum 48 ár, frá 1962 til 2009. Minnisstæðast hefur líklega verið að byrja. Þá var háskólanám svo ólíkt framhaldsskólanámi. Í íslenskum fræðum, þar sem ég stundaði nám, var engin árgangaskipting og allir stúdentar saman í tímum. Kennarar gerðu sjaldan nokkuð annað en halda yfir okkur fyrirlestra,“ segir Gunnar og bætir við að próf hafi verið þreytt tvisvar á námstímanum, fyrrihlutapróf eftir tvö til þrjú ár og lokapróf eftir þrjú, fjögur eða enn fleiri ár eftir það.

Gunnar hefur því eflaust lifað tímana tvenna í Háskólasamfélaginu og því var ekki úr vegi að spyrja út í stærð og umfang verksins.

Úr 57 í fjórtán þúsund

Aðspurður um umfang verksins, segir Gunnar að prýðilega hafi tekist til. „Það lenti meira á höfundunum en mér að ná utan um efnið innan þeirra marka um textalengd sem við höfðum sett okkur, og þeir leystu það verkefni prýðilega, finnst mér. Ég átti von á að þurfa kannski að stytta texta höfundanna grimmilega, en það varð ekki. En ég get ímyndað mér að það komi lesendum svolítið spánskt fyrir sjónir að byrja með stofnun 11 kennara, 45 stúdenta og eins húsvarðar, fara svo upp í 14.000 manna samfélag. Samt verða þeir að taka alvarlega þetta 57 manna samfélag sem varð til 1911 og fallast á að það var mikilvæg stofnun fyrir Íslendinga í heild,“ segir hann.

„Fyrirfram kveið ég dálítið fyrir að það yrði skortur á myndum sem tengdust fyrsta hlutanumi, en það varð ekki. Og þegar fram í sótti varð mikil ofgnótt af myndum. ég gat ekki notað nærri allar góðar og forvitnilegar myndir sem fólk sendi mér eða benti á,“ segir Gunnar en tekur jafnframt fram að vandinn hafi verið sá að langflestar ljósmyndir væru af prúðbúnu fólki við hátíðlegar athafnir, brautskráningar, afhendingar gjafa eða undirritun samstarfssamninga. „Auðvitað er ekkert á móti því að birta myndir af slíku, enda gerði ég það. En ég leitaðist við að finna líka myndir af daglegu starfi stúdenta, kennara, rannsóknarfólks, umsjónarmanna húsa og ræstingarfólks. Líka vildi ég láta myndirnar létta svolítið blæinn á bókinni og lagði mig því sérstaklega eftir skopmyndum. Svo er heilmikið af skýringarmyndum, línuritum og öðru slíku, en það var raunar mest á vegum höfundanna,“ segir Gunnar.

Háskóli Íslands í 100 ár
Gunnar tekur það fram að hann vilji einkum þakka samstarfsfólki sínu í þessu verki. „Í heildina held ég að við höfum unnið þokkalega vel saman þótt við værum ekki alltaf sammála. Ég vil biðja einstaka starfsmenn að virða okkur á besta veg þótt starf þeirra og starfssvið sé kannski lítt eða ekki nefnt í bókinni. Allir skynja tilveru sína í einhvers konar perspektívi; það sem er næst þeim virðist stærst. Höfundar yfirlitsrita, eins og hér var skrifað, skynja söguna í allt öðru perspektívi, og það sem væri hugsanlegt, og kannski vert, að nefna er svo margfalt, margfalt, margfalt fleira en aðrir hugsa út í. Við einsettum okkur frá upphafi að skrifa þessa sögu í einu bindi, og ég sé ekki eftir því“.

 

Aldarsaga Háskóla Íslands

deila á facebook