Aldarafmæli skólans í máli og myndum

Út er komin skýrsla um aldarafmæli Háskóla Íslands (.pdf) þar sem árið er gert upp á afar myndrænan og aðgengilegan hátt. 

Háskóli Íslands fagnaði aldarafmæli sínu á árinu 2011 en skólinn var stofnaður í Alþingishúsinu við Austurvöll hinn 17. júní 1911. Skýrsla aldarafmælisins er ekki tæmandi yfirlit yfir þá fjölmörgu viðburði sem haldnir voru á afmælisárinu heldur er henni ætlað að gefa innsýn í þá fjölbreyttu dagskrá sem öllum stóð opin á árinu um land allt.

Aldarafmælið, sem fagnað var undir yfirskriftinni „Fjársjóður framtíðar“, hófst með formlegum hætti í upphafi árs þegar Kristín Ingólfsdóttir, rektor, kynnti nýja Stefnu Háskóla Íslands 2011–2016 og dagskrá aldarafmælisins í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Dagskráin var afar fjölbreytt. Háskóli unga fólksins var veglegri en nokkru sinni fyrr í upphafi sumars og ferðaðist hann m.a. með Háskólalestinni um landið og kom við á níu áfangastöðum í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands, Vísindavef Háskóla Íslands, grunnskóla og sveitarfélög. Þá var efnt til fjölbreyttra gönguferða undir kjörorðinu „Með fróðleik í fararnesti“ í samstarfi við Ferðafélag Íslands. 

 

Enn fremur var haldin röð lýðheilsufyrirlestra í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands, Vísindadagatal vargefið út í upphafi árs í samstarfi við Vísindavefinn, efnt var til Mánudagsbíós í samstarfi við Háskólabíó á hálfrar aldar afmæli þess, haldnir voru Háskólatónleikar í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík auk þess sem haldin voru fjölmörg málþing, nemendaviðburðir og vísindasýningar fyrir almenning.

 

Þá var sérstakur hátíðarfundur haldinn í Alþingishúsinu og minnisvarði um veru skólans í þinghúsinu í tæpa þrjá áratugi afhjúpaður á afmælisdegi skólans, 17. júní. Hápunktur hátíðahaldanna var afmælismálþing um áskoranir 21. aldar í Háskólabíói 7. október og afmælishátíð í Hörpu 8. október.

Af ýmsu er að taka en í skýrslunni má sjá fjölmargar myndir frá viðburðum ársins. Þar eru einnig helstu vefslóðir sem vísa á efni og upptökur frá fyrirlestrum og viðburðum afmælisársins.

Hér er hægt að skoða Skýrslu um aldarafmæli Háskóla Íslands (.pdf) 

deila á facebook