Kapellan

Það hvarflar varla að grunlausum gesti, sem gengur suður eftir annarri hæð Aðalbyggingarinnar, að inn á milli kennslustofanna leynist lítil kapella með undurfallegum glerlistaverkum, litlu orgeli og bogadregnu lofti.

Hlutverk kapellunnar er margþætt, allt frá því að hýsa vikulega æfingaguðsþjónustu guðfræðinema til þess að vera eins konar hljómburðarparadís fyrir tónelska stúdenta og starfsmenn. Ekki er verra að vita af því ef ástföngnum stúdentum dettur í hug að ganga í hjónaband, já eða ef lítil stúdentabörn líta heiminn, að í kapellunni hafa stúdentar bæði gifst og fengið börn sín skírð.

Svo er líka afskaplega indælt að taka með sér góða skruddu, leggjast flatur á kirkjubekkinn, með nefið upp í loft og lesa í kyrrðinni. Tónlistarmaðurinn og stúdentinn Hjalti Jón Sverrisson segir kapelluna vera skjólið sem hann leiti í frá dagsins önnum. „Mér þykir fátt betra en að koma í kapelluna í smástund og raula lítinn lagstúf og ef vel liggur á mér gríp ég í gítarinn og spila undir. Eftir slíka stund er ég eins og fullhlaðinn farsími, tilbúinn í hvaða langlínusamtal sem er.“

Titill
Hjalti Jón Sverrisson

Text

Tónlistarmaðurinn og stúdentinn Hjalti Jón Sverrisson sækir í kyrrðina í kapellunni.

Image
Image
Hjalti Jón Sverrisson, Kapellan