Header Paragraph

Hrunið - orsakir, afleiðingar

Image
Gylfi Zoëga

Hrunið - orsakir og afleiðingar

Gylfi Zoëga, prófessor í þjóðhagfræði og vinnumarkaðsfræði, fjallar um orsakir og afleiðingar hrunsins. Hann bendir á að fjármálakreppur geta verið ólíkar en atburðarásin sé yfirleitt lík.

Vill lágmarka tjón fjármálakreppunnar

„Fjármálakreppur gerast nokkuð reglulega í markaðshagkerfum. Sú kreppa sem hófst á Íslandi árið 2008 er þó einstök að því leyti að allt fjármálakerfið hrundi, gjaldeyrismarkaður hvarf og stór hluti fyrirtækja varð tæknilega gjaldþrota,” segir Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði. „Þessi reynsla er raungerð tilraun í hruni fjármálakerfa sem er verðugt rannsóknarefni,“ bætir hann við en Gylfi vinnur nú að rannsókn á hruninu. Hann kemur við sögu í lokaþættinum um rannsóknir innan Háskóla Íslands.

Að sögn Gylfa er mikilvægt í rannsókn sem þessari að leita leiða til að bregðast við neikvæðum þáttum kreppunnar á samfélagið. „Niðurstöður munu vonandi hjálpa til við aðgerðir til að lágmarka það tjón sem fjölskyldur hér á landi munu verða fyrir næsta áratuginn,” segir hann.

Gylfi hefur vakið landsathygli fyrir túlkun sína á orsökum hrunsins og við að tefla fram úrræðum til lausnar á vandamálum sem því tengjast. Gylfi segir að hluti af vinnu sinni nú beinist að því að greina kreppuna, eðli hennar og þróun. „Slík greining getur hjálpað við að finna skýringar á því hví atvinnuleysi helst hátt í kjölfar kreppu. Þannig hélst atvinnuleysi hátt í meira en tíu ár í kjölfar fjármálakreppu í Finnlandi og Svíþjóð í upphafi tíunda áratugarins,” segir Gylfi. Eins og nú háttar er þó vissulega ekki ljóst hvort atvinnuástand verði langvarandi slæmt á Íslandi eins og var í þessum tveimur samanburðarlöndum.

Að sögn Gylfa er nú verið að safna saman gögnum um breytur sem mæla hinar ýmsu víddir fjármálakreppu fyrir Ísland, önnur ríki sem hafa orðið illa úti, eins og t.d. Írland og Spán, og önnur OECD-lönd. Þessi gögn eru notuð til þess að kortleggja hegðun og tengsl hinna ýmsu breyta. Mynstrið þarf síðan að útskýra með hagfræðilíkönum sem að endingu eru prófuð með aðferðum tölfræði.

Gylfi segir að í hagfræði hafi hingað til ekki fundist nægilega góð skýring á því hvers vegna atvinnuástand batni ekki fyrr en raun ber vitni í kjölfar fjármálakreppu. „Íslenska kreppan gefur einstakt tækifæri til að greina vinnumarkaðsáhrif fjármálakreppu. Kenningar um atvinnuleysi eiga flestar rætur í síðustu áratugum og ná ekki að útskýra áhrif fjármálakreppu á vinnumarkað. Í þessu verkefni munu áhrif kreppu á vinnumarkað verða könnuð sérstaklega með því að endurbæta kenningar um atvinnuleysi með hliðsjón af nýjum gögnum,” segir Gylfi.