Gufan

Í Íþróttahúsi Háskóla Íslands er margt viskulegt skrafað, en hvergi þó af meiri áfergju en í gufubaðinu í kjallaranum. Viskan er nærri áþreifanleg í gufumettuðu loftinu, á meðan prófessorar, dósentar, lektorar, aðjúnktar og stúdentar kryfja heimsmálin og vísindin, kviknaktir en með handklæði um sig miðja.

„Þrekþjálfun og blak með samkennurum hefur dugað mér vel í hartnær fjóra áratugi. Gufubaðið er kærkomið í lok vinnuviku. Það sem þar er rætt er ekki gert opinbert en sagt er að ekkert mál megi til lykta leiða í HÍ fyrr enn það hefur verið fullrætt í gufubaðinu,“ segir Hörður Filippusson, prófessor í lífefnafræði við HÍ. Hann er einn af fastagestum gufubaðsins.

Eftir góða stund í gufubaðinu er hægt að hvíla lúin bein á huggulegum trébekkjum heilsulindar Íþróttahúss háskólans og leyfa viskunni að síast inn í kollinn. Einnig er að hægt að huga að hreystinni í skipulögðum tímum í sal Íþróttahússins eða lyfta lóðum í tækjasalnum á efri hæðinni. Árskort í herlegheitin kostar einungis 7.000 krónur á ári.

Íþróttahús Háskóla Íslands stendur við Suðurgötuna, milli Háskólatorgs og Árnagarðs. Það var reist á árunum 1946 til 1947 og við það var byggt árið 1960. Arkitekt hússins er Gísli Halldórsson.

Titill
Gufan

Text

Fjölmargir af kennurum Háskóla Íslands eru fastagestir gufubaðsins.

Image
Image
Gufubaðið í íþróttahúsi Háskólans