Stjörnusjónaukastöðin

Í áranna rás hafa lifað rökkur- og flökkusögur meðal stúdenta og starfsfólks um kynngimögnuð kynjaherbergi í ýmsum byggingum háskólans. Öll eiga herbergin það sammerkt að vera ævintýralegt frávik frá hefðbundnum rýmum háskólans.

Þegar farið er eftir Suðurgötunni til sjávar gefur að líta á vinstri hönd nokkrar af helstu byggingum Háskóla Íslands. Fyrst birtist Aðalbyggingin, tignarleg eins og klettaborg skreytt með stuðlabergi, Háskólatorg með húfuna sína gulu, Íþróttahúsið í spánnýjum fötum og svo Árnagarður, sem gætir handritanna. Það er furðulegi kúpullinn á þaki Árnagarðs sem fangar allt í einu augað.

Við fyrstu sýn gæti þetta auðveldlega verið stjörnusjónaukastöð, en að vel athuguðu máli er það heldur ólíklegt að slíkur útsýnispallur, sem nái til óravídda alheimsins, sé staðsettur á hvirfli Árnagarðs. En bíðum við. Þetta er nú samt stjörnusjónaukastöð.

Það var árið 1995, fyrir áeggjan Einars H. Guðmundssonar prófessors í Raunvísindadeild, að stjörnuskoðunarstöð fyrir stúdenta og annað háskólafólk var komið fyrir á þaki Árnagarðs. Að sögn Sævars Helga Bragasonar , meistaranema í raunvísindum og formanns Stjörnuskoðunarfélagsins á Seltjarnarnesi, hefur stöðin verið lítið notuð síðustu ár. Þar sé helst um að kenna borgarbirtunni, sem takmarki getu sjónaukans, og svo torvelduaðgengi að sjónaukanum sjálfum. Sjálfur er Sævar hugfanginn af fegurð himinhvolfsins og nýtir hverja lausa stund til að líta upp til stjarnanna. „Það er fátt meira frelsandi en stutt innlit til stjarnanna, sólanna og tunglanna. Maður kemur ávallt klyfjaður af hamingju úr hverri heimsókn.“

Titill
Sævar Helgi Bragason

Text

Stjörnusjónaukinn á þaki Árnagarðs hefur lítið verið notaður síðustu ár og er þar borgarbirtunni um að kenna.

Image
Image
Sævar Helgi Bragason í stjörnusjónaukastöðinni í Árnagarði