Sundlaugin á Laugarvatni

Laugarvatn hefur löngum þótt vinsæll áningarstaður innlendra og erlendra ferðamanna enda staðurinn rómaður fyrir fegurð og einmuna veðursæld. Töluverður jarðhiti er á Laugarvatni, sem nýttur er til upphitunar húsa, gufubaðs og auðvitað sundlaugarinnar sem Háskóli Íslands á og rekur.

Saga Laugarvatns er um margt merk. Sagan segir að eftir kristnitöku árið þúsund hafi margir verið skírðir í heitri laug við vatnið sem kallast Vígðalaug. Einnig segir frá því að lík Jóns Arasonar biskups og sona hans hafi verið þvegin í lauginni eftir aftöku þeirra árið 1550.

Háskóli Íslands setur mikinn svip á mannlífið á Laugarvatni en þar fer fram kennsla í grunnnámi íþrótta- og heilsufræða, sem heyrir undir Menntavísindasvið. Allt bóklegt nám fer fram í húsnæði Menntavísindasviðs og allt verklegt nám fer fram í þeim íþróttamannvirkjum sem háskólinn á og rekur. Þarna er stórt íþróttahús, glæsileg útiaðstaða með hlaupabraut og auðvitað sundlaugin víðfræga sem byggð var 1992. Hún flokkast sennilega sem óhefðbundið kennslurými en laugin er líka opin almenningi. Til viðbótar henni eru þrír heitir pottar og gufubað.

Háskólasundlaugin á Laugarvatni skipar ríkan sess í skólahaldi stúdenta, hvort sem það tengist náminu, afþreyingu eða menningunni. „Misheitar umræður í heitu pottunum tengja saman þorpsbúa, stúdenta, starfsmenn og fólk á faraldsfæti,“ segir Erlingur Jóhannsson, prófessor við Menntavísindasvið á Laugarvatni. Og hann bætir við: „Sundlaugin og heitu pottarnir eru miðpunktur skemmtunar og fræðslu og hvort tveggja vekur hrifningu hjá ungum sem öldnum.“

Titill
Sundlaugin

Text

„Sundlaugin og heitu pottarnir eru miðpunktur skemmtunar og fræðslu,“ segir Erlingur Jóhannsson, prófessor við Menntavísindasvið á Laugarvatni.

Image
Image
Erlingur Jóhannesson við sundlaugarbakkann á Laugarvatni