25 ára afmæli námsbrautar í ljósmóðurfræði
Á þessu ári fagnar námsbraut í ljósmóðurfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands 25 ára afmæli. Haldið var upp á daginn þann 15. okt í Veröld – húsi Vigdísar.
Formleg kennsla í ljósmóðurfræði hófst hér á landi 1761. Lengi vel var enginn sérstakur skóli til fyrir ljósmæður eða yfirsetukonur eins og starfsheitið var. Árið 1912 tók Yfirsetukvennaskólinn í Reykjavík til starfa í Alþingishúsinu og var námstíminn sex mánuðir. Á þeim ríflega 250 árum sem liðin eru hefur kennsla í ljósmóðurfræði tekið breytingum sem tengjast bæði vaxandi þekkingu í faginu og samfélagslegum breytingum. Ljósmóðurnám við Háskóla Íslands hófst árið 1996, við þáverandi námsbraut í hjúkrunarfræði. Árið 2009 markar ákveðin tímamót en þá var formlega stofnuð námsbraut í ljósmóðurfræði við hjúkrunarfræðideild. Innan hjúkrunarfræðideildar og námsbrautar í ljósmóðurfræði urðu til námsleiðirnar meistaranám í ljósmóðurfræði og doktorsnám í ljósmóðurfræði. Í dag útskrifast allar ljósmæður með meistaragráðu til starfsréttinda.
Ljósmóðurfræði lagt sitt af mörkum til að efla deildina
Ljósmóðurfræði hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu ár. Hún er nú öflug grein innan deildar og sviðs og hefur lagt sitt að mörkum í því að efla rannsóknir í deildinni. Kennarar námsbrautarinnar eru í innlendu og erlendu rannsóknarsamstarfi og hafa fengið styrki úr samkeppnissjóðum sem hafa gert þeim kleyft að laða að doktorsnemendur og stofna til þverfaglegs samstarfs. Góð samvinna er við heilbrigðisstofnanir bæði vegna kennslu og rannsókna. Við námsbraut í ljósmóðurfræði starfa nú tveir prófessorar, dósent, lektorar og aðjúnktar.