Útgefið efni
Ýmislegt hefur verið skrifað um sögu Háskóla Íslands. Hér eru nokkur rit sem stuðst var við þegar efni var tekið saman fyrir þennan vef.
Á 50 ára afmæli háskólans árið 1961 var samið og gefið út ritið Saga Háskóla Íslands: Yfirlit um hálfrar aldar starf. Unnt er að leita að atriðisorðum í þessari skrá. Höfundur þess er Guðni Jónsson prófessor.
Heimildaritið Úr húsnæðis- og byggingarsögu Háskóla Íslands var gefið út í tilefni af 75 ára afmæli Háskóla Íslands árið 1986. Ritið kom út í tveimur bindum. Fyrra bindið kom út árið 1986 og hið síðara árið 1991.
Páll Sigurðsson tók saman.
Stórvirkið Aldarsaga Háskóla Íslands 1911-2011, var gefið út í tilefni af aldarafmæli skólans. Um er að ræða mjög umfangsmikið og vandað rit, tæplega 900 blaðsíður að lengd og skreytt rúmlega 300 myndum af margvíslegu tagi.
Höfundar ritsins eru Guðmundur Hálfdánarson, Sigríður Matthíasdóttir og Magnús Guðmundsson. Ritstjórn þess var í höndum Gunnars Karlssonar.
Í bókinni er sagt frá kennsluháttum og breytingum á þeim, rannsóknum starfsmanna, samskiptum kennara og stúdenta, félagsstarfi og lífsháttum nemenda. Samskipti ríkisvaldsins og háskólans eru rakin frá því að hann var undir stjórn ráðherra uns háskólinn náði að stýra nánast öllu starfi sínu innan ramma laga og samninga við ríkið um fjárveitingar.
Sögunni er skipt í þrjá hluta eftir ríkjandi áherslum á hverjum tíma.
Embættismannaskólinn fjallar um fyrstu hálfa öldina, Grunnmenntunarskólinn um næstu þrjá áratugi, 1961-90, og Rannsóknaháskólinn um tvo síðustu áratugina.
Árbók Háskóla Íslands hefur verið gefin út allt frá stofnun Háskólans.
Í Árbókinni er að finna helstu upplýsingar um starfsemi skólans. Á tímaritavef Landsbókasafnsins, timarit.is, er að finna árbækur HÍ frá upphafi. Unnið er að því að koma árbókum síðustu ára inn í safnið.
Háskóli Íslands 75 ára
Heimildarmynd gerð í tilefni af 75 ára afmæli Háskóla Íslands 1986.
Handrit og stjórn: Magnús Bjarnfreðsson
Kvikmyndataka: Þórarinn Guðnason og Sig. Sverrir Pálsson
Hljóð: Sigfús Guðmundsson og Þorsteinn U. Björnsson
Klipping: Ísidór Hermannsson og Kristín Pálsdóttir
Þulir: Magnús Bjarnfreðsson og Höskuldur Þráinsson
Framleiðandi: Lifandi myndir hf. og Kynningarþjónustan sf. fyrir kynningarnefnd Háskóla Íslands © 1986