Að vera aðgerðarlaus er eitthvað sem enginn ætti að gera
Axel Sölvason hélt nýlega uppá 80 ára afmælið sitt. Hann var starfsmaður Verkfræðideildar Háskóla Íslands í 25 ár og kom meðal annars að brautarsmíði fyrir hina geysivinsælu Hönnunarkeppni verkfræðinema, sem orðin er árviss viðburður. Axel lét af störfum fyrir aldurssakir, fyrir um tíu árum síðan en hann situr ekki auðum höndum því meðal áhugamála hans nú eru gull- og silfursmíði og úrsmíði.
„Ég lærði rafvélavirkjun og var í mörg ár með verkstæði undir eigin nafni með þó nokkra menn í vinnu, allt uppí 18 menn. Svo fannst mér orðið leiðinlegt að standa í þessu og vildi skipta um mark, ef svo má segja, fá mér annað starf. Þá var auglýst laust til umsóknar starf við verkfræðideild HÍ og ég sótti um það og Valdimar Kr. Jónsson og Ragnar Ingimarsson prófessorar, réðu mig í þetta starf, sem ég sinnti síðan í 25 ár. Starfið fólst í því að sjá um öll mælitæki sem verkfræðideildin, sem þá var samansett af rafmagns- véla- og byggingaverkfræði, þurfti á að halda, en hver um sig þurfti mælitæki af ýmsum toga. Ég smíðaði mörg þeirra en keypti önnur, og hélt þeim síðan við. Á tímabili var ég með prófessorunum í verklegri kennslu, sem þá var talsvert meiri en í dag, til að aðstoða þá á ýmsan hátt.”
Hönnunarkeppnin eftirminnileg
„Ég kom að hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema frá upphafi og sá um smíði þrautanna. Prófessorarnir, Valdimar Kr. Jónsson og fleiri, hönnuðu þær og ég fékk teikningar, sem ég smíðaði brautirnar eftir, stundum með aðstoð frá mönnum á trésmiðaverkstæði Háskólans. Í fyrstu voru brautirnar smíðaðar með leynd, en svo breyttist það og keppendur fengu að sjá brautirnar og jafnvel prófa þær. Þetta var oft talsverð smíði. Og nemendur lögðu mikinn metnað í þetta. Það var árlegur viðburður að halda svona hönnunarkeppni, þetta var geysivinsæl keppni og er enn.”
Siglufjörður - New York - Venesúela
„Ég er fæddur á Siglufirði og var í sveit á Mýrum, í Álftaneshreppi, en leist ekki á að verða bóndi. Ég fór í nám í rafvélavirkjun, hjá Halldóri Ólafssyni, sem var með rafmagnsverkstæði á Rauðarárstíg 20.
Ég hafði prufað að vera til sjós og var í 113 daga á Grænlandsmiðum. Eftir að ég lauk námi í rafvélavirkjun, réði ég mig til Eimskips og var rafvirki á Fossunum, Tröllafossi og Goðafossi. Það var góður tími. Það skemmtilega við að vera á Fossunum var, að í þá daga stoppuðu þeir svo lengi í höfn, bæði í Evrópu og í New York. Maður þurfti reyndar að vera viðstaddur losun skipanna, þar sem spilin voru á mína ábyrgð, en á kvöldin og á frívöktum réði maður sér alveg sjálfur og þá fór maður víða og sá margt. Nú stoppa skipin bara í nokkra klukkutíma.”
Ekki til vatn í grautinn
„Svo fór ég á olíuskip, það var sérstakur tími. Þetta var íslenskt olíuskip, Hamrafellið og ég var einn af þeim sem sóttu það til Svíþjóðar. Í fyrstu ferðinni fór stimpill í vélinni og við vorum á reki á Ermasundi í sólarhring á meðan við skiptum um stimpil. Svo komumst við til Bretlands og héldum þaðan til Venesúela, en í þá daga keypti Sambandið olíu þaðan.
Við kunnum lítið á skipið og í ógáti dældu vélstjórarnir öllu neysluvatninu í sjóinn. Þeir skyldu ekkert í því hvaðan allt þetta vatn kom, en það reyndist vera neysluvatnið. Svo við urðum að koma við á Azoreyjum til að taka vatn. Það var ekki lengur til vatn í hafragrautinn, þegar þangað var komið. Svo sigldum við áfram til Venezuela og ég fór nokkrar ferðir þangað.
Þegar ég hætti á sjónum setti ég á stofn rafvélaverkstæði. Ég var lengst af með svona 5-6 menn í vinnu hjá mér. Síðan tók ég við rafmagnsverkstæði Sambandsins, sem þeir ráku til að þjónusta þau heimilistæki sem þeir fluttu inn, Westinghaus og fleiri mikið seld merki. Eftir ákveðinn tíma fannst mér þetta orðið einhæft og óspennandi svo ég réði mig í kjölfarið til Háksólans, þar sem ég var í 25 ár.”
Á þessum 25 árum við Háskóla Íslands kynntist Axel að sjálfsögðu mörgum mætum mönnum, bæði í hópi kennara og nemenda. Eins og gengur og gerist voru sumir eftirminnilegri en aðrir.
Titill
Axel Sölvason
„Námið hefur breyst mikið og mér finnst eins og hér áður fyrr hafi verið miklu meira um verklega kennslu. Þá tóku menn í sundur heilu vélarnar og settu svo saman aftur og komu þeim í gang. Þetta er ekki gert lengur. Ég var svo lánsamur að vera ráðinn til Verkfræðideildarinnar þegar hún var að byrja og ég fékk að taka þátt í uppbyggingu hennar og kaupa inn allt sem til þurfti til að byggja hana upp.”
Bílvelta við Kröflu
„Eftirminnilegastir af kennurunum voru þeir Valdimar Kr. Jónsson og Ragnar Ingimarsson, og svo Júlíus Sólnes, Jónas Elíasson og Þorbjörn Sigurbjörnsson. Kröfluvirkjun var í gangi á þessum tíma og ég fór margar ferðir með þessum mönnum til þess að fylgjast með ýmsu sem þar var að gerast.
Mér er minnistætt þegar við Júlíus Sólnes fórum einu sinni sem oftar að gera einhverjar smámælingar við Kröfluvirkjun, sem þá var í smíðum. Við leigðum okkur Blazer jeppa á Akureyri. Þetta var um vetur og bæði snjór og hálka. Á heimleiðinni var mikil hálka og þegar við komum að kafla á veginum þar sem var blindhæð, beygja og brú, þá missti Júlíus, sem keyrði, bílinn útaf og hann fór á hvolf. Þakið féll saman alveg niðrí sætisbak og þar sem við liggjum þarna fer að renna yfir okkur bensínið. Við áttum erfitt með að komast út, en rúðurnar höfðu brotnað og með því að sparka burt frosinni þúfu, gátum við troðið okkur út um einn hliðargluggann, rennandi blautir af bensíni. Skömmu síðar bar að Rússajeppa, sem var fullur af ungu fólki. Þau tóku okkur uppí og skutlaðu okkur til Akureyrar. Þegar við nálguðumst Akureyri var bensínstybban í bílnum orðin mjög mikil og ég þakkaði guði fyrir að enginn í hópnum reykti.
Ég fór margar ferðir að Kröflu með öllum þessum prófessorum og þessar ferðir voru bæði lærdómsríkar og skemmtilegar. Þeir voru allir drengir góðir og örlaði ekki á hroka eða yfirlæti hjá þeim. Prakkaraskapur var ekki fyrir hendi enda er verkfræðin alvara lífsins og kennsla í henni byggist ekki á gríni. En það var glatt yfir mönnum.”
Verkfræðin reyndist mörgum erfið
„Ég kynntist mörgum nemum ágætlega. Á haustin þegar skólinn byrjaði voru allir gangar fullir af ungu fólki. Þegar kom að miðsvetrarprófum hafði fækkað ansi mikið og þegar voraði voru enn færri eftir. Þetta sagði mér það, að þetta er ekki auðvelt nám. Þarna komu margir prýðilega vel gefnir unglingar, sem náðu samt ekki, hvort sem það hefur verið vegna lélegrar ástundunar eða af öðrum ástæðum. En það er gaman að hafa kynnst svona mörgum og ég hitti þá enn og sumir nemendur, eins og Páll Valdimarsson, enduðu sem prófessorar.”
Á seglskútu í ólgusjó
„Þegar Guðlaugur Þorvaldsson, sem var Háskólarektor, réði mig til starfa við Háskóla Íslands, var ég búinn að taka að mér að sækja 22 feta seglskútu, ásamt tveimur félögum mínum. Við sigldum henni frá til Íslands og vorum 5 vikur á leiðinni. Enginn okkar hafði komið um borð í seglskútu áður svo við kunnum lítið til verka, en ferðin fékk vel. En þegar við komum til Írlands, þar sem við ætluðum í höfn, þá sáum við vita. Veðrið var svolítið vont og við sáum fólk hlaupandi um á ströndinni, veifandi höndum. Þá áttuðum við okkur á því að þetta var ekki viti. Við reyndum að snúa við og settum í gang hjálparvél, til að við gætum siglt á móti vindi, en hún hafði ekki við, á móti vindinum, til að byrja með. Ég var tilbúinn til að skera á reimarnar á dýnamónum, en hann tók töluverða orku til sín, þegar við komumst út úr þessu. Það höfðu margir sjófarendur lent í álíka erfiðleikum á þessum slóðum og margir strandað þarna.
Eftir að ég kom úr þessari ferð byrjaði ég hér við Háskóla Íslands. Námið hefur breyst mikið og mér finnst eins og hér áður fyrr hafi verið miklu meira um verklega kennslu. Þá tóku menn í sundur heilu vélarnar og settu svo saman aftur og komu þeim í gang. Þetta er ekki gert lengur. Ég var svo lánsamur að vera ráðinn til Verkfræðideildarinnar þegar hún var að byrja og ég fékk að taka þátt í uppbyggingu hennar og kaupa inn allt sem til þurfti til að byggja hana upp.”
Dundar sér við úrsmíði í ellinni
Axel hefur fengist við ýmislegt í gegn um tíðina. Hann var til dæmis mikill flugáhugamaður, lærði flug og hefur smíðað flugvél, en var líka mikið í svifflugi. Hann keppti í skotfimi á tímabili og var kominn með alþjóleg dómararéttindi. Eftir að Axel hætti að vinna lærði hann gullsmíði en sneri sér svo að enn fínlegri iðju, nefnilega úrsmíði.
„Fyrir stuttu síðan hafði Páll Sigurðsson, verkfræðingur, samband við mig og bað mig að líta á forláta upptrekktan grammafón, His Masters Voice frá 1925, sem var í miklu uppáhaldi hjá honum. Mér tókst að smíða í hann nýja fjöður og koma honum í gang og Páll var mjög þakklátur.
Eftir að ég hætti í háskólanum fór ég að læra gull- og silfursmíði en sneri mér síðan að úrsmíði og er í henni ennþá. Ég keypti slatta af gömlum úrum á E-bay og hef verið að dunda mér við að taka þau í sundur og setja saman aftur undanfarið. Ég er búinn að koma um 30 úrum í gang af þessum sem ég keypti, en það verður enginn óbarinn biskup í þessu, frekar en öðru. Það er gaman að glíma við þetta og þetta eru forláta smíðisgripir. Mér var gefið eitt úr sem var mjög illa farið, glerið og skífan brotin og ekki hægt að sjá hvaða tegund það var. Þegar ég var búinn að taka það í sundur kom í ljóð að þetta var Rolex úr. Ég vissi hver átti þetta úr og hvenær hann hafði fengið það. Það var meira en 80 ára gamalt. Ég eyddi mörgum klukkustundum í að gera við það, en það gengur silkimjúkt í dag. Þetta er skemmtileg ögrun og ég lít á þetta sem tómstundastarf og tek ekki að mér úraviðgerðir fyrir aðra,” segir þessi liðlega áttræði þúsundþjalasmiður, sem ætti að vera mörgum kennurum og nemendum verkfræðideildar Háskóla Íslands í fersku minni, og bætir við „að vera aðgerðarlaus er eitthvað sem enginn ætti að gera.”
Greinarhöfundur: Sigurður Snæberg, nemandi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.