Header Paragraph

Bara það besta og ekkert minna

Image
Brynhildur Brynjólfsdóttir, Bimma í baðherberginu í kjallaraíbúð Aðalbyggingarinnar. Hún valdi sjálf flísarnar.

Brynhildur Brynjólfsdóttir er ein fárra Íslendinga sem hefur átt lögheimili í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Hún bjó í íbúðinni sem var í suðurkjallara byggingarinnar í ellefu ár ásamt fjölskyldu sinni, fyrst hjá foreldrum og síðar með eiginmanni. Bimma, eins og Brynhildur er alltaf kölluð, starfaði í háskólanum um árabil og sá um að tölvuvæða nemendaskrá á sínum tíma. „Velkomin heim,“ segir starfsfólk skólans við Bimmu þegar hún sést á göngum Aðalbyggingarinnar.

Íbúi Aðalbyggingar HÍ

„Ég kom fyrst í íbúðina í júlí 1958. Lyktin þar var svo sérstök. Hún var ekki vond en ég finn hana enn. Mér fannst það óbærileg tilhugsun að flytjast inn í Aðalbygginguna,“ rifjar Bimma upp. Íbúðin tók stakkaskiptum eftir að Hótel Saga var byggð handan götunnar á árunum 1956-1962. Þá birti skyndilega til í íbúðinni því að birtan endurkastaðist af hvítum veggjum hótelsins. Fjölskylda Bimmu flutti í íbúðina þegar faðir hennar, Brynjólfur Kjartansson, var skipaður húsvörður skólans. Brynjólfur gegndi starfi húsvarðar í þrjú ár en þá tók eiginkona hans og móðir Bimmu, Elísabet Jónsdóttir, við starfinu og gegndi því í 27 ár. Íbúðin var þá um 130 fermetrar en er í dag nýtt undir fundaraðstöðu og skrifstofur.

Titill
Bimma og Garðar

Text

Bimma og eiginmaður hennar, Garðar Valdimarsson, giftu sig 5. nóvember 1966 og hófu búskap í íbúðinni í Aðalbyggingunni og þar fæddust fyrstu tvö börn þeirra hjóna.

Image
Image
Gifting Bimmu og Garðars í kapellu Aðalbyggingar 5. nóvember 1966

„Þetta var eins og járnbrautarstöð eftir að við fluttum hingað. Það var mikill gestagangur og kaffi á boðstólum allan daginn. Pabbi þekkti alla í háskólanum og svo kom okkar fólk líka í heimsókn. Þetta var rosalega skemmtilegt en stundum erfitt.“

Bimma segir að álit annarra á híbýlum fjölskyldunnar hafi gert það að verkum að hún fór að njóta þess enn meira að búa undir þaki Aðalbyggingarinnar. Hún nefnir að valinkunnir fótboltaunnendur hafi oft kíkt í heimsókn, því að Melavöllurinn var handan Suðurgötunnar. „Melavöllurinn var völlurinn með stórum staf á þessum tíma.“

Bimma segir að starf húsvarðar háskólans, sem foreldrar hennar gegndu, hafi verið krefjandi. Það þurfti að loka öllum byggingum háskólasvæðisins á kvöldin klukkan tíu og opna þær aftur á milli hálfsjö og sjö á morgnana. Einnig réð húsvörður ræstingafólk, pantaði ýmsar vörur til viðhalds og sá um bókhald.

Titill
Úti á túni

Text

Bimma slakar á með fjölskyldunni í sumarblíðu á grasbletti fyrir aftan Aðalbygginguna.

Image
Image
Bimma slakar á með fjölskyldunni í sumarblíðu á grasbletti fyrir aftan Aðalbygginguna.

„Ef mamma hefði ekki verið svona helvíti klár hefði þetta ekki gengið,“ segir Bimma en móðir hennar tók við starfinu eftir fráfall eiginmanns síns. Bimma var þrettán ára þegar fjölskyldan flutti í háskólann og hjálpaði oft til við ýmis verk.

Bimma segir tíðarandann hafa verið öðruvísi í þá daga. „Pabbi sagði að þær konur sem færu í Verzlunarskólann þyrftu ekki að gifta sig, þær gætu séð fyrir sér. Þetta hugnaðist mér ágætlega og ég gerði eins og pabbi sagði og byrjaði í skólanum. Ég var þar í sex ár og kynntist manninum mínum í 6. bekk. Við erum búin að vera saman í 44 ár í dag.“

Bimma og eiginmaður hennar giftu sig 5. nóvember 1966 og hófu búskap í íbúðinni í Aðalbyggingunni og þar fæddust fyrstu tvö börn þeirra hjóna. „Síðar gifti ég mig hérna uppi í kapellunni, það var mjög sérstakt. Séra Sigurður Haukur Guðjónsson gaf okkur saman. Veislan var í kaffistofu stúdenta í suðurenda hússins.“

Titill
Með barnavagninn

Text

Bimma í trjágöngunum sem liggja frá Hringbraut í átt að Aðalbyggingu, framhjá Þjóðminjasafninu.

Image
Image
Bimma í trjágöngunum sem liggja frá Hringbraut í átt að Aðalbyggingu, framhjá Þjóðminjasafninu.

Þrátt fyrir að Bimma hafi verið viðloðandi Háskóla Íslands stóran hluta lífs síns hefur hún aldrei lokið gráðu frá skólanum.

„Ég á mér greinilega ákveðin forlög og það er að fara ekki í nám í Háskóla Íslands. Þegar ég byrjaði í lögfræði eftir að ég átti fyrsta barnið var ég í kennslustofu hérna í Aðalbyggingu í tímum og ég heyrði í barninu niðri í íbúð því að íbúðin er undir kennslustofunni. Ég gat þetta ekki og hætti.“

Eiginmaður Brynhildar er lögfræðingur og endurskoðandi en í þá daga stóð valið á milli þess hvort foreldrið ætlaði í nám. „Síðasta haust ákvað ég síðan að prófa að nema á ný og varð danska fyrir valinu. Ég þurfti þó frá að hverfa vegna anna heima fyrir.“

Titill
Dóttirin

Text

Dóttir Bimmu við innang íbúðar fjölskyldunnar á bak við Aðalbygginguna

Image
Image
Dóttir Bimmu við innang íbúðar fjölskyldunnar á bak við Aðalbygginguna

Lærði til mannþekkjara

Eftir nám í Verzló, fæðingu tveggja barna og námslok eiginmannsins á Íslandi og í Danmörku hóf Bimma fullt starf á nemendaskrá háskólans. Hún var í fyrstu beðin um að vinna í sex vikur en endaði á því að vinna þar í 32 ár. Bimma kynntist nokkur þúsund nemendum ásamt starfsliði skólans á þessum tíma. Hún neitar því ekki að starfið hafi kennt henni að vera mikill mannþekkjari.

„Jú, maður lærir. Rétt eins og bændur læra að þekkja fé sitt langt að á útlitinu. Hægt og rólega lærir maður á fólkið og stúdentana. Ég gerði mér tiltölulega snemma grein fyrir því að fólkið sem færi hér í gegn kæmi til með að stýra þjóðfélaginu seinna.“ Hún segist hafa orðið á vegi ófárra sérvitringa í nemendahópum sem áttu eftir að verða þekktir og láta til sín taka í íslensku samfélagi í seinni tíð.

Að sögn Bimmu hefur fólk ætíð tekist mikið á innan háskólans, sérstaklega á milli faga og deilda. Hún nefnir dæmi um aðila sem telja greinar annarra ekki jafn mikilvægar og sínar eigin. Einnig hafi fyrirfundist smákóngar í einhverjum hornum, sem gerðu það að verkum að samskipti og stjórnsýslan var flóknari en hún þurfti endilega að vera. „Það hefur alltaf skort í háskólanum og í öllu hans starfi að fólk innan hans kunni að setja sig í spor annarra.“

Titill
Eiginmaðurinn

Text

Eiginmaður Bimmu, Garðar Valdimarsson. Íþróttahús HÍ í baksýn og lóðin sem Háskólatorg stendur á í dag.

Image
Image
Eiginmaður Bimmu, Garðar Valdimarsson. Íþróttahús HÍ í baksýn og lóðin sem Háskólatorg stendur á í dag.

Háskóli Íslands þá og nú

Bimma segir að á síðustu öld hafi rektorar háskólans gegnt stóru hlutverki í því að taka á móti þjóðhöfðingjum og erlendum fyrirmennum. Hún rifjar sérstaklega upp NATO-fundinn árið 1968 sem haldinn var á heimili hennar, Aðalbyggingunni.

„Það ætlaði allt um koll að keyra. Ég held að allir lögregluþjónar landsins hafi verið kallaðir til. Þetta var ægilega gaman. Orðabók Háskólans var innsigluð til þess að enginn NATO-maður kæmist í hana.“

Bimma lumar á fleiri sögum um heimsóknir fyrirmenna í skólann. Hún minnist heimsóknar Bandaríkjaforsetans Lyndons B. Johnson og eiginkonu hans, Lady Bird sem og heimsóknar Kofi Annan, aðalritara Sameinuðu þjóðanna.

Á síðari áratugum 20. aldar jókst nemendafjöldi í háskólanum jafnt og þétt. „Álagið í starfinu jókst stöðugt. Yfirstjórn HÍ gat aldrei horfst í augu við það að fjölgunin var stöðug og viðurkennt að það væri of mikið álag á vissum starfsmönnum. Þjónustugeira sem þennan þarf að rækta. Ég kom hingað inn í september 1976 og fór aldrei aftur. Það var alltaf verið að bíða eftir því að fjölgunin yrði eðlileg á ný. Nemendafjöldi hefur aldrei dottið niður, nemendum fækkaði í hálft ár, 1987, en svo jafnaðist fjöldinn og fjölgunin hélt áfram jafnt og þétt.“

Titill
Samstarfsfólkið

Text

Bimma ásamt samstarfsfólki sínu hjá Nemendaskrá rétt eftir síðustu aldamót.

Image
Image
Bimma ásamt samstarfsfólki sínu hjá Nemendaskrá rétt eftir síðustu aldamót.

Árið 1976 var ákveðið að nemendaskrá HÍ yrði tölvuvædd. Bimma spurði þáverandi rektor, Guðlaug Þorvaldsson, hver ætti að sjá um það. Sá svaraði um hæl: „Vilt þú ekki bara gera það?“ Það varð úr; Bimma gegndi lykilhlutverki í að nútímavæða skráningu nemenda við skólann. Hún neitar því ekki að verkefnið hafi tekið á og ekki alltaf verið einfalt. Bimma hafði snemma sterka sýn á það hvernig rafrænt kerfi myndi stuðla að jákvæðum breytingum en hún öðlaðist mikla reynslu og sterka skoðun á málaflokknum þegar hún bjó í Danmörku.

Viðhorf fólks tóku breytingum innan háskólans á síðustu áratugum 20. aldar. Sem dæmi mætti nefna viðhorf til jafnréttismála.

„Jafnrétti var náttúrulega bara á einn veg hérna. Þegar ég byrjaði voru allir prófessorar karlkyns,“ segir Bimma. Hún útskýrir að þegar konur voru smám saman ráðnar í prófessorsstöður hafi þær átt erfitt uppdráttar vegna kyns. Karlkyns starfsmenn voru frekar á hærri launum en konurnar og nutu ýmissa styrkja. „Það var gamla sagan, þú þarft ekki bílastyrk af því að þú ert kona,“ rifjar hún upp. Bimma telur að jafnrétti hafi aukist innan veggja háskólans eftir því sem árin liðu.

Titill
Viðurkenning

Text

Bimma hlaut viðurkenningu á háskólahátíð í Háskólabíói 26. október 2002 fyrir lofsverðan árangur í starfi.

Image
Image
Bimma hlaut viðurkenningu á háskólahátíð í Háskólabíói 26. október 2002 fyrir lofsverðan árangur í starfi.

Stúdentar eru mitt fólk

Á árum sínum í starfsliði nemendaskrár breytti Bimma sérstaklega tveimur hlutum. Annars vegar kom hún því til leiðar að stúdentar skrifuðu ekki lengur á óvandaðan pappír við skráningu og hins vegar afnam hún þá reglu að stúdentar ættu að skrifa nafn og starfsheiti foreldra við innritun. Hún segir að það hafi ekki farið saman við jafnréttissjónarmið að dæma nýinnritaða nema út frá stöðu foreldra sinna.

„Ég hafði lært í Verzló að það væri ekkert sem skipti litlu máli. Maður ætti alltaf að fylgjast með og gera kröfur um það ítrasta og besta. Þannig var ég alin upp. Sumir sögðu að þetta skipti engu af því að við værum bara ríkisstofnun. Mér fannst það aldrei skipta neinu máli hvort við værum ríkisstofnun eða eitthvað annað. Ég krafðist þess besta og aldrei minna.“

Hún segir hreint út að stúdentar í skólanum hafi ætíð verið sitt fólk. „Það er kannski ástæða þess að ég mætti svona miklu andstreymi hérna,“ segir Bimma og bætir við að það hljómi eins og þversögn að ekki hafi alltaf verið tekið nægilegt tillit til nema í háskóla.

„Stúdentar og þeir sem fóru með valdið voru sjaldnast sammála.“ Bimma telur að viðhorf til stúdenta innan skólans hafi batnað og breyst með árunum.

Bimma sleit áratuga tengsl við háskólann þegar hún hætti námi í dönsku síðasta haust. Hún starfaði á nemendaskrá til ársins 2009 en neyddist til að hætta störfum sökum andlegs og líkamlegs álags sem fylgdi starfinu. Bimma segist ekki sakna mikils úr háskólanum því að hún geti jú alltaf komið þangað aftur. Þó saknar hún stelpnanna á nemendaskrá og fólksins. Hún segist vera gagnrýnin kona og alls ekki þæg í starfi. Þrátt fyrir það er lærdómurinn, sem hún hlaut innan veggja háskólans dýrmætur. „Maður lærði nú ýmislegt líka. Ef lærdómur minn úr háskólanum væri settur saman í einn pakka væri hægt að setja slaufu á hann.“