Björn Sigurðsson: Fyrsti íslenski veirufræðingurinn
Björn Sigurðsson var fæddur á Veðramóti í Skagafirði 3. mars 1913. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1932, hóf síðan nám í læknisfræði við Háskóla Íslands og lauk kandídatsprófi vorið 1937. Á háskólaárum sínum tók Björn virkan þátt í félagslífi stúdenta og varð formaður stúdentaráðs 1935.
Að loknu kandídatsprófi fór Björn til náms og rannsókna við Carlsbergfondets Biologiske Institut í Kaupmannahöfn en árið 1941 lá leiðin til Bandaríkjanna þar sem hann vann næstu tvö árin á Rockefeller Institute for Medical Research í Princeton, einkum við rannsóknir á veirum.
Árið 1943 sneri Björn aftur til Íslands og hóf störf á Rannsóknastofu Háskólans. Á þessum tíma geisuðu hér á landi skæðir sauðfjársjúkdómar sem höfðu borist hingað með innfluttu fé. Þetta voru garnaveiki, votamæði, mæði og visna, sem var áður óþekktur miðtaugakerfissjúkdómur. Vegna rannsókna á þessum sjúkdómum var ákveðið að reisa sérstaka tilraunastöð og var Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum stofnuð í því skyni. Björn var skipaður forstöðumaður í ársbyrjun 1946 og Tilraunastöðin formlega opnuð í ársbyrjun 1948.
Strax við komuna til Íslands árið 1943 hóf Björn rannsóknir á garnaveiki og þróaði bóluefni sem reyndist mjög öflugt við að halda veikinni í skefjum. Árið 1955 hlaut Björn doktorsnafnbót frá læknadeild Kaupmannahafnarháskóla fyrir ritgerð sína um þessar rannsóknir.
Auk rannsókna sinna á garnaveiki gerði Björn grundvallarrannsóknir á mæði og visnu í sauðfé. Hann gerði sér fljótt grein fyrir hinu sérstaka sýkingarferli sem einkenndi þessa smitsjúkdóma og aðgreindi þá bæði frá bráðum smitsjúkdómum og krónískum. Hann nefndi þá hæggenga smitsjúkdóma. Kenning Björns um hæggenga smitsjúkdóma vakti mikla athygli lækna um allan heim og hefur haldið nafni hans á lofti allt fram á þennan dag. Þekktir smitsjúkdómar í mönnum sem flokkast sem hæggengir eru til dæmis alnæmi og Creutzfeld Jakob sjúkdómur.
Titill
Björn Sigurðsson
Björn Sigurðsson var fyrsti íslenski veirufræðingurinn. Sem forstöðumaður á Keldum vann hann náið með íslenskum heilbrigðisyfirvöldum við rannsóknir og greiningu á veirusýkingum sem hér komu upp, einkum inflúensu- og mænusóttarfaröldrum og skyldum sýkingum, og fylgdist með árangri mænusóttarbólusetningar sem hófst hér árið 1956.
Björn Sigurðsson var fyrsti íslenski veirufræðingurinn. Sem forstöðumaður á Keldum vann hann náið með íslenskum heilbrigðisyfirvöldum við rannsóknir og greiningu á veirusýkingum sem hér komu upp, einkum inflúensu- og mænusóttarfaröldrum og skyldum sýkingum, og fylgdist með árangri mænusóttarbólusetningar sem hófst hér árið 1956. Akureyrarveikin gekk sem faraldur á Akureyri og víðar haustið 1948 og olli lömunum og langvinnri síþreytu. Björn sýndi fram á að veikin var óskyld mænusótt og áleit að hér væri um nýjan áður óþekktan veirusjúkdóm að ræða.
Eins og ljóst er af þessu ágripi vann Björn ótrúlega mikið starf við rannsóknir á sviði meinafræði, bakteríufræði, veirufræði, ónæmisfræði og faraldsfræði. Allar voru rannsóknir hans í háum gæðaflokki á alþjóðlegan mælikvarða. Enn er þó ótalið framlag hans til eflingar rannsókna í raunvísindum á Íslandi. Hann var skipaður í Rannsóknaráð ríkisins árið 1943 og varð formaður 1954. Þar barðist hann fyrir bættri aðstöðu rannsóknarstarfsemi í landinu, einkum á sviði atvinnulífsins. Hann átti stóran þátt í stofnun Vísindasjóðs árið 1957 sem allt fram á þennan dag hefur verið lyftistöng íslenskra vísindarannsókna.
Sem vísindamaður hafði Björn mikinn eigin metnað en mestur var þó metnaður hans fyrir hönd íslenskra raunvísinda. Þau voru honum efst í huga allt til hinstu stundar.
Björn lést í Reykjavík 16. október 1959, 46 ára að aldri.