Endurlit: Valnámskeiðið Eðlisfræði lofthjúps jarðar
Þór Jakobsson, veðurfræðingur og fyrrum aðjúnkt í eðlisfræðiskor Háskóla Íslands tók á dögunum saman lista yfir nemendur og ritgerðir þeirra í valnámskeiði í eðlisfræðiskor Háskóla Íslands, Eðlisfræði lofthjúps jarðar, til gamans og fróðleiks í tilefni af 100 ára afmæli skólans. Þór var tekinn tali á afmælisvef skólans.
Reyndi að spila inn á áhuga nemenda
„Aðalstarfsvettvangur minn var á Veðurstofu Íslands en ég var svo lánsamur að hafa fengið tækifæri til að taka að mér námskeiðið og vera þannig í kynnum við fróðleiksfús ungmenni með áhuga á náttúruvísindum. Um þessar mundir var ekki um auðugan garð að gresja í Háskólanum varðandi fræðslu um eðlisfræðilega veðurfræði og lofthjúp jarðar, svo að námskeiðið var að því leyti þarflegt,“ segir Þór og bætir við að nemendurnir hafi verið í fámennri eðlisfræðiskor sem sjálfir völdu námskeiðið.
„Námskeiðið var auðvitað opið öðrum áhugasömum nemendum í náttúruvísindum með tilskilinn bakgrunn. Það er áhuginn sem ber nemendur hálfa leið, námsgáfur og iðni eiga svo hinn helminginn og fleyta mönnum á leiðarenda. Þegar inn var komið á námskeiðið „spilaði“ ég áfram á áhuga nemenda með þeim hætti að nemanda var gert að velja sérefni snemma á námskeiðinu, flytja erindi, eins konar áfangaskýrslu tvisvar á misserinu og skila að lokum ritgerð sem gilti vel yfir helming af einkunn“.
Titill
Þór Jakobsson
Þór Jakobsson, veðurfræðingur og fyrrum aðjúnkt í eðlisfræðiskor Háskóla Íslands tók á dögunum saman lista yfir nemendur og ritgerðir þeirra í valnámskeiði í eðlisfræðiskor Háskóla Íslands, Eðlisfræði lofthjúps jarðar, til gamans og fróðleiks í tilefni af 100 ára afmæli skólans.
Stungið upp á tug sérsviða innan lofthjúpsfræða
„Mest um vert var að sérefnið var valið af sjálfum nemandanum í samráði við kennara, sem hafði í byrjun misseris stungið upp á um tug sérsviða innan lofthjúpsfræða. Af nógu var að taka. Ég hvatti nemendur til að velja eitthvað sem þá þegar hafði skírskotað til þeirra, þeir kannski verið forvitnir um eða gefið sig að síðustu árin,“ segir Þór og bætir við að hann hafi ímyndað sér að þessi nálgun hafi verið grundvöllur að því sem honum hafi sjálfum þótt eftirminnilegast þegar hann hugsar til baka.
„Það var sjálfstæði þeirra, bakgrunnur og þroski við að semja dálitla yfirlitsritgerð um skemmtilegt vísindalegt verkefni. Dugnaður þeirra og árangur lofaði góðu á braut þeirra til að verða sjálfstæðir vísindamenn og kennarar,“ segir hann, en tekur fram að hann hafi gert sér grein fyrir því að námskeiðið hafi verið smápartur af námi nemendanna. „Ég á sem sagt ekki svo mikið í þeim en mér finnst alltaf gaman að frétta af hverjum og einum. Þetta var lítill hópur hverju sinni sem kynntist því vel.
Nú þegar aldurinn færist yfir mig hugsa ég æ hlýlegra til þeirra allra og óska þeim góðs gengis hvar sem þau eru. Sum urðu starfssystkin mín og þau þekki ég auðvitað mætavel, marga hitti ég öðru hverju á mannfundum eða á förnum vegi, en um sum veit ég ekkert. Þegar ég renni augum yfir listann virðist mér í fljótu bragði ég þekkja til um það bil tveggja þriðju hluta hópsins og fást þeir allir við náttúruvísindi, tölvutækni og önnur raungreinafræði. Nema einn efnilegur vísindamaður sem lenti í því að verða fjármálaráðherra,“ segir Þór.
Nemendurnir teknir við af eldri kynslóð fræðimanna
„Ég hef stundum sagt að vel helmingur af öllum fréttum hér á Íslandi væru fréttir af veðri, veðurfari, veðurfarsbreytingum – og rauninni fréttum af ýmsu tengt náttúrunni á einn eða annan hátt. Þarna verða einmitt „mínir“ nemendur iðulega fyrir svörum núna, teknir við af eldri kynslóð fræðimanna. Mér finnst fréttamenn hér á landi temja sér rétt vinnubrögð, hafa náið samband við innlenda sérfræðinga, notfæra sér t.d. álit færustu manna á fréttum að utan. Þetta á líka við um umræður um mengun og orkumál,“ segir Þór en bætir þó við að velta mætti fyrir sér hvort að náttúruvísindamenn mættu vera dulegri við að láta í sér heyra af fyrra bragði. „Þetta er yfirleitt hógvær manntegund á kafi í sinni sérgrein. En þeir mættu sem sagt rækta kennaraeðlið í sér sem allir hafa í meira eða minna mæli,“ segir hann.
Aldarafmæli Háskóla Íslands
„Fyrsta öld Háskóla Íslands lofar góðu. Þegar ég byrjaði háskólanám í náttúruvísindum fyrir rúmlega hálfri öld þurfti ég að fara til útlanda strax eftir stúdentspróf af því að hér í Háskólanum var ekkert á boðstólum af því tagi. Nú er ekki því að heilsa. Það er hægt að velja. Metnaður studdur stillingu og gætni mun efla Háskólann, rannsóknir og kennslu, og halda áfram að búa nemendur sína undir lífið,“ segir Þór að lokum.