Frumkvöðull kvenna í læknastétt
Félag kvenna í læknastétt opnaði sýningu um Kristínu Ólafsdóttur lækni í Þjóðarbókhlöðu þriðjudaginn 22. febrúar en félagið gaf Háskóla Íslands nýlega málverk af Kristínu sem er á meðal sýningarmuna.
„Ég vil fyrir hönd Háskóla Íslands þakka þann hlýhug sem skólanum er sýndur á aldarafmæli og þakka Félagi kvenna í læknastétt sem og Læknafélagi Íslands, Læknafélagi Reykjavíkur og Félagi áhugamanna um sögu læknisfræðinnar fyrir þá rausnarlegu gjöf sem skólanum er hér færð,“ sagði Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, þegar hún tók í gær við málverki af Kristínu Ólafsdóttur, fyrstu konunni sem lauk námi við Háskóla Íslands. Það var Lilja Sigrún Jónsdóttir, formaður Félags kvenna í læknastétt, sem afhenti Kristínu Ingólfsdóttur gjöfina í tilefni af aldarafmæli Háskólans.
„Málverkið af Kristínu Ólafsdóttur, eftir Guðmund Karl Ásbjörnsson, á ekki bara eftir að gleðja augu okkar heldur jafnframt minna okkur á frumkvöðul og afrekskonu fæddri í lok 19. aldar og gríðarlega mikilvægt framlag hennar til samfélagsins. Myndinni verður komið fyrir á fyrst hæð Aðalbyggingar Háskóla Íslands,“ sagði Kristín í ávarpi sínu.
Kristín Ólafsdóttir - stutt æviágrip
Kristín Ólafsdóttir fæddist á Lundi í Lundarreykjadal 21. nóvember 1889. Hún lauk stúdentsprófi utan skóla vorið 1911. Hún var eina stúlkan í þeim stúdentsárgangi og þriðja konan sem lauk stúdentsprófi á Íslandi. Kristín hóf nám við nýstofnaðan Háskóla Íslands haustið 1911 og var hún fyrsta konan sem stundaði nám við skólann og lauk embættisprófi í læknisfræði fyrst kvenna á Íslandi árið 1917. Hún var jafnframt fyrsta konan til að ljúka prófi frá Háskóla Íslands.
Kristín stundaði framhaldsnám í Danmörku og Noregi, ásamt eiginmanni sínum, Vilmundi Jónssyni, síðar landlækni, og stundaði síðan læknisstörf á Ísafirði og síðar í Reykjavík, allt fram á efri ár.
Auk læknisstarfa, auðnaðist Kristínu að leggja af mörkum svo um munaði til heilbrigðismála almennt, til fræðslumála og til félagsmála, auk þess sem hún stundaði ritstörf af kappi en hún lést í Reykjavík árið 1971.
Kristín Ólafsdóttir er fyrsta konan til að hljóta styrk til náms við Háskóla Íslands. Háskólasjóður Hins íslenska kvenfélags var afhentur Háskóla Íslands árið 1916 og nam hann þá rúmum 4 þúsund krónum. Honum var ætlað að styrkja efnilega kvenstúdenta til náms við Háskóla Íslands samkvæmt skipulagsskrá. Fyrstu styrkir sjóðsins voru veittir árið 1917 til tveggja læknanema við Háskólann, Kristínar Ólafsdóttur og Katrínar Thoroddsen, og fengu þær hvor um sig 45 krónur.