Fyrirlestrarröðin Lýðheilsa fyrr og nú gekk framar vonum
Fyrirlestrarröðinni Lýðheilsa – fyrr og nú á vegum Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnsins í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands er nú nýlokið. Unnur A. Valdimarsdóttir, dósent í faraldsfræði og forstöðumaður Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum var tekin tali á afmælisvef skólans.
Fullt út úr dyrum á fyrirlestrum um lýðheilsu
Unnur tekur fram að fyrirlestraröðin hafi gengið mjög vel og verið sótt af fræðasamfélaginu, nemendum og almenningi og að það hafi verið nánast fullt út úr dyrum á hverjum fyrirlestri. „Í fyrirlestrunum höfum við farið yfir rannsóknarstarf Krabbameinsfélags Íslands og Hjartaverndar, fjallað um velferð barna sem og viðhorf og aðgengi Íslendinga að heilbrigðisþjónustu í sögulegu samhengi. Við höfum einnig horft til þróunar mataræðis Íslendinga, framlags Íslands til þróunaraðstoðar, framlags faraldsfræðinnar til þekkingarsköpunar í heilbrigðisvísindum og áhrifa náttúruhamfara og efnahagskreppunnar á heilsufar Íslendinga,“ segir Unnur.
Aðspurð um hvaða erindi hafi staðið upp úr að hennar mati, segir hún það erfitt að velja eitthvað einstakt umfjöllunarefni út. „En líklega stendur uppúr fyrirlestur Ken Rothman, prófessors við Boston háskóla og mikils metins læriföðurs í faraldsfræði, hinn 31. ágúst í tilefni að fyrstu doktorsvörninni í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands,“ segir hún.
Titill
Unnur Anna Valdimarsdóttir
„Í fyrirlestrunum höfum við farið yfir rannsóknarstarf Krabbameinsfélags Íslands og Hjartaverndar, fjallað um velferð barna sem og viðhorf og aðgengi Íslendinga að heilbrigðisþjónustu í sögulegu samhengi. Við höfum einnig horft til þróunar mataræðis Íslendinga, framlags Íslands til þróunaraðstoðar, framlags faraldsfræðinnar til þekkingarsköpunar í heilbrigðisvísindum og áhrifa náttúruhamfara og efnahagskreppunnar á heilsufar Íslendinga.“
Viðfangsefni lýðheilsuvísinda ótæmandi
„Viðfangsefnið er vissulega ótæmandi og mikilvægt að beina sjónum að fortíðinni þegar við leitumst við að leysa vandamál nútímans. Að við lærum að reynslunni. Hér opinberast mikilvægi vandaðrar vísindalegrar nálgunnar í þeim sögulegu gögnum sem við eigum um þróun lýðheilsu á Íslandi,“ segir Unnur og tekur það fram að rannsóknir nemenda og kennara í lýðheilsuvísindum snúi einmitt margar að þeim málefnum sem voru til umræðu í fyrirlestraröðinni, t.d. um áhrif mismunandi áfalla á heilsufar. „Hér hefur Ísland þónokkra sérstöðu, bæði vegna sífellu náttúruhamfara, efnahagshamfara síðustu ára en einnig vegna þess að við höfum aðgengi að gagnagrunnum og þjóð sem vill taka þátt í rannsóknum – taka þátt í því að byggja upp þekkingu á þessu sviði,“ segir hún.
Áhrifavaldar á heilsu, aðgengi að þjónustu og margt fleira
Miðstöð í lýðheilsuvísindum var stofnuð í febrúar 2007. Miðstöðin hefur tvíþætt hlutverk, annarsvegar er hún rannsóknarstofnun HÍ í sviðum lýðheilsu og hinsvegar erum við í samvinnu við deildir skólans umsjónaraðilar að meistara og doktorsnámi í lýðheilsu. „Við Miðstöðina vinna og starfa um 15 manns við rannsóknir og kennslu, þar af 3-4 kennarar, 1 verkefnastjóri og um 10 doktorsnemar. Virkir nemendur eru ca. 100, þar af 20 diplómanemar, 60 meistaranemar og 20 doktorsnemar,“ segir Unnur og tekur fram að námið hafi verið afar vinsælt frá upphafi.
„Við erum með lifandi og fjölbreyttan nemenda- og kennarahóp og skipuleggjum námið og rannsóknir okkar í virkri samvinnu við bestu stofnanir heims á þessu sviði. Eins og áður sagði eru rannsóknarefnin fjölbreytt, allt frá því að skoða áhrif loftgæða á heilsufar Reykvíkinga, aðgengi að heilbrigðisþjónustu og geðlyfjanotkun barna á Íslandi, í að skoða áhrif áfalla, svefns og fæðuvenja á tíðni krabbameins og annarra langvinnra sjúkdóma,“ segir Unnur sem að lokum við þakka aðstandendum og áhorfendum fyrirlestrarraðarinnar vel fyrir þátttökuna.