Guðfræðingar þurfa að vera á tánum
Doktor Arnfríður Guðmundsdóttir er prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hún er einnig prestur, stjórnlagaráðsmaður, rithöfundur, formaður í nýstofnuðu félagi prestsvígðra kvenna og móðir.
Á síðasta ári komu tvær bækur út eftir hana. Salka gaf út bókina Út í birtuna eftir Arnfríði og listakonuna Æju (Þóreyju Magnúsdóttur) og Oxford University Press gaf út bók hennar, Meeting God on the Cross, sem hún kennir í fyrsta skipti í námskeiði á yfirstandandi önn. Báðar þessar bækur er að finna á skrifstofu hennar á 4. hæð Aðalbyggingar en veggirnir eru nánast þaktir bókum.
Arnfríður hefur greinilega í nógu að snúast. „Ég viðurkenni að stundum væri gott að hafa fleiri klukkutíma í sólarhringnum. En það skiptir öllu að hafa skilning heima hjá sér, eins og er í mínu tilfelli. Ég nýt þess vel sem ég er að fást við og er á óskastað í lífinu. Ein ástæða fyrir því er að fá að vinna í fjölbreyttum verkefnum; sinna kennslu, rannsóknavinnu, stjórnun og vera með annan fótinn innan kirkjunnar. Ég reyni að njóta staðarins sem ég er á og þeirra möguleika sem hann býður upp á.“
Svara því sem fólk spyr að
Arnfríður hefur ásamt Árna Svani Daníelssyni, verkefnisstjóra á Biskupsstofu, kennt námskeiðið Trúarstef í kvikmyndum, sem er opið nemendum í öllum deildum háskólans. Í námskeiðinu eru sýndar ólíkar kvikmyndir, allt í senn Hollywood-kvikmyndir, sænskar grínmyndir og Jesúmyndir en í myndunum eru trúarstef greind. Arnfríður segir að námskeiðið tengist ákveðnum straumum innan guðfræðinnar.
„Guðfræðin þarf að vera í samtali við samfélagið sem hún er hluti af. Kvikmyndir verða sífellt stærri hluti af lífi fólks. Við guðfræðingar, eins og aðrir, þurfum að vera á tánum gagnvart því sem er að gerast í samfélaginu. Guðfræðingar þurfa að svara þeim spurningum sem fólk spyr, ekki einungis þeim sem þeir sjálfir hafa áhuga á. Guðfræðingar eiga ekki að loka sig inni í fílabeinsturni.“
Arnfríður segir að með því að greina kvikmyndir með hjálp guðfræðinnar haldi guðfræðingar áfram samtali við listafólk en það hafi lengi tekið þátt í að móta kristna hefð.
„Rithöfundar og myndlistarmenn hafa um aldir túlkað boðskap Biblíunnar í máli og myndum. Nú erum við farin að skoða hvernig kvikmyndagerðarfólk fæst við trúarstef í verkum sínum. Það er kall tímans að einhverju leyti að vinna með það umhverfi sem við erum hluti af. Guðfræðin er ekki bara skrifuð í fræðibækur, hún mótast og þróast líka á öðrum stöðum.“
Kvikmyndir sem fræðigrein innan guðfræði er ekki gömul fræðigrein, um það bil 15 ára segir Arnfríður.
„Það sem er svo spennandi er að við fáum tækifæri til þess að hafa áhrif á mótun greinarinnar og vera í samtali við fræðifólk í öðrum löndum sem hefur að einhverju leyti ólíka sýn.“
Birtingarmynd Krists í kvikmyndum
Arnfríður tekur fyrir að vera kvikmyndanörd. Hún segist hafa fengið áhuga á kvikmyndum vegna rannsókna sinna innan Kristsfræði.
„Það sem kveikti í mér voru kvikmyndir um ævi og störf Krists, sem hafa verið búnar til jafnlengi og kvikmyndir, eða allt frá lokum 19. aldar. Í þeim verkum liggur mikill fjársjóður. Í byrjun 20. aldar var persóna Jesú Krists mjög upphafin og fjarlæg í kvikmyndum, frábrugðin öllum öðrum. Það sem hefur gerst síðan þá er aukin áhersla á mennsku Krists á kostnað guðdómsins. Hann hefur orðið líkari okkur mönnunum.“
Nýjasta stórmyndin um ævi Jesú Krists er Passion of the Christ og kom úr smiðju Mel Gibson árið 2004. Arnfríður segir þá kvikmynd merkilega því í henni er dregin upp önnur mynd af Kristi en í kvikmyndum frá síðustu áratugum 20. aldar.
„Í Gibson myndinni er lögð mikil áhersla á þjáningu Krists, sem er upphafin. Jesús stendur allt af sér og skilaboðin virðast vera þau að hann sækist eftir þjáningunni. Í kristinni hefð hefur þjáning oft verið upphafin og gerð eftirsóknarverð í sjálfu sér. Það getur að mínu mati beinlínist reynst hættulegt. Þjáningin hefur ekki merkingu í sjálfri sér þó hún geti fengið merkingu ef við göngum í gegnum erfiða reynslu og þroskumst í gegnum hana.
En þjáning getur líka gert það að verkum að við komum út sem brotnir einstaklingar sem ná ekki að höndla lífið á ný. Hvar endar þetta ef í sífellu er haldið áfram að upphefja ofbeldi og þjáningu? Þeim mun meira blóð og ofbeldi, þeim mun betra? Við verðum að mínu viti að spyrja okkur að því hvað gerir Krist sérstakan, af hverju erum við kristin? Það er vegna margs en einmitt ekki vegna ofbeldis og þjáningar. Kristur er Guð sem kemur inn í okkar kjör og mætir okkur þar sem við erum, hvar sem við erum. Hann gengur meðal annars inn í þjáninguna með okkur en segir ekki „farið og leitið þjáninguna uppi“. Það er stór munur á því.“
Titill
Arnfríður Guðmundsdóttir
„Guðfræðin þarf að vera í samtali við samfélagið sem hún er hluti af. Kvikmyndir verða sífellt stærri hluti af lífi fólks. Við guðfræðingar, eins og aðrir, þurfum að vera á tánum gagnvart því sem er að gerast í samfélaginu. Guðfræðingar þurfa að svara þeim spurningum sem fólk spyr, ekki einungis þeim sem þeir sjálfir hafa áhuga á. Guðfræðingar eiga ekki að loka sig inni í fílabeinsturni.“
Í námskeiðinu Trúarstef í kvikmyndum er farið vítt um heim kvikmyndanna í leit að trúarstefjum. Í þeirri vinnu kemur ágætlega í ljós að spurningar sem tengjast guðfræði eru allt í kringum okkur. Menningin er mótuð af kristinni trú segir Arnfríður og þess vegna eru trúarspurningar víða.
„Í grunninn fjalla trúarbrögð alltaf um tilvist mannsins og að því leyti eru guðfræðilegar spurningar allstaðar, jafnvel þar sem við eigum síst von á þeim. Okkar vestræna menning er kristin menning. Þess vegna er það engin tilviljun að stór temu um tilgang lífsins, tilgang og hlutverk manneskjunnar, endurlausnarstef og sigra á erfiðum aðstæðum eru gjarnan til umfjöllunar. Guðfræðin lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Þess vegna er hún pólitísk. Ekki flokkapólitísk, heldur pólitísk í þeirri merkingu að hún lætur sig varða öll mál og allt sem viðkemur mannlegu samfélagi.“
Í beinu framhaldi af því telur Arnfríðar að guðfræðingar eigi að vera virkir í samfélagsumræðu. Sjálf er hún í hópi átta guðfræðinga sem láta samfélagsumræðu sig varða og hefur hópurinn skrifað greinar í íslenska fjölmiðla síðan haustið 2008.
„Mér finnst að við [guðfræðingar] eigum að vera enn virkari í samfélagsumræðunni en við erum. Þegar við skrifum greinar er það að sjálfsögðu okkar leið til að sýna fram á að guðfræðin hafi eitthvað til málanna að leggja. Við eigum ekki bara að hlusta á lög- og viðskiptafræðinga. Það er kominn tími til þess að fleiri fræðigreinar komi inn í umræðuna og við lítum heildstætt á málin. Guðfræðin þarf að vera lifandi. Við segjum svo oft að hefðin sé svona eða hinsegin og henni megi ekki breyta. Hefðin er að mínu mati dínamískt fyrirbæri og því er hún alltaf í mótun.“
Kirkjan í íslensku samfélagi
Íslendingar báru lengi mikið traust til íslensku Þjóðkirkjunnar. Það traust hefur farið dvínandi á síðustu árum samkvæmt reglulegum mælingum Þjóðarpúls Gallup. Við síðustu kannanir í september árið 2010 sögðust 38% landsmanna bera mikið traust til Þjóðkirkjunnar, 26% hvorki né og 35% landsmanna sögðust bera lítið traust til hennar.
Dvínandi traust til Þjóðkirkjunnar tengist óneitanlega umræðu um kynferðisáreitni og -brot sem hafa verið framin innan hennar.
„Þau mál hafa hrist upp í okkur á mjög óþægilegan hátt og vakið okkur til meðvitundar um það að kirkjan er eins og hvert annað mannlegt samfélag. Þar getur ýmislegt gerst. Jafnvel þar, sem á að vera öruggur staður fyrir alla, getur þrifist eitthvað eins og ofbeldisfull árás á einstaklinga. Það að kirkjan sé öruggur staður, sem hún á að vera, kemur ekki að sjálfu sér. Við þurfum að vera vakandi og hafa farvegi til þess að fást við erfið mál. Traust Íslendinga til kirkjunnar, sem mælist nú í sögulegu lágmarki, þarf að taka mjög alvarlega. Siðbótarkirkja, eins og lúthersk kirkja kallar sig, er kirkja sem er alltaf tilbúin að ganga í sig og skoða hvað má betur fara.“
Eitt af því sem Arnfríður telur ábótavant innan íslensku Þjóðkirkjunnar er staða kvenna innan æðstu stofnana hennar. Enn er langt í land með að konur njóti þar jafnréttis á við karla. Sjálf hefur hún látið til sín taka í jafnréttisbaráttu innan kirkjunnar og fer nú fyrir nýstofnuðu félagi prestsvígðra kvenna.
„Árið 1998 samþykkti Kirkjuþing jafnréttisáætlun fyrir kirkjuna og 1. janúar árið 1999 tók í fyrsta skipti jafnréttisnefnd innan hennar til starfa sem ég fór fyrir. Það var spennandi starf en það skal viðurkennast að það var ekki alltaf auðvelt eða vinsælt að vera sífellt að minna á þá jafnréttisáætlun sem við höfum. Við stöndum okkur ekki nægilega vel og enn er víða ójafnvægi milli karla og kvenna á starfsvettvangi kirkjunnar. Ég hef til dæmis gagnrýnt að í kirkjuráði, sem er æðsta stofnun kirkjunnar, skuli aðeins vera ein kona af fimm fulltrúum og engin kona úr hópi presta. Síðast skrifaði ég grein sem heitir „Vantraust á vígðar konur?“ Það er erfitt að skilja þetta öðruvísi.“
Að mati Arnfríðar er ekki auðvelt að svara því hvers vegna þokist jafn hægt í átt að jafnri stöðu kynjanna og raun ber vitni. Í því samhengi þurfi að horfa til fleiri stofnana og fyrirtækja landsins.
„Ég get ekki samþykkt að þetta hafi ekkert með kynjasjónarhorn að gera. Við eigum stórt verkefni fyrir höndum. Það sem mér finnst spennandi einmitt núna er að við stöndum frammi fyrir því að kjósa nýjan vígslubiskup í Skálholt. Tvær konur eru í framboði, en engin íslensk kona hefur fram að þessu hefur verið vígð til biskupsþjónustu. Við erum samfélag sem hreykir sér af því að vera sterkt í jafnréttismálum. Að mínu mati er það ekki endilega pólitísk rétthugsun að velja konur til jafns við karla í ábyrgðarstöður innan kirkjunnar heldur rímar það við boðskap kristinnar trúar. Kristur gerði ekki greinarmun á frjálsum manni eða þræl, karli eða konu. Að mínu mati snýst jafnrétti innan kirkjunnar því fyrst og fremst um guðfræði og eðli kristins boðskapar.“
Kvikmyndur um líf Jesú Krists framleiddar á 20. og 21. öld
- The King of Kings (1927)
- King of Kings (1961)
- Il Vangelo secondo Matteo (The Gospel According to St. Matthews 1964)
- The Greatest Story Ever Told (1965)
- Godspell (1973)
- Jesus Christ Superstar (1973)
- Jesus of Nazareth (1977)
- The Last Temptation of Christ (1988)
- Jesus de Montreal (Jesus of Montreal 1989)
- The Passion of the Christ (2004)