Háskólabíó er 50 ára: Kamelljón sem aldrei sefur
Háskólabíó sefur aldrei að sögn rekstrarstjóra hússins, Þorvaldar Kolbeins. Hann hefur verið viðloðandi húsið í á þriðja áratug og þekkir þar hvern krók og kima. Hann segir húsið taka á sig ólíklegustu myndir eftir því hvert hlutverk þess sé hverju sinni. Allt að 220.000 Íslendingar koma í Háskólabíó árlega til að sjá kvikmyndir, fyrir utan háskólanema og ráðstefnu- og tónleikagesti sem daglega eru þar.
Vígt á hálfrar aldar afmæli HÍ
Háskólabíó var byggt á árunum 1956-1961 og vígt 6. október, á hálfrar aldar afmæli Háskóla Íslands árið 1961. Bíóið á því fimmtíu ára afmæli í ár. Upphaflega var byggingin eins og gamaldags myndavél í laginu samkvæmt teikningu. Með tíð og tíma hefur hún verið stækkuð og ýmsar breytingar verið gerðar á húsinu. Háskólabíó er í dag ríflega 6.700 fermetrar að stærð með tæplega 1.800 sætum sem setið er í frá því eldsnemma á morgnana og langt fram á kvöld.
„Bíóið er í notkun frá september og út skólaárið og sefur því eiginlega aldrei. Hér hefst kennsla klukkan átta á morgnana og stendur til korter yfir fimm. Bíóið hefur sýningar klukkan hálfsex og þær standa til eitt á nóttunni. Ræsting fer fram í húsinu klukkan fimm á morgnana. Bókanirnar eru það þéttar að það er mikil vinna að hafa yfirsýn yfir allt,“ útskýrir Þorvaldur. Árið 1987 var hann ráðinn sem verktaki við endurbætur á húsinu og hefur starfað þar síðan. Frá árinu 2002 hefur Þorvaldur gegnt starfi rekstrarstjóra fasteignarinnar.
Titill
Háskólabíó
Loftmynd af Háskólabíói
Eftirminnilegir dagar
Starfslið hússins á að vonum margar góðar minningar úr Háskólabíói. „Sérstaklega man ég þegar viðbygging bíósins var opnuð árið 1990 og sætaframboð tvöfaldaðist þar með í húsinu. Svo eru náttúrlega stór þing eftirminnileg, til dæmis NATO- og Norðurlandaþingin. Allt í sambandi við sprengjuleitir, öryggismál og lokanir á húsinu þótti mér ótrúlegt. Það var sérstaklega skemmtilegt þegar Gorbachev kom hingað og Rússar sáu um blaðamannafund í stóra salnum. Þeir komu sjálfir með allar græjur sem virkuðu frekar gamaldags. Þegar á hólminn var komið svínvirkaði þetta hjá þeim, þeir voru eldklárir.“
Mikill tími fer í að skipuleggja dagskrá hússins og setja upp viðeigandi umgjörð. Í stóra salnum fer fram kennsla á daginn, Sinfóníuhljómsveitin hefur þar æfingaaðstöðu og kvikmyndasýningar fara þar fram á kvöldin, auk þess sem salurinn er leigður út fyrir ótal viðburði. Í gegnum tíðina hefur salurinn tekið á sig ýmsar myndir. Þjóðleikhúsið sýndi í Háskólabíói um tíma þegar verið var að gera leikhúsið upp en þá hreiðruðu leikarar um sig undir sviðinu. Á stórum þingum hefur önnur hver sætaröð verið lögð undir borðplötur, danspallur sem náði út á 5. bekk hefur verið búinn til og salurinn hefur verið skreyttur eins og alhvítt snjóhús. Þorvaldur segir að margvíslegar breytingar á húsinu hafi alltaf verið mögulegar að ósk leigjenda hverju sinni.
Salir 1 til 5 undirgengust miklar breytingar árið 2008. Sama ár var settur fullkominn tæknibúnaður í salina fyrir ráðstefnur þó raunar sé sífellt verið að laga og bæta við til þess að halda í við nýjustu tækni.
Sena rekur kvikmyndasýningar í Háskólabíói en byggingin er rekin í samstarfi við Háskólann og Landsbankann, sem leigir aðstöðu fyrir bankann á jarðhæð hússins. Það eru breytingar í vændum hjá bíóinu því að Sinfóníuhljómsveit Íslands, með 80 hljóðfæraleikurum fyrir utan skrifstofufólk, flytur brátt æfingaaðstöðu sína í nýtt tónlistarhús við hafnarbakkann í Reykjavík, Hörpu.
Titill
Háskólabíó
Háskólabíó
Tenging við Háskólann
Nemendur við Háskóla Íslands hafa verið í tímum í Háskólabíói frá árinu 1990 en í húsinu fer kennsla fram í fimm sölum bíósins og tveimur kennslustofum. Nemendur við skólann hafa staðið fyrir ýmsum viðburðum sem haldnir eru á ári hverju í byggingunni. Sem dæmi má nefna árlega hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema og starfs- og námskynningu sem kennd er við AISEC. Háskólanemar stóðu að stofnun Hreyfimyndafélagsins árið 1992 en starfsemin þess var mikil fyrst um sinn þegar óhefðbundnar kvikmyndir voru sýndar. „Þetta voru „öðruvísi“ myndir, evrópskar myndir, svipaðar myndir og sýndar hafa verið á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni RIFF á síðustu árum,“ útskýrir Þorvaldur. RIFF hefur haft sýningaaðstöðu í bíóinu undanfarin ár. Á haustdögum 2010 var boðið upp á myndfyrirlestur á kvikmyndahátíðinni í stóra salnum þar sem málvísindamaðurinn og samfélagsrýnirinn Noam Chomsky talaði við Íslendinga frá háskóla sínum í Bandaríkjunum, MIT. Mánudagsmyndir voru einnig á dagskrá á árum áður í Háskólabíói, en þá var ókeypis í bíó á mánudagskvöldum.
Titill
Stóri salurinn
Stóri salur Háskólabíós gjörbreyttur
Aldrei sami dagurinn
Varla er hægt að tala um hefðbundinn vinnudag hjá Þorvaldi og tveimur öðrum föstum starfsmönnum Háskólabíós því að óvænt verkefni eru algeng. Þremenningarnir mæta í vinnu um klukkan sjö á morgnana. „Okkar fyrsta verkefni er að fara yfir það hvort eitthvað hefur gerst eða bilað. Síðan förum við í það að breyta húsinu úr bíói í kennslustofur. Verið er að skúra á þessum tíma, við tökum fram allar kennslugræjur og athugum hvort hljóð og mynd virka. Auk þessa aðstoðum við kennara hér allan daginn. Ef þeir eru óöruggir eða hræddir græjum við hlutina með þeim. Sumir þeirra vilja ekki tileinka sér nýjustu tæknina og búa á Flintstone-tímabilinu eins og við köllum það.“ Starfslið hússins bregður sér í ótal hlutverk eftir tilefni, rétt eins og húsið sjálft. „Við erum í mörgum störfum. Ég útskýri stundið að hlutverk mitt í starfi sé að losa klósettstíflu og taka á móti forseta Íslands… og allt þar á milli.“
Draugar á ferð
Fastir starfsmenn Háskólabíós hafa orðið varir við draugagang í húsinu. „Stundum sturtast niður úr klósettunum þegar enginn er þar og hér hefur fólk orðið vart við draugagang þónokkuð lengi. Sá sem skúrar stóra salinn hefur séð mann sem situr í salnum og færir sig neðar eftir því sem hann sjálfur færir sig. Ég segi alltaf að það séu til eðlilegar skýringar á þessu. Þetta er það stórt hús og hitamismunur mikill svo að það brakar og brestur í því. Það tengja margir við draugagang.“ Starfsfólkið kann ótal sögur úr húsinu, bæði skemmtilegar og leiðinlegar. Ein fjallar um drukkinn bíógest sem sofnaði milli sæta eftir sýningu og vaknaði upp um miðja nótt og hélt að hann væri kominn til himna. Bíógesturinn hljóp út úr salnum og beint fram í anddyri bíósins þar sem verið var að ræsta. Það mátti vart á milli sjá hvorum brá meira, bíógestinum eða ræstitækninum.