Háskóli unga fólksins- Tannhjól í stórri heild
Háskóli Íslands tekur á sig annan og hressilegri búning í byrjun júní. Frá 2004 hefur Háskóli unga fólksins farið fram, þegar 300 krakkar á aldrinum 12 – 16 ára, sækja námskeið í 30 háskólagreinum. Guðrún Bachmann, MSc í vísindamiðlun og kynningarstjóri HÍ, hefur haft yfirumsjón með Háskóla unga fólksins eða HUF frá upphafi.
„Hugmyndin að HUF er komin frá Páli Skúlasyni fyrrverandi rektor HÍ. Hann var virkur í alls konar evrópsku samstarfi og kynntist hugmyndinni í Þýskalandi. Þjóðverjar eru mjög framarlega í ýmsu háskólastarfi fyrir krakka. Hann fékk þessa flugu í höfuðið og kom til mín. Ég og Björn Þorsteinsson, heimspekingur, settumst niður og byrjuðum að útfæra þetta. Smátt og smátt fór hugmyndin að mótast að okkar aðstæðum og varð ólík upphaflegri fyrirmynd Páls. Við settum okkur það markmið mjög fljótlega að þetta yrðu að vera námskeið þar sem krakkarnir væru virkir og kennsluaðferðir stundaðar sem voru kannski alls ekkert líkar þeim sem háskólakennarar eru vanir. Þetta var gríðarleg örvun fyrir kennara Háskóla Íslands en fáir þeirra voru þjálfaðir í öðrum kennsluaðferðum en fyrirlestrum og dæmatímum.“
Fjölbreyttar kennsluaðferðir lykilatriði
Guðrún segir að kjarni kennara í fyrsta HUF hafi búið yfir þokkalegri reynslu eftir að hafa tekið þátt í tilraunaverkefninu Bráðger börn – verkefni við hæfi
„Það verkefni hafði Háskóli Íslands unnið með fræðslumiðstöð Reykjavíkur og fleirum. Þá voru sett saman námskeið sérstaklega ætluð börnum í grunnskólum sem ekki fengu kennslu við sitt hæfi. Þau voru sérstaklega skilgreind sem bráðger með 9,5 í meðaleinkunn eða eitthvað þvíumlíkt. Þar hittust í fyrsta skipti krakkar sem voru langt fyrir ofan meðallag og jafnvel félagslega óvön að hitta jafningja sína. Þau voru vön því að vera alltaf fyrst og fremst en jafnvel pínulítið einangruð. Í þessu verkefni varð til hópur jafningja. Bráðger börn var tilraunaverkefni til þriggja ára og við byggðum HUF á því.“
Guðrún segir að fjölbreyttar kennsluaðferðir sem nýttar hafa verið í HUF hafi skilað sér á ótal opnum viðburðum sem Háskóli Íslands stendur fyrir á ári hverju. Á þeim dögum hefur vísindum, fræðum að ógleymdu fjöri verið miðlað til almennings með upplifun, skynjun, hljóðum, þrautum og fleiru
„Það hefur orðið bylting á framsetningu á öllum námskynningum, Háskóladegi og Vísindavöku. Nú er ótrúlega stór hópur kennara sem er tilbúinn að taka þátt í gagnvirkum kynningar- og kennsluleiðum. Almennt í háskólastarfi eru blandaðar kennsluaðferðir að ryðja sér rúms. Það þarf að höfða til fleiri lærdómshæfni eða eiginleika hjá einstaklingum heldur en fyrirlestraformið býður upp á því fólk lærir með svo mörgum og ólíkum leiðum hvort sem það heitir sjónminni eða heyrnarminni. Þessi þekking á því að einstaklingar læra á mismunandi og margvíslegan hátt, sem kallar á blandaðar kennsluaðferðir, er grunnur vísindamiðlunakenninga sem eru ráðandi í hinum vestræna heimi.“
Snjóboltaáhrifin gríðarleg
Guðrún segir að eitt af því sem hafi tekið mikinn tíma við að koma HUF á fót hafi verið heimspekileg útfærsla verkefnisins, markmið og tilgangur skólans
„HUF er fyrst og fremst opinn öllum. Það er mín reynsla að þeir krakkar sem hafa sótt HUF eigi það sameiginlegt að nenna að fara beint úr skólastarfi sínu yfir í annað. Þau eru varla búin með skólaslitin sín og þá eru þau mætt í Háskóla Íslands. Frá upphafi HUF hefur orðspor skólans breiðst út en það hefur verið rosalega sterkt og gott. Snjóboltaáhrifin hafa verið gríðarleg sem þýðir að hópurinn hefur víkkað út að sjálfu sér.“
Guðrún er fyrst Íslendinga til þess að klára framhaldsnámi í vísindamiðlun en fagið miðar að nýta ólíkar kennslu- og miðlunaraðferðir þegar kemur að vísindum.
„Ég lærði í Bretlandi. Bretar eru gríðarlega framarlega í vísindamiðlun. Þeir hafa sett á oddinn í allri stefnu í menntamálum, uppbyggingu atvinnuvega og menningar að miðla vísindum til almennings, gera almenning vísindalæsan og að virkum þátttakanda í því sem er að gerast í vísindum. Vísindin eru allt í kringum okkur og hafa gríðarleg áhrif á líf okkar. Það ætti að vera sjálfsagður réttur borgarans að fá þessar upplýsingar en líka að eiga möguleika á að skilja þær. Það má ekki verða til ein óskiljanleg veröld langt í burtu sem heitir vísindi og er dularfull, óaðgengileg og bara fyrir þröngan hóp sem skilur þau og svo hinum megin óupplýstur almenningur sem getur ekki tekið afstöðu af því hann vantar upplýsingar og skilning.“
Að mati Guðrúnar verður að vera til vísindalæs almenningur sem lætur ekki mata sig en um leið fjölmiðlafólk sem getur gert flókna hluti einfalda.
„Þetta er eins og þýðing. Stundum þarf að taka ákveðið efni og finna á því flöt til þess að koma hinum skiljanlega kjarna áleiðis. Hér á landi er miðlun rannsókna númer eitt, tvö og þrjú í formi greinaskrifa. Næsti kostur hefur verið fyrirlestraform og svo hafa veggspjöld verið nýtt. Þar við hefur eiginlega setið. Á nýlegri ráðstefnu sem ég sat hjá evrópskum vísindamiðlurum var mikið fjallað um þessi efni en vísindamaður í dag þarf að vera tilbúinn að standa í miðri verslunarmiðstöð og tala við fólk þó það sé ekki endilega það sem fólk sér fyrir sér. En allt gengur þetta út á að byggja brýr. Samtalið er svo gríðarlega mikilvægt.“
Sem ríkisháskóli hefur HÍ ákveðnum skyldum að gegna gagnvart almenningi, meðal annars við miðlun og fræðslu. „Í nýrri stefnu skólans og liðinni stefnu er mjög skýrt kveðið á um að HÍ skuli miðla niðurstöðum rannsókna til samfélagsins og vísindum til ungs fólks. Þannig er HUF hluti af kjarnastarfsemi skólans. Þar að auki er HUF afskaplega skynsamleg og skilvís leið til þess að undirbúa tilvonandi nemendur. Sá fræjum, auka skilning og opna dyr. Því betur sem þetta tekst því hæfari nemendur ættum við að fá sem ætti að skila sér til samfélagsins.“
HUF er þess vegna tannhjól í risastórri heildrænni hugsun bæði Guðrúnar og Háskóla Íslands.
Titill
Guðrún Bachmann
„HUF er fyrst og fremst opinn öllum. Það er mín reynsla að þeir krakkar sem hafa sótt HUF eigi það sameiginlegt að nenna að fara beint úr skólastarfi sínu yfir í annað. Þau eru varla búin með skólaslitin sín og þá eru þau mætt í Háskóla Íslands. Frá upphafi HUF hefur orðspor skólans breiðst út en það hefur verið rosalega sterkt og gott. Snjóboltaáhrifin hafa verið gríðarleg sem þýðir að hópurinn hefur víkkað út að sjálfu sér.“
Tilraunahús og fyrirferðameiri Háskóli unga fólksins
Eitt af öðrum stóru, verkefnunum á borði hennar er að koma á fót Tilraunahúsi þar sem krakkar og fullorðnir geta skemmt sér og lært með ýmsum aðferðum.
„Í Tilraunahúsinu prófa gestir, detta og leika sér. Unnið er að einhverri lausn sem hluti af leikjum, tilraunum, og prófunum. Þetta er gert með skólafélögum, fjölskyldu eða öðrum gestum. Á góðum vísindasetrum má sjá þetta gerast, alls konar fólk vinnur saman að lausn máls. Þjóðfélagslega séð er þetta algjörlega brilliant og hluti af því að vera virkur og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Ef þú sem kennari gætir farið og heimsótt vísindasetur með bekkinn þinn og fjallað í framhaldinu sérstaklega um hreyfilögmálið, eitthvað sem enginn hefur almennilega skilið til þessa, eftir að hafa prófað tæki á sýningu verður miklu léttara fyrir kennara að halda áfram. Kennarinn fær verkfæri í hendurnar sem auðvelda útskýringu.“
Framtíðin er spennandi þegar kemur að vísindamiðlun og Guðrún hefur sterka sýn.
„Í grunninn vil ég sjá vísindamiðlun skila sér inn í skólakerfið. Ég vil sjá að námskeið eins og í HUF séu ekki bara vikulegur viðburður einu sinni á ári heldur eitthvað sem HÍ geti gert allt árið. Auðvitað væri best að starfsemin geti verið enn meira inni í skólunum, jafnvel á vegum HÍ. Ég vil sjá verða til Tilraunahús sem er öllum opið og ég vil sjá að stjórnvöld sýni það í alvöru að þau skilji mikilvægi þess að Íslendingar séu vísindalæs þjóð og að við þurfum peninga, þekkingu og aðstæður til þess að svo geti orðið.“
Trixið að nota efni úr hversdagslífi krakkanna
Bryndís Björgvinsdóttir, meistaranemi í þjóðfræði, kennir í HUF í fjórða skipti í skólanum í júní. Bryndís hefur bæði kennt námskeið í þjóðfræði og menningarfræði, „sér til mikillar gleði og yndisauka“ eins og hún orðar það. „Ég hef aðallega kennt námskeið sem heitir „Þjóðfræði samtímans: brandarar, flökkusagnir, graffítí og tattú.“ Ég hef einnig kennt námskeið sem heitir Efnismenning og fjallar um hvernig við notum föt og hluti til að tjá okkur, minnast einhvers sem og til að senda öðrum skilaboð um hvernig þeir eigi að sjá okkur.“
Bryndís segir að nemendur í HUF séu í senn áhugasamir og sniðugir sem auðveldi kennsluna. „Trixið mitt er að reyna að höfða til þeirra með efni sem ég veit að þau þekkja úr sínu eigin hversdagslífi. Ég tek til dæmis tölvuleiki og kvikmyndir sem dæmi um það sem er til umræðu. Og svo reyni ég einnig að skapa umræður með því að láta þau koma með eigin dæmi.“
Sem kennari í HUF til nokkurra ára hefur Bryndís upplifað ýmis skondin augnablik. Sérstaklega segir hún að kvenkyns nemandi sitji fast í minninu. „Ég man eftir einni stelpu sem mætti þrisvar í sama námskeiðið hjá mér, ár eftir ár. Mér fannst það frekar fyndið – hún var farin að kunna fyrirlesturinn minn utan að og leiðrétti mig einu sinni. Hún hafði svona gríðarlega mikinn áhuga á flökkusögnum. Síðan finnst mér einnig eftirminnilegt þegar einn strákur – í svona svokölluðum stússífötum – rétti upp hönd þegar ég var að kenna krökkunum um graffítí. Hann spurði síðan: Kennari! Má þarna ... má graffa á Hallgrímskirkju?“
Bryndís stendur föst á því að krakkar á HUF aldrinum viti meira en hinir eldri gera ráð fyrir. „Krakkarnir hafa meiri orku og krefjast meiri orku af manni. Hinsvegar hefur komið mér á óvart hvað krakkar á þessum aldri eru klárir og meðtækilegir fyrir hugmyndum og kenningum sem þykja gjarnan of flóknar til að kenna í grunnskóla. Eftir að hafa kynnst kennslunni í HUF hef ég fengið áhuga á grunnskólakerfinu. Ég held að þar sé virkilega hægt að kenna flóknari og dýpri samfélagsfræði og samfélagsgagnrýni en hefur verið ástunduð hingað til – sem gæti leitt til betra og skilningsríkara samfélags.“