Hirt skal vera hirt
Garðyrkjustjóri Háskóla Íslands, Páll Melsted, sér um og viðheldur um það bil 14 hektara svæði á lóðum skólans í vesturbæ Reykjavíkur. Páll lauk framhaldsnámi í skrúðgarðatækni frá Landbúnaðarháskólanum í Svíþjóð og hefur gegnt stöðu garðyrkjustjóra HÍ síðan þá. Hann hefur aðstöðu í VR-III fyrir sjálfan sig, vélar og garðverkfærði.
„Ég lærði garðyrkju í Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi sem var á þeim tíma tveggja ára nám ásamt verknámi hjá meistara. Þá fór ég í framhaldsnám til Alnarp í Svíþjóð í skrúðgarðatækni. Þar var dýpra kafað í fræðin og ég lærði meira í teikningum og skipulagi garða. Ég hóf síðan störf hjá Háskóla Íslands vorið 1980 eftir að hafa lokið framhaldsnámi. Þá var starf garðyrkjustjóra HÍ fullt starf á sumrin en hálft starf á veturna. Það þótti réttlætanlegt því umhverfi skólans var umfangsminna en það er í dag.“ Nú er Páll í fullu starfi hjá háskólanum allan ársins hring.
Skrúðgarðyrkja felst í því að útbúa garð frá upphafi til enda; helluleggja, tyrfa, planta gróðri og hlaða veggi. Páll segir að áhugi sinn á garðyrkju hafi kviknað þegar hann var 14 ára og fékk sumarvinnu við lóð Hótels Loftleiða. Þar var hann í læri hjá lærðum manni í skrúðgarðyrkju.
„Mér fannst fagið ágætt þegar ég byrjaði í því. Einn stærsti kosturinn við það er að fá að vera svona mikið úti.“ Páll er ekki langt frá því að vera haldinn fullkomnunaráráttu þegar kemur að formun gróðurs. Hann gerir þó greinarmun á því hvort tegundirnar megi vaxa frjálsar eða eigi að vera klipptar í ákveðin form. „Hirt skal vera hirt,“ segir Páll.
„Ef eitthvað er látið vaxa frjálst þá viðurkenni ég að það pirrar mig ef það er ekki frekar gróskumikið. Flestar tegundir þola að vera fullkomlega mótaðar en aðrar trjátegundir vaxa óhindraðar og það er allt í lagi. Ég nýt þess að horfa á hvellslegna flöt, þar sem hún á að vera slegin, en síðan mega alveg taka við villt engi. En ef gróður á að vera hirtur þá þarf að hirða hann almennilega.“
Svæðið sem Páll hefur yfirumsjón með, um 14 hektarar, jafngilda 140.000 fermetrum. Þá eru svæði Háskólans í Stakkahlíð og á Laugarvatni ekki talin með. „Umhirða á lóðinni umhverfis Stakkahlíð var boðin út og ég lít eftir því svæði. Ég fer reglulega á Laugarvatn að grysja og fleira. Þó er margt sem þyrfti að framkvæma þar en þá kemur upp spurningin um peninga. Það er ákveðin, föst fjárveiting sem fer til viðhalds á lóðum á Háskólasvæðinu en sú upphæð nægir eingöngu til þess að halda í horfurnar. Ef það þarf að fara í stórar aðgerðir þarf auka fjárveitingu til.“
Nóg af „gráu“
Páll segir að á 31 árs starfsævi sem garðyrkjustjóri Háskólans hafi aðalstarf hans alla tíð verið að rækta lóðir skólans og halda þeim við. Hann hefur unnið að endurbótum víða á svæðinu og séð ýmsar háskólabyggingar rísa. Meðal annars vann hann við endurnýjun á lóð í kringum Árnagarð, á Alexandersstíg sem nær þvert yfir háskólalóðina frá Hringbraut til Sæmundargötu, fyrir utan vinnu við lóðir á nýbyggingum á svæðinu. Hann segir að komið sé að því að taka lóðina fyrir aftan Aðalbyggingu í gegn og lagfæra. Á langri starfsævi, hjá sífellt stækkandi skóla, hefur Páll séð tímana tvenna.
„Það hafa orðið talsvert miklar breytingar á svæðinu síðan ég byrjaði. Fólksfjöldi hér hefur aukist mikið og bílastæðin með en af þessu er óneitanlega aukið álag. Auð svæði Háskólans hafa verið lögð undir bílastæði eins og hluti af Vatnsmýrinni og gamli Háskólavöllurinn austan Sæmundargötu. Bílaumferð er það sem hefur skollið einna þyngst á svæðinu og það er mikið álag á götunum í kringum skólann. Fólk verður að nýta almenningssamgöngur í auknum mæli og ganga eða hjóla. Það er þó ekki hlaupið að því þegar almenningssamgöngur bjóða ekki upp á skjótari ferðir. Svæðið er eiginlega sprungið undan bílum en ég held að bílastæði á því séu hátt í 3.000. Það er nóg af „gráu“ á svæðinu og ég er ekki spenntur fyrir því að fjölga bílastæðum til framtíðar. Það „græna“ hefur alltaf verið að minnka og það væri æskilegt að ekki yrði gengið meira á það.“
Páll segir einnig aukið álag á umhverfið vegna alls þess fólks sem fer um háskólasvæðið daglega. Skráðir nemendur í HÍ eru tæplega 14.000 ásamt á annað þúsund manna starfsliði. „Fólk sem fer daglega um svæðið fleygir iðullega rusli frá sér. Ef lóðirnar væru ekki þrifnar reglulega væru heilu ruslahaugarnir á þeim, það er ég sannfærður um. Þó hefur umgengni skánað eftir að fleiri rusladöllum hefur verið komið upp og fólk hefur fengið leiðsögn í flokkun úrgangs. Það gætir einnig ákveðins tillitsleysis hjá ökumönnum, hvernig þeir leggja og teppa umferð til þess að hnoðast sem næst útidyrunum jafnvel þó það séu laus bílastæði í 100 metra fjarlægð.“
Það eru ekki eingöngu manna- og bílaferðir sem hafa jafnt og þétt aukist á háskólasvæðinu á síðustu þremur áratugum. Aðstaða og umfang í starfi garðyrkjustjórans hefur líka breyst. „Þegar ég hóf störf hafði ég aðsetur í gamalli skemmu við Hjarðarhaga. Þá var VR-III óbyggt sem og fleiri byggingar vestanmegin við Suðurgötu. Þar var bara möl og drullupollar. Það hefur tekist vel til við uppbyggingu á svæðinu og ágætlega til tekist að koma trjám fyrir innan um öll bílastæðin.“
Titill
Páll Melsted
„Bílaumferð er það sem hefur skollið einna þyngst á svæðinu og það er mikið álag á götunum í kringum skólann. Fólk verður að nýta almenningssamgöngur í auknum mæli og ganga eða hjóla. Það er þó ekki hlaupið að því þegar almenningssamgöngur bjóða ekki upp á skjótari ferðir. Svæðið er eiginlega sprungið undan bílum en ég held að bílastæði á því séu hátt í 3.000. Það er nóg af „gráu“ á svæðinu og ég er ekki spenntur fyrir því að fjölga bílastæðum til framtíðar.“
Hækkandi hiti og fleiri tegundir
Gróðurhúsaáhrif og hækkandi hitastig hafa haft bein áhrif á störf Páls í gegnum tíðina en hann segir að garðyrkjufólk hafi fundið talsvert fyrir breytingum á umhverfi vegna hitabreytinga.
„Á árum áður var stanslaus snjór og mokstur á veturna. Undanfarin ár hafa vetur verið miklu léttari og sumrin betri þó fullþurrt sé nú yfir heitasta tímann. Fyrir 20 árum stóð ég í ísköldum norðanvindi í skeifunni við Aðalbygginguna um miðjan júní, alltaf að bíða eftir því að hitastig hækkaði. Í ljósi þessara breytinga hefur verið skemmtilegra að vinna í garðyrkju á sumrin á síðustu árum. Veðrabreytingarnar með hækkandi hitastigi auka fjölbreytileika í gróðri með jafnvel nýjum tegundum trjágróðurs.“
Dagleg störf Páls eru margvísleg eins og stærð og umfang háskólalóðanna gefur til kynna.
„Það má líkja við störfum mínum við störf manneskju sem gengur út í garð sinn að morgni og kemur auga á ótal hluti sem þarf að gera; kantskera, helluleggja, klippa eða annað til þess að halda öllu snyrtilegu. Ef ég geng út, hvar sem er á svæðinu, og lít hvort heldur sem er til vinstri eða hægri þá sé ég alltaf næg verkefni. Veturnir fara þó mest í að halda svæði snyrtilegu; klippa trjágróður, ryðja snjó og halda samgöngum færum. Eins fer ég vel yfir allan vélakost yfir dimmasta tíma ársins. En svæðið er mikið flæmi. Ég hugsa stundum um fjöldann sem er í ræstingum innandyra og síðan um okkur, einn til tvo, ásamt unglingahóp á sumrin, sem höldum lóðunum við.“
Talið berst að nýlegum verkefum á lóð Háskólans. Ekki er langt síðan ráðist var í endurbætur á lóðinni fyrir framan Aðalbyggingu Háskólans, sem gekk snuðrulaust fyrir sig að mati Páls. Verkið var boðið út eingöngu meðal fagaðila og telur Páll það fyrirkomulag ólíkt betri kost heldur en alútboð sem til dæmis var haldið í tengslum við byggingu Háskólatorgs. Jafnframt fór Páll nýlega fyrir endurgerð á lóð íþróttahúss skólans en hann teiknaði breytingarnar sjálfur.
100 kirsuberjatré
„Framkvæmdirnar við íþróttahúsið voru ekki kostnaðarsamar en frágangurinn þar hefur vakið athygli og við höfum fengið mikið hrós fyrir það hvernig við lukum við lóðina. Það er vorverkefni í ár að klára útplöntun þar. Fyrir framan íþróttahúsið er fyrirhugað að planta kirsuberjatrjám sem japanska sendiráðið færði háskólanum í 100 ára afmælisgjöf. Upphaflega átti að planta 100 kirsuberjatrjám á svæðið en ég reikni með að þau verði eitthvað færri.“ Páll segir að búast megi við því að kirsuber vaxi á trjánum í náinni framtíð því á lóðinni er skjólgott miðað við marga aðra staði á háskólasvæðinu.
Aðrar og stórhuga framkvæmdir eru á döfinni hjá Háskóla Íslands. Til stendur að reisa þrjár byggingar vestan megin við Suðurgötu. Hús íslenskra fræða á grasflöt til hliðar við Þjóðarbókhlöðuna, hús undir stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum þaðan sem verður hægt að ganga undir Suðurgötuna frá aðalhæð Háskólatorgs og hús Menntavísindasviðs sem byggt verður á horni Suðurgötu og Hjarðargötu. Samanlagt flatarmál þessara þriggja bygginga verður um 33.000 m2. Einnig stendur til að reisa stúdentagarða fyrir um 300 nemendur austanmegin við Oddagötu og fleiri byggingar á svonefndum Vísindagarðareit.
Garðyrkjustjóri Háskóla Íslands á önnur áhugamál en að rækta lóðir skólans. Það kemur kannski fáum á óvart að þau áhugamál tengjast annars konar ræktun. Páll stendur nefnilega í hrossarækt á Rangárvöllum. Hestarnir eru hans líf og yndi fyrir utan vinnuna og hann eyðir mestum frítíma í umsýslu við hrossin eða í útreiðatúrum. „Hrossaræktin hefur gengið bærilega og ég hef gaman af því að rækta góð hross. Ég er með hryssur sem þarf að sinna vel og síðan læt ég fagfólk temja afkvæmi þeirra. Hrossin verða misjafnlega góð; sum mjög góð, önnur allt í lagi en alltaf einhver hluti hrossanna er afskrifaður.“
Byggingar vestan við Suðurgötu
- VR-I tekin í notkun 1972
- VR-II tekin í notkun árið 1975
- VR-III tekin í notkun (óformlega) 1987
- Tæknigarður tekinn í notkun 1988
- Viðbygging Háskólabíós vígð 1990
- Þjóðarbókhlaðan opnuð 1994