Header Paragraph

Leið eins og ég væri stödd í bíómynd

Image
Jarðskjálftaskemmdir

Í Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði er rík áhersla lögð á rannsóknir sem tengjast umhverfisþáttum í náttúru Íslands og er sérstaklega lögð áhersla á rannsóknir sem tengjast jarðskjálftum. Rannsóknarmiðstöðin sér til að mynda um umfangsmiklar jarðskjálftamælingar á jarðskjálftasvæðum á Norður- og Suðurlandi. Markmið mælinganna er að meta áhrif jarðskjálfta á mannvirki.

Rannsóknarmiðstöðin var opnuð árið 2000 á Selfossi, í byggingu sem áður var pakkhús Kaupfélags Árnesinga. Elínborg Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri Rannsóknarmiðstöðvarinnar, segir að það sé í raun ótrúlegt að hugsa til þess að bæði árið 2000 og 2008 hafi verið nýbúið að stinga jarðskjálftamælunum í samband á svæðinu.

„Það var nýbúið að setja mælana hér á Selfossi í samband þegar skjálftin kom árið 2000 og svo setja upp ICEARRAY (Icelandic Strong-motion Array) mælakerfið í Hveragerði þegar skjálftinn kom árið 2008. Þetta er auðvitað mjög mikil tilviljun og hálf kaldhæðnislegt, en við fengum líka gífurlega góð gögn til þess að vinna með“ segir Elínborg en skjálftinn sem kom í júni árið 2000 mældist 6,5 stig á Richter kvarða og skjálftinn sem kom í maí árið 2008 var 6,3 stig á Richter kvarða svo það er spurning hvort það sé óhætt að setja upp fleiri mæla?

Fjölbreytt starfsemi

Elínborg segir mikið um að vera á hverjum degi í Rannsóknarmiðstöðinni.

„Við tökum mikið á móti skólahópum og fræðum þau um jarðskjálfta og starfsemina sem hér fer fram. Undir lok heimsóknarinnar látum við svo krakkana taka æfingu, þar sem þau eiga að koma sér í skjól og svo framvegis. Þeim finnst það mjög skemmtilegt. Einnig er unnið mikið af rannsóknum hér bæði á eðli og áhrifum jarðskjálfta, svo það er nóg um að vera hér“.

Auk þess stendur Rannsóknarmiðstöðin fyrir fræðslu fyrir almenning um áhrif jarðskjálfta og öryggi í jarðskjálftum. Í Rannsóknarmiðstöðin er einnig fengist við mjög fjölbreytileg viðfangsefni sem spanna allt frá þróun gervifóta til rannsókna sem tengjast hönnun á 200 metra hárri jarðstíflu. En meirihluti verkefnanna á vegum stofunnar eru unnin í nánum tengslum við fyrirtæki og stofnanir. „Nú er meðal annars verið að fást við rannsóknir á hristiborði sem getur líkt eftir jarðskjálftum“ segir Elínborg.

„Leið eins og ég væri stödd í bíómynd“

Þegar jarðskjálftinn árið 2008 kom var Elínborg ekki í vinnunni. „Ég var heima rétt við útidyrnar svo ég kom mér út og varð litið að Ingólfsfjalli. Það hvarf algerlega í rykmekki, maður sá það ekki. Engar skemmdir urðu heima hjá mér en hins vegar hrundu plötur sem voru í loftinu hér í Rannsóknarmiðstöðinni niður, en annars sluppum við mjög vel miðað við marga aðra“.

Elínborg segist muna vel eftir þessum degi og líkir honum við bíómynd. „Það fylgir þessu svo mikið áfall, fólk verður svo skelkað því þetta gerist allt svo hratt, og maður er svolitla stund að átta sig á því hvað gerðist. Eftir á þá man ég að tveim dögum fyrir skjálftann keypti ég mér nýtt hjól. Ég á syni sem eru búsettir hér á Selfossi, og það sem mér fannst verst eftir skjálftann var það að ekki var hægt að ná neinu símasambandi. Ég gat ekki hringt, svo ég hjólaði hér um allan bæ á nýja hjólinu til þess að gá hvort það væri ekki allt í lagi með alla í fjölskyldunni. Á meðan ég hjólaði var eins og ég væri dottin inn í bíómynd, því mér fannst þetta svo óraunverulegt, það voru sírenur útum allt, bjögunarsveitabílar á ferð og þyrlur. Ég man að ég hugsaði að þetta gæti ekki verið að gerast þetta var svo óraunverulegt“.

Mögulegt samstarf við Japan

Aðspurð um hvort þau á Rannsóknarmiðstöðinni hafi fylgst með ástandinu í Japan segir Elínborg að þrír Japanir hafi verið hjá þeim í heimsókn í janúar og byrjun mars á þessu ári vegna samstarfsverkefna. „Ástandið þarna er alveg hræðilegt og auðvitað erum við að fylgjast með. Við getum hins vegar huggað okkur við það að það geta ekki komið svona stórir skjálftar hér heima eða svona stórar flóðbylgjur. Skjálftarnir hér verða alla jafnan ekki mikið stærri en 7 stig á Richter“.

Krydd fannst inn í ofni

Á undanförnum árum hafa fjölmargir nemendur í rannsóknatengdu framhaldsnámi unnið rannsóknarverkefni sín í tengslum við Rannsóknarmiðstöðina. „Verkefnin eru fjölbreytt og geta til dæmis einblítt á áhrif jarðskjálfta á lagnakerfi. Við fáum stúdenta til okkar á sumrin og svo starfa tveir doktorsnemar hjá okkur núna. En í heildina starfa hér níu manns“ segir Elínborg.

Sólveig Þorvaldsdóttir, rannsóknaverkfræðingur, er einn doktorsnemana sem starfar við Rannsóknarmiðstöðina. Í starfi sínu kannar hún áhrif náttúruhamfara á byggð, viðbúnað og viðbrögð. „Ég man eftir einni spaugilegri sögu frá skjálftanum árið 2000. Það var fólk sem var búsett í Reykjavík og kom hingað austur eftir skjálftann til að kíkja á sumarbústaðinn sinn. Þau höfðu verið með krydd í hillu og fundu hvergi kryddið í langan tíma. Það var ekki fyrr en þegar þau ætluðu að elda sér góðan mat að þau finna kryddið. Þá hafði kryddið kastast úr hillinni í öllum látunum þegar skjálftinn reið yfir. Ofnin sem var beint á móti, hafði þá opnast, kryddið dottið inn í hann og ofninn lokaðist svo“ segir Sólveig og hlær.

Margir glíma lengi við hræðslu eftir skjálfta

Sólveig bætir því hinsvegar við að sögur tengdar jarðskjálftum séu oftast ekki skemmtilegar. „Því miður er það er tilhneiging hér á landi að þeir sem upplifa smáskjálfta finnst þeir vera spennandi og skemmtilegir, svo þegar kemur að þeim stóru til dæmis hér á upptakasvæðunum, þá verður fólk oft mjög hrætt og horfir öðruvísi á hlutina og finnst erfitt að aðrir skilji ekki það sem þeir upplifa þegar svona stór skjálfti kemur“.

Elínborg tekur í sama streng. „Já, flest allir tala um það hvað þeim finnst óþægilegt að aðrir skilji ekki það sem þeir upplifa. Fólk skilur þetta ekki fyrr enn það upplifir það sjálft. Margir glíma lengi við þessa hræðslu, jafnvel árum saman, en við getum þó huggað okkur við það að við fáum ekki svona stóra skjálfta eins og þennan sem varð í Japan á dögunum“.

Mikilvægt að hugsa vel að hönnun mannvirkja

Þær stöllur benda á að mikilvægt er að huga vel að hönnun mannvirkja hérlendis. Byggðin hérlendis er mun dreifðari og minni heldur en í Japan og því litlar líkur að húsin hér hrynji í eins stórum síl. „Hér er mun minni hætta á að hús og byggingar hrynji. Byggingar og hús hér á landi eru byggð með það í huga að hættan á jarðskjálfta er alltaf til staðar. Í Istanbúl er hins vegar yfirvofandi jarðskjálfti og þar er mikil hætta á að byggingar hrynji, en göturnar þar eru oft mjög þröngar og erfitt að komast um þær ef stórir skjálftar koma. Hér getur að vísu eitthvað skemmst en fólk getur þó farið um léttilega“ segir Sólveig að lokum.

Vefur Rannsóknarmiðstöðvarinnar

Greinarhöfundur: Helga Mjöll Stefánsdóttir, nemi í blaða- og fréttamennsku við HÍ.