Header Paragraph

Ljósmóðurfræði kennd í 250 ár á Íslandi

Image
Ólöf Ásta Ólafsdóttir

Í ár hafa ljósmóðurfræði verið kennd á Íslandi í 250 ár. Ólöf Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður náms í ljósmóðurfræðum og fræðasviðs í fæðingarhjálp við HÍ, segir að títt hafi verið tekist á um það hvort ljósmóðurfræði ætti að vera kennd á háskólastigi. Jafnframt segir hún að fagið hafi leitt af sér fyrstu stétt íslenskra kvenna í opinberu starfi.

„Upphaf námsins markast af því að í embættisbréfi fyrsta landlæknis Íslands, Bjarna Pálssonar, sem kom til landsins 1760, stóð að honum væri skylt að veita einni eða fleiri siðsömum konum tilhlýðilega fræðslu í ljósmóðurlist og vísindum.“

Að sögn Ólafar fékk Bjarni landlæknir lærða ljósmóður frá Danmörku, Margarethe Katrínu Magnussen, til þess að sinna kennslunni árið 1761. Ólöf segir að fyrsta námsbók í ljósmóðurfræði hafi komið út árið 1749, Sá nýi yfirsetukvennaskóli, sem notuð var lengi við kennslu.

„Ljósmæður marka fyrstu stétt íslenskra kvenna í opinberu starfi sem fá laun og starfa utan heimilis. Ljósmæður fengu laun fyrir störf sín fljótlega eftir að formleg kennsla hófst en fyrstu heildarlög stéttarinnar tóku gildi árið 1875. Þá var námstími ljósmæðra skilgreindur þrír mánuðir og síðar sex mánuðir allt til ársins 1932. Það ár var námsárið einn vetur og starfsheitið varð ljósmóðir.“

Titill
Ólöf Ásta Ólafsdóttir

Text

„Á Íslandi hefur enginn karlmaður hlotið formlega ljósmæðramenntun og enginn hefur sótt um nám í ljósmæðraskóla svo vitað sé. Áður fyrr stunduðu karlmenn fæðingarhjálp og er yfirsetumanna eða ljósfeðra getið í Ljósmæðratalinu.”

Image
Image
Ólöf Ásta Ólafsdóttir

20 ára menntun

Í dag er nám í ljósmóðurfræði tveggja ára nám til kandídatsgráðu en inntökuskilyrði er grunnnám í hjúkrunarfræði og hjúkrunarleyfi á Íslandi, en svo hefur verið frá árinu1982. Ólöf segir að við stofnun Háskóla Íslands árið 1911 hafi verið rætt um það hvort ljósmóðurnám ætti að verða kennt með læknisfræði í háskólanum. „Af því varð ekki, meðal annars vegna fjárskorts, en ekki tókst að fá fjárveitingu fyrir kennslu ljósmæðranema. Það má velta því upp hvort það hafi haft áhrif að um kvennastétt var að ræða.“ Í dag tekur það tuttugu ár að verða ljósmóðir: tíu ár í grunnskóla, fjögur ár í framhaldsskóla, fjögur ár í hjúkrunarfræði og tvö ár í sérhæfingu.

Ljósmæður hafa í gegnum tíðina þurft að berjast fyrir kjörum sínum og sú staða er óbreytt. „Þrátt fyrir langt háskólanám og mikla ábyrgð í starfi stöndum við ekki jafnfætis öðrum með sambærilega menntun. Ákveðin leiðrétting náðist fyrir hrun árið 2008 þótt enn eigi eftir að koma í ljós hver þróunin verður í framtíðinni,“ segir Ólöf.

Á síðustu árum hefur heimafæðingum fjölgað en um 1970 færðust fæðingar að mestu leyti inn á sjúkrahús. Á árinu 2009 fæddu nærri nær tvö prósent íslenskra kvenna heima hjá sér að sögn Ólafar. „Almennt leggur ljósmóðurfræði áherslu á að barneignarferlið sé lífeðlislegt og að fæðing barns inn í fjölskyldu sé ekki síður félagslegur atburður en líffræðilegur. Þess vegna getur heimilið verið sá staður sem verðandi foreldrar velja sem fæðingarstað. Rannsóknir sýna að heimafæðingar bjóða upp á öruggan fæðingarstað þegar meðganga, fæðing og sængurlega gengur eðlilega fyrir sig og fagleg hjálp ljósmóður er til staðar.“

Ljósfeður ekki til

Ólöf segir að aðsókn í ljósmóðurfræði hafi verið jöfn á undanförnum árum. Allt að þrjátíu umsóknir berast á ári og eru tíu til tólf nemendur teknir inn, allt kvenkyns nemar hingað til.

„Á Íslandi hefur enginn karlmaður hlotið formlega ljósmæðramenntun og enginn hefur sótt um nám í ljósmæðraskóla svo vitað sé. Áður fyrr stunduðu karlmenn fæðingarhjálp og er yfirsetumanna eða ljósfeðra getið í Ljósmæðratalinu.”

250 ára afmælis ljósmóðurfræða hér á landi verður minnst með margvíslegum hætti á árinu. Sérstakt fræðirit verður gefið út í tengslum við Ljósmæðrablaðið þar sem nemendur og kennarar kynna rannsóknarverkefni sín og stór ráðstefna verður haldin árið 2012 til þess að halda upp á 100 ára afmæli formlegs skólahalds í ljósmóðurfræði. Fulltrúar fagsins taka þátt í sameiginlegri dagskrá HÍ á aldarafmæli skólans á árinu, t.d. með dagskrá næsta sumar, í samstarfi við minjasöfnin á Nesi við Seltjörn á Seltjarnarnesi.