Header Paragraph

Metnaðarfullur menntavísindamánuður

Image
Kolbrún Mjöll Hrafnsdóttir

Á afmælisári Háskóla Íslands er septembermánuður tileinkaður menntavísindum. Kolbrún M. Hrafnsdóttir kynningar- og vefstjóri Menntavísindasviðs var tekin tali um þá fjölbreyttu dagskrá sem í boði verður í september.

„Dagskráin hefst strax þann 1. september með öndvegisfyrirlestri Dr. Lindu Darling-Hammond prófessors í menntavísindum við Standford háskóla en hún ætlar að fjalla um menntun og kennslu á 21. öld. Dr. Darling-Hammond hefur verið leiðandi í mótun nýrrar menntastefnu núverandi stjórnvalda í Bandaríkjunum. Hún hefur skrifað yfir 300 greinar og fjölda bóka um menntastefnu, framkvæmd hennar, um nám og skólastarf, skipulagsbreytingar í skólum, kennaramenntun og jafnræði í menntun og svo lengi mætti telja,“ segir Kolbrún og bendir á að nánar sé hægt að kynna sér öndvegisfyrirlesarann í rafrænu viðburðadagali skólans.

Heimsóknir og Opið hús

Í afmælismánuðinum munu fulltrúar sviðsins að leggja áherslu á að efla enn frekar tengsl við vettvanginn þ.e. skóla og aðrar stofnanir sem Menntavísindasvið menntar til.

„Þetta gerum við m.a. með heimsóknum kennara Menntavísindasviðs í skóla og stofnanir sem tengjast sviðinu sem munu standa yfir allan mánuðinn“, segir Kolbrún.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Jón Torfi Jónasson, forseti Menntavísindsviðs, munu heimsækja Vatnsendaskóla þann 5. september og marka þar með upphaf þessa heimsókna.

„Þá mun Menntavísindasvið standa fyrir Opnu húsi laugardaginn 17. september þar sem við bjóðum leik-, grunn- og framhaldsskólum að koma til okkar og kynna áhugaverð verkefni sem unnið er að í skólunum.

Margt annað skemmtilegt verður á dagskrá þennan dag, sem er hugsaður fyrir alla fjölskylduna, s.s. kaffihús, upplestur, tónlistaratriði, ljósmyndasýning, uppistand, útileikir og ýmiskonar verkstæði,“segir Kolbrún.

„Á Laugarvatni taka nemendur og kennarar á móti gestum laugardaginn 3. september og bjóða upp á fræðslu um hreyfingu, næringarráðgjöf, ráðgjöf um útivistarbúnað og ýmis konar heilsumælingar. Þá verður farið í gönguferðir, ratleiki, knattleiki, frjálsar íþróttir fyrir krakka, bátsferðir o.fl.,“ segir Kolbrún.

Örnámskeið, kennsla, hreyfing og heilsa

Kolbrún nefnir að sviðið muni bjóða foreldrum upp á örnámskeið öll miðvikudagskvöld í afmælismánuðnum, þar sem fjallað verði um uppeldisaðferðir, næringu barna, sjálfbærni í menntun og tónlist og börn.

„Dagskráin verður afar fjölbreytt og yfirgripsmikil. Við munum t.a.m. bjóða upp á fyrirlestur sænska prófessorsins Bengt Saltin um hreyfingu og heilsu, fyrirlestur hinnar bandarísku Catherine Snow um Word Generation og erindi dr. Alistair Ross prófessors emeritus um pólitík í kennslu. Einnig munu íslenskir fræðimenn fjalla um hugmyndina um góða kennslu og hvernig hugmyndir hafa þróast um menntun til framtíðar,“ segir Kolbrún.

„Boðið verður upp á ráðstefnu um stjórnun og forystu í menntamálum í mánuðinum, gönguferð um slóðir menntunar og fræðslu í Reykjavík og árlega ráðstefnu sviðsins Menntakviku um menntamál þar rannsóknir sem heyra undir sviðið verða kynntar.,“ segir Kolbrún og tekur fram að nemendur og starfsmenn sviðsins séu full tilhlökkunar við undirbúning septembermánuði, sem sviðinu er tileinkaður á aldarafmæli Háskóla Íslands í ár.