Nýsköpunarhlutverk hugvísinda felst í samfélagstengslunum
„Eitt helsta og víðtækasta nýsköpunarhlutverk hugvísindanna við Háskóla Íslands felst í samfélagstengslum þeirra og lykilstöðu gagnvart íslensku menningarlífi og sambandi þess við umheiminn“. Þetta segir Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs, sem stendur í ströngu í marsmánuði ásamt samstarfsfólki sínu á sviðinu. Mánuðurinn er helgaður hugvísindum á afmælisári Háskólans.
Ástráður hefur stýrt Hugvísindasviði frá því að það var sett á laggirnar upp úr miðju ári 2008, eftir að Háskólinn og Kennaraháskóli Íslands höfðu sameinast í endurskipulagðri stofnun.
„Tilurð Hugvísindasviðs var nokkuð sérstök þar sem hún fólst í samruna tveggja deilda í gamla kerfinu, Guðfræðideildar og Hugvísindadeildar. Sú síðarnefnda skiptist hins vegar í þrennt við þann samruna þannig að eftir standa fjórar deildir innan hins nýja sviðs. Eftir á að hyggja hafa þær hræringar hjálpað til við að skapa einingu á sviðinu og koma í veg fyrir að minnsta deildin, sem nú heitir Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, liti svo á að verið væri að innlima hana í gömlu Hugvísindadeildina. Það varð raunverulega til ný heild og innan hennar höfum við leitað nýrra leiða í samstarfi. Það hefur verið sérlega ánægjulegt að starfa með forsetum deildanna fjögurra sem og fulltrúum nemenda í sviðsstjórninni og mér finnst allt sviðið hafa sýnt einhug á erfiðum tímum,“ segir Ástráður.
Hann bætir við að strax í upphafi hafi verið ákveðið að sviðið yrði rekið sem heildstæð fjárhagseining og þannig hafi tekist að koma í veg fyrir miklar innbyrðis sveiflur milli deilda sem hlotist hefðu af fortakslausri beitingu þess deililíkans sem Háskólinn býr við. „Við endurskipulagningu skólans var skrifstofan stækkuð og það hefur auðveldað okkur að mæta vaxandi nemendafjölda og jafnframt hefur okkur tekist að efla rannsóknaþjónustu á sviðinu, sem og raunar vefþjónustu, einnig út á við, eins og best sést á hinum nýja vefmiðli sviðsins, Hugrás .“
Endurskoðun viðtekinna hugmynda einnig nýsköpun
Frá hruni efnahagskerfisins hefur umræða um nýsköpun, ekki síst í háskólastarfi, verið nokkuð áberandi í samfélaginu og áhersla lögð á að háskólarnir komi að uppbyggingu samfélags og efnahagslífs. Aðspurður um helstu vaxtarsprotana á Hugvísindasviði bendir Ástráður á að nýsköpunarhugtakinu sé hægt að beita á fleiri en einn hátt.
„Iðulega er með því lögð áhersla á hagnýtingu þeirrar fræðilegu þekkingar sem fyrir er en á hinn bóginn má aldrei vanmeta þá nýsköpun sem felst í sjálfri grunnvinnu þekkingarinnar, fræðilegri athugun og ígrundun sem á sér stað í tilraunum með hugmyndir, þær myndir af veruleikanum sem geta á hverjum tíma sýnst stöðugri en þær eru í raun,“ segir Ástráður.
Hann tekur dæmi af hvoru tveggja. „Augljósustu dæmin um hið fyrrnefnda á Hugvísindasviði er hagnýta meistaranámið í ýmsum greinum, oftar en ekki með þverfræðilegum áherslum, þ.e. í menningarmiðlun, ritstjórn og útgáfu, siðfræði, þýðingum og nú færist ritlistin á meistarastig í haust. Einnig er hægt að sækja dæmi í alla deigluna sem einkennir kennslu og miðlun tungumála á Hugvísindasviði. En í hinni hagnýtu útfærslu felast líka ýmis tækifæri til að kanna og endurskoða grundvöll fræðanna – sögu, heimspeki, skáldskap, list, fegurð, heimsmynd og hefðir og ekki síst tungumálið sjálft. Við þá vinnu reynir á breiðan grundvöll hugvísindanna – og sá grunnur hefur verið að breikka við Háskóla Íslands, með nýjum námsleiðum sem bæst hafa við á síðastliðnum áratug, t.d. í fornleifafræði, miðaldafræði, listfræði, kvikmyndafræði, menningarfræði, þýðingafræði og táknmálsfræði. Eitt helsta og víðtækasta nýsköpunarhlutverk hugvísindanna við Háskóla Íslands felst í samfélagstengslum hugvísindanna: lykilstöðu þeirra gagnvart íslensku menningarlífi og sambandi þess við umheiminn,“ bætir Ástráður við.
Titill
Ástráður Eysteinsson
„Iðulega er með því lögð áhersla á hagnýtingu þeirrar fræðilegu þekkingar sem fyrir er en á hinn bóginn má aldrei vanmeta þá nýsköpun sem felst í sjálfri grunnvinnu þekkingarinnar, fræðilegri athugun og ígrundun sem á sér stað í tilraunum með hugmyndir, þær myndir af veruleikanum sem geta á hverjum tíma sýnst stöðugri en þær eru í raun.“
Hlutverk klassískra greina að efast um tæknina?
Margir hafa þá hugmynd af hugvísindunum að þau snúist fyrst og fremst um grúsk í bókum en minna um þróun og nýtingu hvers kyns tækninýjunga eins og algengara er t.d. í raun- og læknavísindum. Tungutæknin er þó dæmi um grein þar sem menn hafa virkjað tækninýjungar og hugvísindi saman með ágætum árangri.
Ástráður bendir einnig á stoðtækni sem nýtist í þýðingum „og reyndar hefur tölvuvæðingin komið sér almennt vel í margvíslegri vinnu með tungumálið. Dæmi um þetta má sjá í kennsluvefnum Icelandic Online og í tungumálamiðstöðinni sem rekin er innan Hugvísindasviðs og býður öllum nemendum og kennurum HÍ þjónustu sína. Þessi tölvu- og tæknivæðing mun svo ekki síst setja svip sinn á hina nýju alþjóðlegu miðstöð tungumála sem senn mun rísa á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Hún á eftir að verða hugvísindunum lyftistöng og kann jafnvel að koma að nokkru leyti til móts við þá þörf á sjónrænni tæknivæðingu sem sumar greinar okkar kalla á í vaxandi mæli, til dæmis hagnýt menningarmiðlun, menningarfræði, kvikmyndafræði og listfræði,“ segir Ástráður.
„Við eigum eftir að sjá betur hvaða áhrif tæknivæðingin hefur á klassískar greinar sem vonandi verða áfram sterkar í okkar ranni, t.d. sagnfræði, bókmenntafræði, heimspeki og trúarbragðafræði. Kannski er hlutverk þeirra m.a. að vera í ákveðinni efasemdarstöðu um tæknina og spyrja krítískra spurninga um hana,“ segir hann enn fremur.
Alþjóðlegt fræðasetur og íslensk menningarstofnun
Það orð fer af Ástráði að hann sé kraftmikill í starfi og leggi mikið upp úr því að sinna öllum deildum sviðsins vel. Hann segir aðspurður ekki sitt að dæma um frammistöðu sína en „ vissulega er ég mjög áfram um að allar deildir og greinar sviðsins blómstri.“ Þegar spurt er hvað reki hann áfram og hvert hann vilji sjá sviðið stefna segir Ástráður:
„Mér finnst ég vera í starfi sem veitir einstakt tækifæri: að stýra eina hugvísindasviðinu sem starfar á háskólastigi í þessu landi. Þetta veitir manni sérstakt sjónarhorn á stöðu sviðsins gagnvart umheiminum og hinu alþjóðlega fræðasamfélagi og ekki síður gagnvart íslenskri menningu og samfélagi. Hugvísindasvið býr til frambúðar við mikla áskorun því við þurfum að glíma við erfitt og raunar tvöfalt hlutverk: að vera alþjóðlegt fræðasetur og jafnframt íslensk menningarstofnun. Mér ber að ala á þessum tvöfalda metnaði sem verður þó að vera einn og heill.“
Á eftir glímur við meistarann frá Prag
Ástráður hefur sem fræðimaður lagt stund á rannsóknir í bókmenntafræði en einnig sinnt þýðingum. Hann hefur til að mynda þýtt stóran hluta af verkum Franz Kafka ásamt föður sínum, Eysteini Þorvaldssyni. Lítill tími gefst til slíka starfa nú.
„Ég skal játa að ég hef óttast að sviðsforsetastarfið, einkum við núverandi efnahagsaðstæður, kunni að gera mér ókleift að halda lífi í mínum eigin rannsóknaþræði. Ég hef brugðist við þessu með því að taka að mér ákveðin fræðileg verkefni sem ég svo „neyðist“ til að vinna, undantekningalítið undir mikilli pressu. Ég hef einnig átt erfitt með halda dampi í þýðingunum en enn er sitthvað óunnið þar, til dæmis í Kafka-þýðingum, sem ég hef sinnt í skemmtilegu samstarfi við föður minn. Við höfum ekki sagt okkar síðasta orð fyrir hönd meistarans frá Prag,“ segir Ástráður.