Header Paragraph

Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum 20 ára

Image
Irma Erlingsdóttir

Rannsóknastofa í kvennafræðum var stofnuð árið 1990, en hún tók til starfa í lok ágúst 1991. Stofnunin á því 20 ára starfsafmæli á haustmisseri. Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður RIKK var tekin tali á afmælisvef Háskóla Íslands.

Hvernig hafið þið fagnað afmælisárinu hingað til? Hvernig þróaðist starfið?

„Stofnun Rannsóknastofunnar átti sér nokkur aðdraganda. Á fyrri hluta 8. áratugarins fóru fræðikonur innan Háskóla Íslands og áhugasamir einstaklingar utan háskólasamfélagsins að leggja stund á rannsóknir tengdar konum, einkum á sviði bókmennta, félagsvísinda og sagnfræði.

Upp úr 1980 var boðið upp á námskeið við Háskóla Íslands á fræðasviðinu, eins og í kvennabókmenntum og kvennasögu, og kviknaði mikill áhugi á þessum fræðum. Fyrsta ráðstefnan um kvennarannsóknir var síðan haldin 1985, en þar kynntu tugir fræðikvenna rannsóknir sínar af 15 mismunandi fræðasviðum. Í kjölfarið var stofnaður Áhugahópur um kvennarannsóknir, en í honum voru einstaklingar innan og utan háskólans.

Árið 1987 fékkst einnar milljónar króna fjárveiting á fjárlögum til styrktar kvennarannsóknum og sá Áhugahópurinn um úthlutun þess fjár til rannsóknaverkefna og stóð auk þess fyrir reglulegum fyrirlestrum um kvennarannsóknir. Eitt helsta markmið Áhugahópsins var að koma á fót sérstakri stofnun í kvennafræðum við Háskóla Íslands líkt og gerst hafði við erlenda háskóla þegar á áttunda áratugnum.

Það er enginn vafi á því að hópurinn sem stóð að stofnun Rannsóknastofu í kvennafræðum (nú Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum) gerði jafnréttismál við Háskóla Íslands sýnileg og hafði mikil áhrif á framgang málaflokksins,“ segir Irma og bætir því við að þar sem Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) hafði lengi takmarkaða fjárveitingu hefði aðeins verið hægt að hafa einn starfsmann í hlutastarfi

„Með samstarfssamningi RIKK og Reykjavíkurborgar, sem þau Páll Skúlason, þáverandi rektor Háskóla Íslands og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi borgarstjóri undirrituðu árið 2000 varð gjörbreyting á starfsaðstæðum stofunnar því að þá var fyrst unnt að ráða forstöðumann í fullt starf. Samningurinn hefur nú verið endurnýjaður tvisvar. Markmiðið var að efla rannsóknir á sviði kvenna- og kynjafræða. Sú starfsemi sem fer fram á vegum Rannsóknastofunnar ber því glöggt vitni að þessi samningur hefur haft mikil áhrif og stutt við nýsköpun bæði hvað varðar uppbygginu náms og rannsókna við Háskóla Íslands,“ segir Irma og bætir því við að RIKK fagni nú 20 ára afmæli á aldarafmæli skólans.

Í hverju felst starfsemi RIKK og hvað er það markverðasta, sem með starfinu hefur unnist að ykkar mati?

„RIKK er þverfagleg stofnun sem í daglegu starfi miðlar þekkingu á rannsóknum á sviði kvenna- og kynjafræða, meðal annars með bókaútgáfu. Auk þess styður hún fræðimenn og skipuleggur ráðstefnur og fundi. RIKK hefur til dæmis frá upphafi staðið fyrir fyrirlestraröð, bæði á haust- og vormisseri, þar sem fræðimenn kynna rannsóknarverkefni sín.

Samkvæmt nýrri tilhögun stofnana sem áður heyrðu undir Háskólaráð var RIKK flutt yfir á Hugvísindasvið árið 2010, en hún er eftir sem áður sjálfstæð og þverfagleg stofnun og helst hlutverk hennar óbreytt. Stofnunin leggur metnað sinn í að starfa með fræðimönnum af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands. RIKK hefur margvísleg tengsl út fyrir skólann, jafnt innanlands sem og á alþjóðavettvangi, og starfar í því samhengi sem fulltrúi háskólans í heild,“ segir Irma og bætir því við að RIKK hafi verið frá upphafi öflug miðstöð nýsköpunar.

„Stofnunin hafði á sínum tíma forgöngu um að námsbraut í kynjafræðum var komið á laggirnar og hvatti til stofnunar jafnréttisnefndar Háskóla Íslands. Einnig hefur hún átt samstarf við ýmis réttindasamtök kvenna. Þá átti hún mikinn þátt í þróun og uppbyggingu Alþjóðlegs jafnréttisskóla (GEST) og EDDU – öndvegisseturs sem eru ný og framsækin verkefni á sviði jafnréttismála. Þessi verkefni starfa sem sjálfstæðar einingar, með aðskilið regluverk og aðskildar stjórnir, en í nánu samstarfi við RIKK. RIKK, GEST og EDDA eru svokallaðar systurstofnanir með sama starfslið,“ segir Irma.

Titill
Irma Erlingsdóttir

Text

„RIKK er þverfagleg stofnun sem í daglegu starfi miðlar þekkingu á rannsóknum á sviði kvenna- og kynjafræða, meðal annars með bókaútgáfu. Auk þess styður hún fræðimenn og skipuleggur ráðstefnur og fundi. RIKK hefur til dæmis frá upphafi staðið fyrir fyrirlestraröð, bæði á haust- og vormisseri, þar sem fræðimenn kynna rannsóknarverkefni sín.“

Image
Image
Irma Erlingsdóttir

„Við Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki hófum undirbúningsvinnu fyrir EDDU og GEST haustið 2007. Árið 2009 var samstarfssamningur milli utanríkisráðuneytisins og Háskóla Íslands um rekstur og þróun GEST undirritaður. Skólinn hefur að markmiði að verða einn af skólum Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (ásamt Jarðhitaskólanum, Sjávarútvegsskólanum og Landgræðsluskólanum). Nemendur GEST hafa komið frá Afganistan, Palestínu, Úganda og Mósambík. Kennarar við skólann eru bæði háskólakennarar og sérfræðingar frá stofnunum og grasrótarsamtökum. Einnig koma á hverju ári erlendir sérfræðingar víðsvegar að til að kenna við skólann. Verndari skólans er Vigdís Finnbogadóttir.

EDDA er þverfaglegt öndvegissetur í gagnrýnum samtímarannsóknum, með sérstaka áherslu á jafnrétti og margbreytileika. Rannsóknir setursins eru m.a. á sviði stjórnmála, þverþjóðlegra fræða, samfélags, menningar, öryggismála, sjálfbærni og þróunar. Í rannsóknaráætlun setursins fyrir árið 2009-2010 var lögð áhersla á að rannsaka áhrif alþjóðlegu fjármálakreppunnar og íslenska bankahrunsins sem sigldi í kjölfarið. Í framhaldinu verður lögð rækt við rannsóknir á pólitísku, samfélagslegu og hugarfarslegu endurmati og uppbyggingu innan lands og utan,“ segir Irma.

Nú er dagskráin hjá ykkur í fullum gangi. Er eitthvað sérstakt sem þú vildir vekja athygli á, einhver sérstakur fyrirlestari t.d.?

„Dagskrá RIKK nú á haustmisseri er fjölbreytileg og samanstendur af hádegisfyrirlestrum, málþingum, og ráðstefnum.

Stærsti viðburðinn á misserinu er alþjóðleg afmælisráðstefna RIKK sem verður haldin 4.-5. nóvember. Afmælisráðstefnan er fimmta stöðu- og/eða yfirlitsráðstefnan um kvenna- og kynjarannsóknir sem hefur verið haldin við Háskóla Íslands. Sú fyrsta var haldin eins og áður sagði árið 1985.

Rannsóknastofan hyggst framvegis skipuleggja þennan viðburð á fimm ára fresti, en það gerir mögulegt að halda upp á stórafmæli stofnunarinnar við sama tækifæri. Þetta verður gert með ýmsu móti hvort sem það verður í formi yfirlitsráðstefnu, stöðumats eða með alþjóðlegri ráðstefnu um valið viðfangsefni — allt eftir því hver þörfin verður á þeim tíma.

Síðastliðið vor var kallað eftir erindum fyrir afmælisráðstefnuna og bárust fjölmargar tillögur að erindum. Ráðstefnan í ár skiptist í um 14 málstofur með þátttöku fræðimanna af ólíkum fræðasviðum. Meðal lykilfyrirlesara verður Joni Seager, prófessor í hnattrænum fræðum við Bentley-háskóla í Boston. Hún stundar femínískar rannsóknir á sviði landfræði, alþjóða- og umhverfismála. Seager er afkastamikil fræðikona og hefur birt fjölda greina og bóka. Hún er til dæmis höfundur bókarinnar „The Penguin Atlas of Women in the World“ sem hefur fengið gríðarlega góða dóma og unnið til verðlauna. Hún hefur einnig starfað sem ráðgjafi hjá Sameinuðu þjóðunum og unnið þar að verkefnum er varða umhverfismál og stefnumótun í vatnsmálum. Í fyrirlestri sínum mun hún fjalla um stefnumótun í jafnréttis- og umhverfismálum,“ segir Irma.

Á þeim 100 árum sem skólinn hefur starfað hefur samfélagið og háskólinn tekið stakkaskiptum. Nú eru 14 þúsund manns við nám í skólanum en fyrsta námsárið voru nemendur 45 talsins. Ein kona hóf nám 1911 en nú eru konur í meirihluta á öllum námsstigum. Hvernig lítið þið á þessa þróun, í stuttu máli?

„Vitaskuld er það ánægjuleg þróun að menntun kvenna hefur aukist verulega og rætt hefur verið um uppsafnaða menntunarþrá kvenna í þessu samhengi. Þegar kemur að launamun kynjanna hafa skilaboð samfélagsins til kvenna alltaf verið þau að með aukinni menntun uppskæru þær eins og karlar. Þegar það markmið næðist hyrfi launamunurinn. En við stöndum þó enn frammi fyrir talsverðum launamun þrátt fyrir hátt menntunarstig og mikla atvinnuþátttöku kvenna.

Enn er námsval mjög ólíkt eftir kynjum og vinnumarkaðurinn er mjög kynskiptur. Karlar eru fjölmennari í efstu lögum atvinnulífsins og pólitískri ákvarðanatöku. Bent hefur verið á að menntun skili konum lægri tekjum en körlum og að karlar með litla menntun eigi betri möguleika á að fara í betur launuð störf heldur en konur með litla menntun. Í þessu samhengi má nefna að á alþjóðlegri afmælisráðstefnu RIKK verður sérstök öndvegismálstofa, í samstarfi við Kvennasögusafnið og Jafnréttisstofu, þar sem reynt verður að svara spurningunni: Hverju hefur menntun kvenna skilað?,“ segir Irma að lokum.

Dagskrá RIKK á afmælisárinu

Heimasíða RIKK

Heimasiða GEST

Heimasíða EDDU